Jón Kristjánsson lét að vísu af ráðherraembætti í gær, en það er ekki þar með sagt að allt hafi verið landsmönnum mótdrægt þann dag. Í gær kom til dæmis út sumarhefti tímaritsins Þjóðmála, þar sem að venju kennir margra grasa. Full ástæða er til þess að mæla með því við allt áhugafólk um þjóðmál og menningu að það kynni sér Þjóðmál en í bóksölu Andríkis má fá hvort sem er áskrift eða stök hefti, nema hvort tveggja væri.
Í sumarhefti Þjóðmála er fjallað um ýmis mál. Tveir hagfræðingar, Stefán Sigurðsson og Gunnar Haraldsson, skrifa um íslenskt efnahagslíf, Stefán um hina svonefndu íslensku útrás og ásýnd íslensks efnahagslífs erlendis en Gunnar hefur rannsakað umtalaðar skýrslur erlendra greiningarfyrirtækja um Ísland og fjallar um þær og viðbrögð íslenskra fjölmiðla við þeim. Annað mál og mikilvægara er svo öryggi landsins, en í heftinu er fjallað um stöðuna í öryggis- og varnarmálum. Um hana skrifa Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Magnea Marínósdóttir stjórnmálafræðingur ýtarlegar greinar, og ef einhver heldur að höfundar Þjóðmála komi úr svipaðri átt þá má nefna að þriðji maður sem skrifar um þetta efni er Einar Karl Haraldsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans.
Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur skrifar forvitnilega grein um sögu samskipta Íslands og Ísraels, og kemur eflaust einhverjum á óvart að komast að því að á Íslandi fögnuðu fáir stofnun Ísraelsríkis meira en sósíalistar og fáir höfðu minni áhyggjur af þeim sem fyrir kunnu að vera á því landi sem Ísraelsríki var stofnað. „Landnám þeirra í Palestínu, byggt á sameign og samvinnu, hefur breytt hálfgerðri eyðimörk í blómlegustu byggðir Mið-Austurlanda“ sagði á forsíðu Þjóðviljans við stofnun Ísraelsríkis. Og í leiðara ekki löngu síðar segir Þjóðviljinn að það sé „siðferðileg skylda mannkynsins að tryggja þeim, sem eftir lifa af þjóð spámanna og Jesú frá Nasareth, þjóð Spinoza og Heine, ættjörð er sé þeirra og þeirra einna.“
Í Þjóðmálum er margt fleira forvitnilegt. Ungur rithöfundur, sem vakið hefur töluverða eftirtekt, Stefán Máni, skrifar um listamannalaun og segist frekar vilja þiggja styrki frá fyrirtækjum en skattgreiðendum, Atli Harðarson heimspekingur skrifar um verðmætamat og náttúruspjöll og tveggja alda afmæli Johns Stuarts Mills hefur ekki farið fram hjá Þjóðmálum en Þórður Pálsson skrifar fróðlega grein um hann. Guðbjörg Kolbeins fjölmiðlafræðingur skrifar rækilega grein um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og Hannes H. Gissurarson spyr hvort bókmenntir bæti heiminn. Af bókadómum Þjóðmála má nefna að fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason fjallar um bók Ólafs Teits Guðnasonar, Fjölmiðla 2005, og hinn kunni gagnrýnandi Kárahnjúkavirkjunar, Þorsteinn Siglaugsson, skrifar um Draumaland Andra Snæs Magnasonar. Í dómi sínum segir Egill Helgason að margir blaðamenn reiðist mjög þegar fundið sé að verkum þeirra og þekki hann sjálfur marga sem „umhverfist“ þegar Ólafur Teitur Guðnason sé nefndur á nafn. Enda eru bækur Ólafs Teits ákaflega forvitnilegar og í raun „skyldulesning fyrir áhugamenn um pólitík“ eins og Egill Helgason sagði um fyrri bók Ólafs, Fjölmiðla 2004. Báðar bækurnar fást enn í bóksölu Andríkis, en verulega hefur gengið á upplag þeirrar eldri eins og vænta má.