Í
Þeir lægst launuðu greiða meira í staðgreiðslu tekjuskatts til sveitarfélaga en til ríkisins. |
Kastljósi Ríkissjónvarpsins voru efstu menn flokkanna í Reykjavík spurðir hvað þeir hygðust gera til að friða eldri borgara á næsta kjörtímabili. Svandís Svavarsdóttir, sem staksteinar Morgunblaðsins kalla stjörnu kosningabaráttunnar, hafði það fyrst til málanna að leggja að til væri óvættur nokkur, ríkisstjórn Íslands, væri í því að „skattpína aldraða“. Nú er það raunar svo, að ríkisstjórnin hefur jafnt og þétt lækkað skatta á landsmenn, þó frjálslynd öfl eins og Vefþjóðviljinn og Svandís Svavarsdóttir vildu auðvitað að hraðar yrði gengið. Meðal annars hefur ríkisstjórnin lækkað tekjuskatt á undanförnum árum en í sömu mund hefur Reykjavíkurborg hækkað útsvarið og stolið hluta skattalækkunarinnar. Þeir sem hafa undir 125 þúsund krónum í mánaðarlaun greiða engan tekjuskatt til ríkisins en fullt útsvar til sveitarfélaga eins og kom fram í skýrslu Andríkis um skattheimtu ríkis og sveitarfélaga síðastliðið haust. Svo bendir Stefán Ólafsson á ríkið en ekki sveitarfélögin þegar hann lýsir áhyggjum af skattbyrði tekjulægsta fólksins. Það er ekki fyrr en menn hafa yfir 260 þúsund á mánuði í tekjur sem menn fara að greiða meira til ríkisins en Reykjavíkurborgar í staðgreiðslu tekjuskatt. Sú aðgerð í skattamálum sem sennilega skiptir mjög marga aldraða svo mestu máli var afnám eignarskatts, en margir aldraðir búa í eigin húsnæði en hafa ekki miklar tekjur, eins og skiljanlegt er. Svo merkilega vill til, að enginn stjórnarandstæðingur studdi afnám eignarskatts þegar það var samþykkt á Alþingi fyrir nokkru. En allir geta þeir haldið langar ræður um skattpíningu.
Og ef Svandís Svavarsdóttir hefur áhyggjur af þeim sem „skattpína“ borgarana, þá er ekki að efast um að hún er mjög ósátt við það að vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn hefur á valdatíma sínum sætt færis að hækka skatta á borgarbúa, bæði með útsvarshækkunum sem nú hafa komið útsvarinu í hæstu leyfileg mörk, sem og öðrum hækkunum. Menn þurfa ekki að hugsa lengi til að sjá hversu mikill glaðningur holræsagjaldið, sem R-listinn innleiddi í Reykjavík, hefur verið fyrir þá sem eiga húsnæði en hafa litlar tekjur, eins og raunin er um fjölmarga eldri borgara. Það er hins vegar flóknara að ná sambandi við þá kenningu Svandísar Svavarsdóttur að það sé ríkisstjórnin sem „skattpíni“ fólk – og lausnin á of mikilli skattheimtu sé að styðja vinstrigræna til valda. En fréttamenn munu eflaust bera það undir stjörnu kosningabaráttunnar nú fljótlega.