Það leið ekki langur tími milli dauða þeirra og ef litið væri snöggt yfir ferilskrá beggja sæist fljótt að þeir áttu margt sameiginlegt. Báðir útskrifaðir úr bestu skólum, báðir skrifuðu fjölda bóka og báðir reyndu, og tókst, að hafa áhrif á hugmyndir samtímamanna sinna.
Þann 29. apríl síðast liðinn lést franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Jean-François Revel og daginn eftir kvaddi John Kenneth Galbraith þetta líf. Galbraith var nokkru eldri, fæddur 1908 en Revel var fæddur árið 1924.
Flestir þekkja til Galbraiths, og margir ættu að minnsta kosti að gera það eftir að hafa lesið minningarorð Jóns Baldvins Hannibalssonar um hann á miðopnu Morgunblaðsins á dögunum. Galbraith var Kanadamaður en fluttist til Bandaríkjanna og var lengstum prófessor í hagfræði við Harvard háskóla, auk þess sem hann starfaði sem ráðgjafi nokkurra forseta og var um tíma sendiherra á Indlandi. Galbraith er frægastur fyrir þær kenningar sínar að í raun stefni allt í óefni í Bandaríkjunum og ef til vill á Vesturlöndunum öllum. Kenningar sem þessar hafa átt mjög uppá pallborðið á síðustu áratugum, ekki síst hjá öllum þeim sem láta sig umhverfismál varða. Og ekki nóg með það. Óheftur kapítalisminn leiddi að hans dómi til sívaxandi ójöfnuðar, alræðist stórfyrirtækjanna og óhamingju allrar alþýðu og gott ef ekki milljónamæringanna líka. Reyndar er það svo að þegar menn hafa ritað 48 bækur og skrifað þúsundir greina hlýtur að gilda hið gamalkunna lögmál að „oft ratast kjöftugum satt á munn“. Ýmislegt af því sem Galbraith benti á er rétt.
„Að þeirra mati var einn helsti galli markaðarins að þar gat „alls konar fólk“ ráðið gjörðum sínum og ákvörðunum án leiðbeiningar sér vitrari og betri. Það má því ímynda sér að Galbraith hafi ekki þurft að hugsa sig lengi um þegar hann var beðinn um að sjá um verðlagsstýringu í Bandaríkjunum á stríðsárunum.“ |
Það sem gerir það hins vegar að verkum að Galbraith verður seint tekinn í heilagra manna tölu af mörgum er sú staðreynd að þrátt fyrir að margar ábendingar hans um það sem betur mætti fara í efnahags- og þjóðlífinu hafi átt fullan rétt á sér voru þær leiðir til úrbóta sem hann vildi fara á margan hátt víðsjárverðar. Galbraith var dæmigerður vinstrimaður þegar kom að stefnumótun. Um skeið lærði hann hjá John Maynard Keynes í Cambridge og virðist hafa verið mjög eftirtektarsamur námsmaður. Að minnsta kosti bar hann ávallt læriföður sínum vitni hvað varðaði hugmyndir um að stjórn efnahags- og félagsmála væri best komið í höndum manna eins og þeirra sjálfra. Að þeirra mati var einn helsti galli markaðarins að þar gat „alls konar fólk“ ráðið gjörðum sínum og ákvörðunum án leiðbeiningar sér vitrari og betri. Það má því ímynda sér að Galbraith hafi ekki þurft að hugsa sig lengi um þegar hann var beðinn um að sjá um verðlagsstýringu í Bandaríkjunum á stríðsárunum. Hve vel honum tókst til með það verk hefur oft verið nefnt sem dæmi þess hve hann hafi verið snjall hagfræðingur. Það gleymist hins vegar að verðstýring sem þessi er yfirleitt tekin upp í öllum löndum á stríðstímum þegar aðstæður efnahagslífsins eru meira en lítið skrýtnar. Engu að síður hefur fáum tekist að sýna frammá að jafnvel við slíkar aðstæður sé verðstýring ákjósanleg, að minnsta kosti ekki fyrir alla alþýðu manna.
