Laugardagur 13. maí 2006

133. tbl. 10. árg.

Þ að er hverjum manni hollt að lesa auglýsingu á tollkvóta vegna innflutnings á smjöri og ostum, auglýsingu á tollkvótum vegna innflutnings á unnum kjötvörum og auglýsingu á tollkvótum vegna innflutnings á nautgripa-, svína-, alifugla- og hreindýrakjöti sem birtust á vef Landbúnaðarráðuneytisins í gær. Í þessum auglýsingum er upptalning á þessum vörum og tilgreint hversu mikið magn og gegn hvaða gjaldi á kíló hægt er að fá að flytja inn viðkomandi vöru á síðari hluta ársins. Sé eftirspurnin eftir innflutningskvótunum umfram framboðið fær hæstbjóðandi innflutningsleyfið.

Svo dæmi sé tekið verður leyft að flytja inn 59 tonn af alifuglakjöti, á seinni hluta ársins, eða tæplega 200 grömm á mann. Af hverju kílói af innfluttu hænsnakjöti þarf að greiða 159 krónur, nema eftirspurnin verði umfram framboðið, þá hækkar verðið á innflutningskvótanum. Af pylsum „og þess háttar vörum úr kjöti“ má flytja inn 7,5 tonn, eða 25 grömm á mann. Fyrir þennan sæmilega munnbita sem flytja má inn fyrir hvert mannsbarn á síðari hluta ársins þarf að greiða 162 króna kílóverð. Af osti og ystingi má flytja inn 119 tonn, eða tæplega 400 grömm á haus, og fyrir hvert kíló þarf að greiða frá 114 upp í 175 krónur verði eftirspurn hófleg.

Nú muna margir þá tíð þegar engir tollkvótar voru fyrir landbúnaðarvörur og innflutningur einfaldlega bannaður. Þegar til þess tíma er litið er vissulega um framför að ræða og mikil breyting að fá þó að sjá erlendar landbúnaðarvörur innan um hinar íslensku í matvöruverslunum. Það breytir því þó ekki að brýnt er orðið að stíga frekari skref og gefa innflutning til landsins alfarið frjálsan. Engin leið er að réttlæta það að banna fólki að flytja inn þær vörur sem það vill, svo fremi að innflutningurinn valdi öðrum ekki skaða. Vilji ríkið halda tilteknum mönnum búsettum á tilteknum stöðum á landinu starfandi við tiltekna atvinnugrein þá verður að ná því markmiði fram með öðrum hætti. Illskárra væri að greiða mönnunum beint fyrir búsetuna og starfið en að valda alls kyns aukaóþægindum í leiðinni við að ná markmiðinu fram. Það eina rétta væri hins vegar vitaskuld að fara þá leið að leggja styrkina af, enda er engin ástæða til að óttast að allir bændur brygðu búi við þá breytingu. Gera má ráð fyrir að breytingin yrði sumum afar erfið – jafnvel flestum fyrst í stað – en svo yrðu eftir bændur sem stæðu sig vel í samkeppninni. Reynslan frá Nýja-Sjálandi af slíkri breytingu er afar góð eins og hér hefur verið fjallað um og ef marka má auknar vinsældir mjólkur- og kjötafurða hér á landi í seinni tíð þurfa bændur lítið að óttast.