Ó lafur Ragnar Grímsson má eiga það að kann á íslenska fjölmiðlamenn. Árum saman hefur hann sýnt kunnáttu sína í þeirri spilamennsku, raunar um áratugi. Nýjasta dæmið myndu vera “íslensku menntaverðlaunin” sem hann efndi til á dögunum og Morgunblaðið lagði alla miðopnu sína undir í gær. Einn fjölmiðill hefur þó varla látið blekkjast í því dæmi, þó Vefþjóðviljinn hafi raunar ekki nennt að gá að því, en það er Fréttablaðið af öllum blöðum. Þar starfar nefnilega ritstjóri sem áttar sig á því að forseti Íslands á ekkert með að efna til slíkra verðlauna.
Í tímaritinu Þjóðmálum, sem stundum hefur verið nefnt hér, kennir margra grasa. Meðal áhugaverðra greina í vorhefti þess er grein eftir Þorstein Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra þar sem fjallað er um embættisathafnir forseta Íslands og hvert þeir eiga að snúa sér sem vilja gera athugasemdir við þær. Niðurstaða Þorsteins er skýr og vitaskuld alveg í samræmi við stjórnskipunarréttinn. Það er ráðherra sem tekur ákvarðanir um allar embættisathafnir forseta, stórar og smáar. Sú meginregla er skýr og einföld og ætti ekki að þurfa að gleymast á fjölmiðlum. Ef nú, fræðilega séð, einhver alþingismaður vildi á þingi gera athugasemd við þá ákvörðun að efna til opinberra menntaverðlauna, þá myndi hann réttilega snúa sér til menntamálaráðherra. Þó verðlaun eins og þessi séu vafalaust saklaus þá breytir það líklega sakleysi þeirra engu um þá staðreynd að forseta Íslands er ekki heimilt að efna til þeirra. Það er hlutverk menntamálaráðherra en ekki hans. Blaðamenn sem vilja fjalla um “íslensku menntaverðlaunin” eiga ekki að láta Ólaf Ragnar Grímsson stýra þeirri umfjöllun eins og svo margri annarri heldur eiga þeir fyrst að spyrja: hver ákvað að efna til þessara verðlauna og með hvaða heimild? Svo eiga þeir að spyrja menntamálaráðherra hvort ráðherrann hafi veitt atbeina sinn til þess að íslenska ríkið yrði á einhvern hátt við þau riðin.
Í grein sinni segir Þorsteinn Pálsson réttilega:
Þær grundvallarreglur, sem hér um ræðir, eru á þennan veg til þess að tryggja þingræðið. Alþingi á með öðrum orðum að geta kallað ráðherra til svara og ábyrgðar á sérhverri framkvæmdavaldsathöfn, hvort heldur hún er stór í sniðum eða smávægileg og án tillits til þess hver framkvæmir hana. Án þessarar reglu gæti forseti Íslands ekki verið einingartákn þjóðarinnar fyrir utan og ofan almenn stjórnmálaátök. |
Og eins og Þorsteinn Pálsson bendir jafnframt á í greininni, þá eru lítil og saklaus mál eins og þessi alveg kjörin sem dæmi um þau miklu takmörk sem eru á persónulegum heimildum forseta til athafna. Þegar málin snúa ekki að heitum deilumálum þá er minni hætta á að málið sjálft rugli fólk í ríminu og dragi athyglina frá þeirri einföldu staðreynd að samkvæmt stjórnarskránni fara ráðherrar með öll völd forseta Íslands.
Í Bóksölu Andríkis er til sölu áskrift að tímaritinu Þjóðmálum og kostar ársáskrift aðeins kr. 3.500. Þá eru einnig stök hefti boðin til sölu í Bóksölunni, en grein ritstjóra Fréttablaðsins birtist í 1. tbl. 2006.
O g fyrst minnst hefur verið á hinn ágæta ritstjóra Fréttablaðsins. Það var nokkuð skemmtileg tilviljun á dögunum. Hæstiréttur dæmdi þá að Fréttablaðinu hefði verið heimilt að nota tiltekin gögn, sem því höfðu borist með vafasömum hætti og mætti hafa ýmis orð um þennan dóm, þó það verði ekki gert hér. Það sem er hins vegar merkilegt er það að meirihluti dómara málsins var skipaður í embætti af dómsmálaráðherra Þorsteini Pálssyni, nú ritstjóra Fréttablaðsins.
Svona er Ísland fámennt en góðmennt.