Miðvikudagur 17. maí 2006

137. tbl. 10. árg.

Ídag bætist við bóksölu Andríkis ákaflega skemmtileg og notaleg bók. Fyrir tuttugu árum gaf Almenna bókafélagið út endurminningar Kristjáns Albertssonar rithöfundar, sem Jakob F. Ásgeirsson hafði skráð. Kristján var þá kominn að tíræðisaldri en minnið og frásagnargáfan söm og forðum. Og hann hafði frá mörgu að segja eftir áratuga starf að íslenskum menningar- og þjóðmálum þar sem hann hafði verið handgenginn ólíkum mönnum eins og Jóhannesi Kjarval, Einari Benediktssyni, Guðmundi Kamban og Ólafi Thors. Í bókinni, sem á dögunum var endurútgefin, enda uppseld fyrir lifandi löngu, eru ótal sögur af kynnum Kristjáns af þessum mönnum og öðrum. Hann var fylgdarmaður Italos Balbos þegar ítalska flugsveitin dvaldist hér í vikutíma í hinu heimsfræga fyrsta hópflugi milli Evrópu og Ameríku árið 1933, hann borðaði með Maxim Gorki sem ræddi við hann vinnuaðferðir sínar, í heimsstyrjöldinni síðari gekk hann um götur Berlínar með P. G. Wodehouse, hann var formaður Þýskalandsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem kannaði möguleika á sameiningu þýsku ríkjanna, barðist sem ritstjóri Varðar við Hriflu-Jónas og Tíma hans og var einn af útgefendum hins kunna menningartímarits, Vöku, ásamt Sigurði Nordal, Árna Pálssyni, Ólafi Lárussyni, Páli Ísólfssyni og fleirum, en það var í ritstjórn þess tímarits sem þeir Guðmundur Finnbogason urðu svo ósammála um ágæti nýrrar sögu Halldórs Laxness, Vefarans mikla frá Kasmír að úr varð að hvor þeirra skrifaði sinn ritdóm um hana. Dómur Kristjáns, sem varð Halldóri mjög til framdráttar, varð frægur og ekki síst upphafsorðin „Loksins loksins“, en dómur Guðmundar vakti ekki síður athygli þó heldur styttri væri. Raunar var dómur Guðmundar aðeins tvö orð: „Vélstrokkað tilberasmér“ og er raunar ekki mjög ósnjallt.

Frá þessu öllu segir Kristján í bók þeirra Jakobs. Af Einari Benediktssyni segir hann margar sögur en kaflinn um skáldið og kynni Kristjáns af því er um 35 blaðsíður. Þegar Kristján var formaður íslenska stúdentafélagsins í Kaupmannahöfn gekk hann á fund Einars sem þá bjó í Höfn:

Síðan byrjuðum við að ræðast við og vékum meðal annars að þeim tíðindum sem orðið höfðu á Íslandi þá um sumarið. Dönsk-íslensk nefnd skipuð þingmönnum beggja landa hafði samið um sambandslög sem viðurkenndu Ísland fullvalda ríki. Tilkynna skyldi erlendum ríkjum að Ísland hefði engar hervarnir en í stað þeirra átti að nægja yfirlýsing um ævarandi hlutleysi landsins í ófriði. Einar Benediktsson hneykslaðist mjög á þessum samningi og sagði:

„Meðan það er hin mesta styrjöld sem orðið hefur í heiminum koma nokkrir herrar saman í Reykjavík og verða sammála um áður óþekkta tegund hlutleysis – hlutleysi sem enginn eigi að verja.“

Einari þótti ekki líklegt að mikið gagn væri að slíku hlutleysi ef á reyndi og hann hélt því fram að Íslandi væri um megn að taka á sig skyldur sjálfstæðs ríkis.

Kona Einars, frú Valgerður og Svala dóttir þeirra komu inn og Einar kynnti mig eins og mikla virðingarpersónu, sjálfan formann íslenskra Hafnarstúdenta! Frúin sagði:

„Það eru hérna danskar konur í heimsókn – má ekki bjóða ykkur að drekka með okkur bolla af súkkulaði?“

„Nei, góða Valgerður mín, það máttu ómögulega biðja okkur um,“ svaraði Einar. Þegar dömurnar voru gengnar út sagði hann: „Þér megið ekki taka konunni minni þetta illa upp, hún meinar þetta vel en mér leiðast þau svo óskaplega þessi dönsku súkkulaðiboð. Við skulum heldur ganga út og fá okkur glas af víni.“

Frá Jóhannesi S. Kjarval eru margar sagnir í bókinni enda þekktust þeir Kristján mjög vel:

Hann hafði oft sérstakt lag á að ráða fram úr fjárhagslegum örðugleikum. Þegar hann hafði vinnustofu sína á efstu hæð í húsi Stefáns Gunnarssonar í Austurstræti komst hann í allháa skuld vegna ógreiddrar húsaleigu. Stefán talaði utan að því við hann að sér þætti betra ef hann sæi sér fært að grynna á skuldinni. „Vantar yður kannski peninga til að borga bankanum afborganir vegna hússins yðar?“ spurði Kjarval.

Stefán kvað svo vera og gladdist yfir góðum skilningi Kjarvals á málavöxtum.

„En haldið þér að bankanum liggi á að fá peninga um þessar mundir?“

„Ekki get ég borið um það,“ sagði Stefán.

„Þá skulið þér láta Magnús Sigurðsson bankastjóra vita að ef bankann vanti peninga þá geti þeir snúið sér til mín,“ sagði Kjarval.

Og þá þurfti ekki meira að tala um það í bili.

Kjarval var oft í fjárþröng og alla tíð fram til síðari heimsstyrjaldar. Ég var um tíma formaður menntamálaráðs og frétti þá að Kjarval væri svo illa staddur að hann hefði ekki lengur lánstraust til kaupa á tilföngum til málverkagerðar. Ég ræddi við hann og benti honum á að Menntamálaráð ætti bráðlega að úthluta sínum árvissu styrkjum til listamanna og ef hann sendi inn umsókn hljótum við að veita honum hæsta styrk sem um gæti verið að ræða. Kjarval hristi höfuðið. „Nei þetta get ég ekki gert,“ sagði hann. „Þá mundi annar listamaður ekki fá neitt og sennilega einhver sem hefði enn meiri þörf fyrir styrk en ég. Það er nú svo með mig, að meðan einhverjir peningar eru á annað borð í landinu, þá skal ég sjá um að eitthvað af þeim fari til mín.“ – Þannig hugsaði Kjarval. Og gjafmildi hans var ein hin mesta sem sögur fara af.

Gaman væri svo að bera þessi viðbrögð Kjarvals við það hvernig listamenn nútímans láta. Þessir sem mæta í blöðin og tala um ofsóknir ef eitthvert árið ber svo við að þeim er aðeins úthlutað hálfsárslaunum en ekki heilsárs eins og þeir hafa talið sig vera áskrifendur að.

Endurminningabók Kristjáns Albertssonar, Margs er að minnast, er einstaklega þægileg og skemmtileg bók og tilvalin sumarlesning. Hún fæst í bóksölu Andríkis og kostar þar 1890 krónur og er heimsending innifalin.