Ítilefni dagsins:
Ýmsir ætla að Halldór Ásgrímsson sé áhugalítill um stjórnarfar og landshagi og hugsi mest um sig og sína, en slíkt er misskilningur. Maðurinn er frjálslyndur og víðsýnn og myndi kunna því vel, ef flokkur hans gengi í endurnýjun lífdaganna, þegar hann barðist hart og djarft fyrir umdeildum en minnisstæðum hugsjónum. Halldór Ásgrímsson er aldamótabarn, sem hefur lært fræði sín í ströngum skóla og komizt til þroska af vandasömum störfum. Hann skipaði sér ungur undir merki ungmennafélaganna og samvinnuhreyfingarinnar og hefur aldrei gleymt herhvöt æskunnar, þó að hann gangi ekki út á stræti og gatnamót til að æpa hana, enda er maðurinn hvorki hávær né fyrirferðarmikill í fjölmenni. Halldór er óspilltur, og bein hans svo sterk, að hann þolir ágætlega góða daga í Reykjavík. Heimkominn í Vopnafjörð verður hann á svipstundu samur og fyrrum, þegar vandinn var vegsemd og vegsemdin vandi. Hann man skylduna við fólkið, sem erjar landið í blíðu og stríðu, og vildi gjarna rækja hana í starfi og baráttu, þó að hann muni varla eiga frumkvæði að þeim atburðum. |
– Lúpus, (Helgi Sæmundsson), Sjá þann hinn mikla flokk, Reykjavík 1956, bls. 81. |
Gott og vel. Þetta er auðvitað ekki Magnús stormur en Lúpus, eins og Helgi Sæm. kallaði sig stundum, átti samt sína spretti. Og palladómar Lúpi eru sjálfsagt ekki minna viðeigandi en hvað annað sem Vefþjóðviljanum hefði sjálfum hugkvæmst í kveðjuskyni við stjórnmálamann sem setið hefur á ráðherrastóli lengur en nokkur annar núlifandi Íslendingur. Gagnsemi þeirrar setu er svo auðvitað pólitískt deiluefni, en allir mega eiga það sem þeir eiga og vel má nefna á þessum degi að aflamarkskerfið í sjávarútvegi, sem Halldór Ásgrímsson yngri á vissulega sinn þátt í, er á flestan hátt einkar vel heppnað og raunar dæmi um að stjórnmálaflokkum er ekki alls varnað.
En margt er það hins vegar sem stjórnmálamenn taka sér fyrir hendur sem verr er heppnað og ástæða til að berjast gegn. Lítið mál frá gærdeginum er skipun Jóns Kristjánssonar á opinberri nefnd sem ætlað er að minnka hlut karlmanna við næstu alþingiskosningar. Að vísu er notað orðalagið „að auka hlut kvenna“, en það er vitanlega sami hlutur. Nefndinni er ætlað að hafa áhrif á úrslit næstu alþingiskosninga, og það er einfaldlega óverjandi að stjórnvöld skipi nefndir í því skyni. Og hefði verið óeðlilegt jafnvel þó að ráðherrann hefði ekki skipað sem formann nefndarinnar konu sem nú situr á Alþingi og mun vafalaust leita þangað endurkjörs.