Miðvikudagur 5. júlí 2006

186. tbl. 10. árg.

Eins og fram hefur komið standa nú fyrir dyrum fríverslunarviðræður íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda í Peking. Frjáls verslun á milli landa er óumdeilanlega afar jákvæð fyrir íbúana og að því leyti má vissulega líta það jákvæðum augum að Íslendingum og Kínverjum verði gert auðveldara að eiga viðskipti sín á milli án þess að ríkin tvö reyni að hindra viðskiptin með tollum eða öðru móti. Fríverslunarsamningar eru þess vegna almennt talað jákvæðir gjörningar, en þeir eru um leið ágæt áminning um það óeðlilega ástand sem ríkir í viðskiptum milli íbúa ólíkra landa. Fríverslunarsamningar minna á það að ríki beita alls kyns aðferðum við að takmarka viðskipti milli íbúa ólíkra ríkja þrátt fyrir að viðurkennt sé að frjáls verslun kæmi íbúunum vel. Hvernig má þetta vera? Jú, í einhverjum tilvikum nota ríkin tolla til tekjuöflunar, en miklu oftar eru viðskiptahindranir á borð við tolla eða kvóta notaðar til að verja stöðu innlendra framleiðslu- eða þjónustufyrirtækja. Væri þessi misskilda verndarhugsun ekki til staðar þyrfti enga fríverslunarsamninga því að ríkin héldu þá ekki uppi neinum sérstökum aðgerðum til að gera íbúa sína – og annarra – fátækari.

En þó að fríverslunarsamningar séu almennt talað jákvæðir þá er nauðsynlegt að fara að gát þegar samið er við stjórnvöld í Peking um fríverslun, því að þau stjórnvöld eru ekki hefðbundin stjórnvöld eins og Íslendingar þekkja. Í Peking eru ekki lýðræðislega kjörin stjórnvöld heldur byltingarstjórn kommúnistaflokks Kína. Og þó að þessi stjórnvöld – sem vissulega fara með stjórn á meginlandi Kína þó að þau séu ekki rétt kjörin – hafi um margt stigið jákvæð skref á síðustu árum, þá má hvorki gleyma eðli þeirra né framgöngu gagnvart eigin íbúum eða íbúum nálægra ríkja.

Það má ekki heldur gleyma því að á kínversku eyjunni Tævan undan ströndum meginlandsins eru lýðræðislega kjörin kínversk stjórnvöld sem þurfa á stuðningi annarra lýðræðisríkja að halda í erfiðri baráttu sinni gegn yfirgangi byltingarstjórnarinnar. Þessi barátta hefur að vísu ekki verið háð með vopnum, en Pekingstjórnin hefur þó ítrekað hótað vopnavaldi ef stjórnvöld á Tævan ganga lengra en Pekingstjórninni líkar í aðskilnaði Tævan og meginlandsins.

Pekingstjórnin er kunn fyrir að beita vaxandi afli sínu í heimsviðskiptum til að hræða erlend ríki frá því að halda uppi eðlilegum samskiptum við Tævan. Íslendingar hafa meðal annars fundið fyrir þessum þrýstingi þegar þingmenn héðan voga sér að heimsækja eyjuna. Þetta er óþolandi yfirgangur byltingarstjórnarinnar og þó að frjáls viðskipti séu góð og jákvætt sé að eiga viðskipti við íbúa meginlands Kína, þá má það ekki verða til þess að spilla samskiptum eða viðskiptum við Tævan. Helsta hættan við fyrirhugaðan fríverslunarsamning er að stjórnvöld á meginlandi Kína ætli að nota hann til að stuðla að einangrun Tævan, en íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að tryggja að svo fari ekki.