V andamál Halldórs Ásgrímssonar er ekki að hann sé „umvafinn já-mönnum“ eins og hugsunarlatir endurtaka hver eftir öðrum. Halldór Ásgrímsson er umvafinn nei-mönnum. Árum saman hefur honum verið sagt að bæði hann og flokkurinn sé óvinsæll, ótengdur öllu, gamaldags. Halldór trúir þessu öllu. Hann hefur óralengi trúað því að það sé í raun satt allt það sem sagt er gegn flokknum og forystu sinni sérstaklega, jafnvel trúað því að hinn nær alfylgislausi Kristinn H. Gunnarsson tali fyrir munn allra framsóknarmanna nema Ingibjargar Pálmadóttur og Vilhjálms á Brekku. Þess vegna er Halldór búinn að vera í vörn árum saman, sem svo veldur af og til undarlegum útrásum hans úr virki sínu, með absurd yfirlýsingum sem hann hefur ímyndað sér að gætu snúið vörn í sókn. Evra. Evrópusamband innan ex margra ára. Og svo framvegis.
Einu sinni tók hann á sig rögg og rak Kristin H. Gunnarsson úr þingnefndum. Svo liðu nokkrar vikur og þá höfðu nei-mennirnir sannfært hann um að Ísland logaði frá strönd til strandar vegna þess að Kristinn H. Gunnarsson væri ekki lengur í iðnaðarnefnd. Kristinn fór aftur inn.
Á kosninganótt var Halldór Ásgrímsson spurður hvort kosningaúrslitin sýndu að flokkurinn yrði að líta betur í eigin barm. Og svaraði – án þess að taka sjálfur eftir hinu raunverulega svari sem fólst í svarinu: Við erum búnir að vera í látlausri naflaskoðun, og verðum greinilega að gera enn betur í því!
Það sem Halldór skilur ekki, er að það er hin látlausa naflaskoðun sem er búin að vera að grafa undan Framsóknarflokknum árum saman. Sú furðulega hneigð til að trúa öllu því sem andstæðingarnir segja um mann. Og í stað þess að taka eftir eigin orðum, að það sé eftir linnulausa naflaskoðun árum saman sem flokkurinn fær á’hann, þá bætir Halldór við – til þess að fara eftir ráðum nei-manna sem segja honum að hann verði að vera auðmjúkur og gangast við öllu sem um hann er sagt – að nú þurfi aldeilis að herða naflaskoðunina.
Þetta mun breytast með brettri forystu. Munurinn á Halldóri Ásgrímssyni og Finni Ingólfssyni er í stystu máli sá, að Halldór er sífellt að fara á taugum en Finnur hefur engar.
Þ að er sjálfsagt að hrósa þeim sem það eiga skilið. Meðal slæmra þingmála gærdagsins varð að lögum frumvarp heilbrigðisráðherra um að enn lengra skuli gengið gegn því fólki sem vill leyfa sjálfu sér og öðrum að reykja í fasteignum sínum. Þetta frumvarp var samþykkt með 42 atkvæðum gegn þremur og þykir Vefþjóðviljanum sjálfsagt að nefna nöfn þessara þriggja þingmanna þeim til sóma. Sjálfstæðismaðurinn Birgir Ármannsson og Samfylkingarmennirnir Björgvin G. Sigurðsson og Jón Gunnarsson greiddu atkvæði gegn frumvarpinu og eiga allir hrós skilið. Sama má segja um sjálfstæðismanninn Sigurð Kára Kristjánsson, sem var að vísu fjarverandi í gær, en hafði beitt sér af miklum krafti gegn málinu, bæði innan og utan þings, í ræðum og blaðagreinum. Þeir fjörutíuogtveir sem í gær merktu sig stjórnlyndismegin í þessu máli lækka allir í áliti frjálslyndra manna, þó vissulega falli þeir mjög úr misháum söðli.