Jean-François Revel var einnig af þeirri sortinni sem gengið hefur undir nafninu „gáfumenn“, en það er löngu hætt að nota slíkt ávarp hér á landi, en viðgengst enn víða á meginlandi Evrópu. Hann var fæddur í Marseille, sleit barnskónum í Mozambique, gekk í andspyrnuna á stríðsárunum og útskrifaðist úr einni virtustu menntastofnun landsins, Ecole Normale Supérieure. Hann gerðist kennari, m.a. í Alsír, Mexíkó og á Ítalíu en snéri loks aftur heim til Frakklands og einbeitti sér að blaðamennsku og skriftum. Revel var um margt ólíkur öðrum af sama sauðahúsi í heimalandi sínu. Þegar hann var ungur maður aðhylltist hann sósíalisma, skrifaði meðal annars ræður fyrir François Mitterand, sem þá var upprennandi stjórnmálamaður, og bauð sig fram til þings fyrir sósíalistaflokkinn. En þegar við upphaf kalda stríðsins breyttust viðhorf hans snögglega. Ólíkt flestum öðrum frönskum „gáfumönnum“ snerist hann ekki til varnar fyrir ógnarstjórnina í Kreml og tók ekki þátt í mótmælum gegn „heimsvaldastefnu“ Bandaríkjanna. Þvert á móti tók hann afstöðu með efnahagslegri frjálshyggju og varði Bandaríkjamenn fyrir sleitulausum árásum flestra landa sinna og skoðanabræðra þeirra í Evrópu. Hann benti á að Evrópumönnum væri gjarnt að tala um heimsvaldastefnu Bandaríkjanna en litu síðan alltaf á útþenslustefnu Sovétríkjanna sem mannvæna. Að sjálfsögðu litu flestir menntamenn álfunnar svo á að hann hefði svikið málstaðinn. Andstaðan við hann tók sér margar myndir. Árið 1970 gaf hann út bókina, Hvorki Marx né Jesús þar sem hann setti fram þá skoðun sína að bylting 20. aldarinnar myndi snúast um efnahagslegt frjálsræði og lýðræði en ekki óumflýjanlegan sósíalisma. Hún varð metsölubók í Frakklandi og Bandaríkjunum. Það þýðir þó ekki að henni hafi verið vel tekið af öllum. Sænski útgefandinn gat ekki útvegað honum sjónvarpsviðtal, þrátt fyrir mikla sölu bókarinnar þar í landi og í Finnlandi þurfti hann að svara fyrir sig í sjónvarpsal frammi fyrir tveimur sérfræðingum, -öðrum frá Rúmeníu en hinum frá Póllandi. Grískur útgefandi bókarinnar sá sig tilneyddan að skrifa inngang að útgáfunni þar sem hann bað lesendur afsökunar á að hafa gefið hana út. Revel gafst ekki upp og hélt áfram að tala fyrir frelsi fólks og gegn árásum á allt sem bandarískt var. Þá tilhneigingu margra Evrópumanna að tala niður til Bandaríkjanna taldi hann sprottna af samspili vanþekkingar og öfundar. Þrátt fyrir að Revel stæði í nær stanslausu stríði við vinstrimenn gafst honum bæði tími og sálarró til að hugsa um aðra hluti og njóta lífsins. Auk þess að rita mikið um heimspeki, til dæmis Sögu vestrænnar heimspeki frá Thalesar til Kant, var hann mikill matgæðingur, sérfræðingur um franska ljóðlist og áhugamaður um trúmál. Sonur hans er búddamúnkur og saman skrifuðu þeir áhugaverða bók sem heitir Samtal munks og heimspekings.
Þrátt fyrir að Revel væri oftast uppá kant við ríkjandi skoðanir landa sinna sést það vel á honum sjálfum hve varasamt það er að fullyrða nokkuð um þjóðir og lönd. Gildir það jafnt um Bandaríkin og Frakkland. Í júní árið 1997 hlotnaðist honum einn sá mesti heiður sem þarlendum getur hlotnast er hann var kjörinn í frönsku akademíuna.
Sjálfur sagðist hann aldrei hafa barist við kommúnismann í nafni frjálshyggjuhugmynda heldur hafi hann barist í nafni mannlegrar reisnar. Hann var aldrei bundinn á klafa ákveðinnar hugmyndafræði eða bergmál kenningasmiða, enda sagði hann „l’ideologie, c’est ce qui pense à votre place“, sem mætti snara eitthvað á þá leið að „hugmyndafræði er það sem hugsar fyrir þig“. Þessi orð Revels gætu margir póst-módernískir kjaftaskar íslenskra fjölmiðla og ýmsir „nútímalegir“ stjórnmálamenn að skaðlausu tekið til umhugsunar.