Í
Pennington í pontu á fundi RSE í Háskólanum í Reykjavík. |
fyrradag hélt Rannsóknastofnun um samfélags- og efnahagsmál, RSE, fund um einkaframtak í skipulagsmálum. Dr. Mark Pennington, lektor í stjórnmálafræði við University of London flutti erindi á fundinum en hann hefur tjáð sig í ræðu og riti um nauðsyn þess að hleypa einkaframtaki að í skipulagsmálum. Fundur þessi og erindi Penningtons voru afar tímabær því skipulagsmál eiga ekki bara að snúast um hver verður formaður skipulagsráðs eftir kosningar sem fara fram á fjögurra ára fresti.
Það er heldur ekki gott að mönnum sé gefinn ádráttur um að þeir fái einhverju ráðið um skipulagsmál með því að bera einstök mál undir kjósendur þegar leikreglunum er breytt eftir að niðurstaðan liggur fyrir eins og gerðist í flugvallarkosningunni svonefndu. Það þarf að opna þennan vettvang fyrir einkaframtaki svo aðrir fái tækifæri til að láta til sín taka í skipulagningu nýrra hverfa en stjórnmálamenn.
Pennington benti á það í fyrirlestri sínum að regluverk um landnotkun jafngildi því í mörgum tilfellum að hið opinbera eigi í raun landið. Þessar reglugerðir eru meðal annars tilkomnar vegna krafna umhverfisverndarsamtaka sem vilja þétta byggð. Pennington segir að það sé þó ekki einhugur um það meðal sérfræðinga hvort þétting byggðar sé umhverfisvæn. Í strjálbýlum úthverfum þurfi menn vissulega að fara lengri leið, til dæmis í verslanir. Þegar ferðir séu lengri reyni menn að fækka þeim, kaupa inn einu sinni í viku í stað þess að fara nokkrum sinnum. Við það má svo sjálfsagt bæta að í úthverfum eru allar helstu verslanir og þjónusta oftast á einum stað, í hinum ágætu verslanamiðstöðvum.
Pennington sagði einnig að allar þessar opinberu reglur, boð og bönn, um skipulagsmál hömluðu mjög samkeppni á húsnæðismarkaði, leiddu til skorts á húsnæði og hærra húsnæðisverðs. Með því að losa um þessar opinberu hömlur og hleypa einkaframtaki að mætti auka fjölbreytni í skipulagsmálum og nýjar hugmyndir fengju að njóta sín. Það væri óeðlilegt ástand að láta skipulagsmál ráðast af því hvaða þrýstihópi tækist best að herja á stjórnmálamenn. Eðlilegra væri að hafa þessi mál á markaði. Með því að markaðsvæða skipulagsmálin fengju menn aukna fjölbreytni og líklegra væri að allir fengju eitthvað við sitt hæfi.
Til marks um vel heppnað einkaframtak í skipulagsmálum nefndi Pennington að eftirsóttustu hverfin í London hefðu verið skipulögð af einkaaðilum og þeir sett reglur um umgengni og ýmis umhverfismál sem fylgja eignunum, eins og skyldu til að mála girðingu og útidyrahurð svartar. Pennington nefndi einnig dæmi frá Bandaríkjunum eins og Celebration hverfið á Flórída sem Disney fyrirtækið skipulagði og reisti. Vafalaust eru ekki allir hrifnir af slíkum hverfum en það er einmitt kosturinn við markaðinn að þá geta menn bara sagt nei takk. Það sama gildir ekki um ákvarðanir sem teknar eru af opinberum skipulagsráðum. Þær sitja menn uppi með hvort sem þeim líkar betur eða verr og geta í besta falli vonast til að ná fram hefndum með því að fella formann skipulagsnefndarinnar í kosningum á fjögurra ára fresti.