Eftir því sem fylgi Samfylkingarinnar hefur minnkað í könnunum hafa loforð flokksins aukist í fjölmiðlum og jafnvel á skiltum á götuhornum. Væri mjög forvitnilegt að vita hversu langt mætti komast að endimörkum hvors um sig, hvort þróunin gæti fræðilega endað á síðasta samfylkingarmanninum lofa ostsneiðum tunglsins niðursneiddum á brauðið sem sá næstsíðasti bauð frítt í öll hús daginn áður. En hvað sem því líður, og þó fylgistap Samfylkingarinnar hljóti eins og flest annað að eiga einhver takmörk, þá er álitamál hvort þessari þróun verði snúið við með kosningaloforðum. Það eru nefnilega allmargir kjósendur sem átta sig á því hversu illa vinstrimenn og kosningaloforð fara saman. Eða öllu heldur, átta sig á því hvernig er um efndir kosningaloforða vinstri manna, í þau skipti sem þeir hafa komist í þá stöðu að geta efnt nokkuð. Saga R-listans er að mörgu leyti saga loforða sem ekkert er gert með eftir kosningar. Loforð um lækkun gjalda, loforð um að hækka ekki skatta, loforð um íbúalýðræði, loforð um þetta og loforð um hitt. Jafnvel persónulegt loforð um að borgarstjóri færi ekki í þingframboð, loforð sem Dagur B. Eggertsson sagði að væri lykilspurning um trúverðugleika viðkomandi stjórnmálamanns; það var svikið.
Úr kosningaauglýsingum R-listans. Fréttir af efndum loforðsins hafa verið álíka margar og umboðsmennirnir. |
Til er ágætt dæmi um vinstrimenn í Reykjavík og efndir kosningaloforða þeirra. Eitt af því sem Alþingi hefur komið á fót, borgurunum til þæginda, er embætti umboðsmanns Alþingis. Þegar R-listinn bauðst til þess að innleiða nútímann í stjórn Reykjavíkurborgar, eins og stundum var látið, þá var mikið og hátíðlega lofað að setja á fót embætti umboðsmanns borgarbúa, sem borgarbúar gætu leitað til ef þeim þætti á sér brotið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hamraði á þessu. Í kosningablaði R-listans, segir hún til dæmis í viðtali við Illuga Jökulsson, síðar ritstjóra DV: „Í fyrsta lagi ætlum við að koma hér upp umboðsmanni borgarbúa sem verður sjálfstæður aðili, hafinn yfir flokkslega tortryggni, sem borgarbúar geta leitað til ef þeir telja á sér brotið. Þeir hafa ekkert getað leitað hingað til. Svo ætlum við að opna allt stjórnkerfið, útvarpa og sjónvarpa frá borgarstjórnarfundum og kynna miklu betur það sem þar fer fram.“
Þetta kosningaloforð, margnefnt og margauglýst fyrir kosningar, en gleymt frá og með klukkan 10 á kjördagskvöldi, er ljómandi gott dæmi um kosningaloforð vinstrimanna í Reykjavík. Ekki af því að það sé mikilvægara en önnur loforð þeirra, eða svik þess verri en önnur loforðasvik úr ráðhúsinu heldur vegna tveggja annarra atriða. Efndir þessa loforðs voru algerlega á valdi borgaryfirvalda. Það eru engar ytri aðstæður sem geta hindrað borgaryfirvöld í að ráða umboðsmann borgarbúa og fela honum tiltekið hlutverk. Það er ekki hægt að sviðsetja ágreining við einhvern annan, til dæmis ríkið, sem skýringu á því að hér verður ekkert úr. Það eru ekki „breyttar aðstæður“ sem koma hér í veg fyrir neitt. Ef þetta loforð er ekki efnt þá er það eingöngu vegna þess að borgaryfirvöld vildu ekki efna það.
Þetta var fyrra atriðið. Það síðara er ekki síður dæmigert. Það er að enginn fjölmiðill hefur nokkru sinni sagt frá hinu svikna loforði eða krafið borgaryfirvöld skýringa á því. Þeir eru kannski uppteknir við að horfa á sjónvarpsútsendingarnar frá borgarstjórnarfundunum.