Helgarsprokið 2. júlí 2006

183. tbl. 10. árg.

ÍVegvísi greiningardeildar Landsbankans var í vikunni fjallað um nýjar tölur Hagstofunnar um tekjur og gjöld hins opinbera á fyrsta fjórðungi ársins. Hröð aukning tekna hins opinbera er mikið áhyggjuefni, en tekjur ríkisins jukust um 17,7% á milli ára og tekjur sveitarfélaganna um 19,4% þegar horft er til fyrsta fjórðungs ársins. Rekstrarútgjöld ríkisins jukust um 6,4% milli ára, sem er talsvert minni aukning en á tekjuhliðinni en aukning útgjaldanna er engu að síður áhyggjuefni. Útgjaldaaukning ríkisins er þó hrein hátíð miðað við það sem sveitarfélögin bjóða skattgreiðendum upp á því að útgjöld sveitarfélaganna jukust um 22,4%, eða mun meira en tekjurnar sem þó fóru hratt vaxandi.

Í Vegvísinum segir að mikil efnahagsumsvif skili auknum tekjum hins opinbera í formi skatta, og þar segir ennfremur: „Sífelld bætt afkoma hins opinbera, sem drifin er áfram af tekjuafgangi ríkissjóðs, er gleðiefni á þenslutímum. Sveitarfélögin halda hins vegar uppteknum hætti undanfarinna missera með hallarekstri. Þegar litið er til útgjaldaaukningar frá ársbyrjun 2005 hafa útgjöld sveitarfélaga aukist um 18,9%, á meðan útgjöld ríkissjóðs drógust saman um 0,2 á föstu verðlagi (staðvirt með vísitölu samneyslunnar). Borið saman við hagvöxt síðasta árið upp á 5% kemur í ljós að sveitarfélögin voru þensluhvetjandi á meðan ríkissjóður [var] þensluletjandi. Samanlagt uxu útgjöld hins opinbera um 4,4% eða ívið minna [en] hagvöxturinn sem felur í sér að hið opinbera sló lítillega á þenslu hvað útgjöld varðar.“ Greiningardeildin lýkur þessari umfjöllun sinni með því að segja að þetta undirstriki mikilvægi þess að samstarf náist milli ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir til að ná betri tökum á heildarútgjaldaþróun hins opinbera, sérstaklega við núverandi aðstæður þegar draga þurfi saman seglin í efnahagslífinu.

„Eitt af brýnustu verkefnum stjórnmálanna nú um stundir er ekki að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna heldur að færa verkefni frá sveitarfélögunum – og ríkinu líka – til fólksins sjálfs.“

Þetta er afskaplega kurteislega orðuð gagnrýni á óráðsíu sveitarfélaganna hjá greiningardeild Landsbankans en segir þó mikla sögu. Staðreyndin er nefnilega sú, eins og Vefþjóðviljinn hefur ítrekað bent á, að þó að ríkið hafi aukið útgjöld sín allt of mikið þá er vandinn enn meiri hjá sveitarfélögunum. Eins og að framan segir jukust útgjöld sveitarfélaganna um 22,4% á milli ára, sem þýðir einfaldlega að þau hafa misst alla stjórn á rekstrinum og ráða alls ekki við þau verkefni sem þeim hafa verið falin. Krafa sumra sveitarstjórnarmanna hefur verið sú að leysa fjárhagsvandann með því að auka heimildir þeirra til skattlagningar íbúanna, en ríkið hefur sem betur fer ekki samþykkt það. Að ætla að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna með því að veita til þeirra meiri fjármunum er ámóta líklegt til árangurs og að ætla að leysa drykkjuvanda alkóhólista með því að hella í hann áfengi.

Önnur krafa sumra sveitarstjórnarmanna er að verkefni verði færð frá ríki til sveitar og þau furðulegu rök færð fram að með því færist þjónustan nær fólkinu, eins og það er stundum orðað. Afleiðingin af slíkri breytingu yrði hins vegar ekki sú að þjónustan mundi færast nær fólkinu heldur miklu frekar að sveitarstjórnarmennirnir myndu færast dýpra í vasa almennings og er ekki á bætandi. Eitt af brýnustu verkefnum stjórnmálanna nú um stundir er ekki að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna heldur að færa verkefni frá sveitarfélögunum – og ríkinu líka – til fólksins sjálfs. Fólk á ekki að sætta sig við að þjónustan verði færð nær fólkinu, það á að krefjast þess að hún verði flutt alla leið til fólksins.

Slík breyting fæli margt í sér, til að mynda að sveitarfélögin myndu hætta að reka dagheimili fyrir yngstu íbúana. Slík þjónusta yrði færð til fólksins sjálfs og börnin þyrftu þá ekki að vera vistuð á opinberum stofnunum sem lúta opinberum stöðlum og reglum en gætu þess í stað verið á fjölbreytilegum dagheimilum í eigu einstaklinga og félaga þeirra. Götur innan sveitarfélaganna þyrftu ekki heldur að vera í eigu þeirra sjálfra en gætu þess í stað verið í eigu einhverra íbúa þeirra eða annarra sem sæju sér hag í að eiga og reka göturnar, líkt og fyrirtækið Spölur gerir við Hvalfjarðargöngin sem hafa reynst prýðileg fjárfesting og þjónað ferðalöngum vel. Samgöngutæki í sveitarfélögum geta líka öll verið í eigu og rekstri einstaklinga og það sama má segja um grunnskóla og flest eða allt annað sem sveitarfélögin eiga og reka.

Sveitarfélögin hafa þanið sig út og árangurinn er vægast sagt skelfilegur fyrir skattgreiðendur og löngu tímabært að snúið verði af þessari braut. Tilgangurinn með útþenslunni er sagður sá að bæta þjónustu við íbúana en það gleymist jafnan að íbúarnir hafa sjálfir þurft að borga fyrir útþensluna og það dýru verði. Óhagkvæmur rekstur og sóun sveitarfélaganna kostar íbúa þeirra mikla fjármuni sem mætti spara með því að íbúunum sjálfum yrði treyst til að bjóða upp á og verða sér úti um þá þjónustu sem þá vanhagar um. Fólk þarf ekki á því að halda að láta skammta sér lífsgæðin og láta um leið neyða sig til að vinna fyrir þessum gæðum. Sveitarfélögin þurfa á næstu árum að vinda ofan af útþenslu- og útgjaldastefnu síðustu ára. Núverandi stefna gengur augljóslega ekki því að óhjákvæmileg afleiðing hennar er að sveitarfélögin verða gjaldþrota. Nema þeim takist að sannfæra ríkið um að leyfa sér að hækka skatta á íbúana eftir þörfum – og þá mætti fljótlega búast við fjöldagjaldþroti íbúanna.

Lausnin á fjárhagsvanda sveitarfélaganna er augljós og einföld, nefnilega að draga úr umsvifum þeirra og láta útgjöldin ævinlega vera minni en tekjurnar. Þetta þýddi hins vegar að sveitarstjórnarmenn þyrftu að minnka völd sín og áhrif og treysta íbúunum betur til að stjórna eigin lífi. Af einhverjum ástæðum virðist mikill meirihluti sveitarstjórnarmanna ekki treysta íbúum sveitarfélaganna vel, en því eru lítil takmörk sett hversu vel þeir treysta sjálfum sér fyrir auknum völdum og inngripum í líf íbúanna.