Miðvikudagur 3. maí 2006

123. tbl. 10. árg.

Heldur munu þeir vera fáir sem vita allt. Flestir reiða sig nokkuð á aðra um upplýsingar um það sem fram fer í veröldinni í kringum þá. Og þar sem fjölmiðlar verða þá oft augum og eyrum næstir þá fer ekki hjá því að þeir hafi talsverð áhrif á þá mynd sem fólk gerir sér af mönnum og málefnum. En þar sem fjölmiðlar eru ekki sjálfstæðar lífverur þá blasir við að áhrifamátturinn er í raun í höndum fjölmiðlamanna, sem með vali sínu á fréttum og upplýsingum, mati sínu á því hvað skuli útskýrt og hvernig, ákvörðunum sínum um það við hverja skuli talað og um hvað og ákvörðunum um það hvað skuli helst ekki rætt, hafa áhrif á þá mynd sem fólk fær af mönnum og málefnum.. Fjölmiðlamenn geta haft mikil áhrif og það skiptir verulegu máli hvernig þeir fara að í starfi sínu. En þó að þetta megi blasa við, þá er merkilega lítið um það að þeim sé sýnt eðlilegt aðhald, að verk þeirra séu tekin til skoðunar og gagnrýnd. Á Íslandi varð á þessu mjög merkileg og þörf breyting þegar Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður á Viðskiptablaðinu og fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu hóf að rita vikulega pistla í blað sitt um vinnubrögð fjölmiðla. Pistlarnir hafa vakið verulega athygli. Í fyrra var öllum pistlum ársins 2004 safnað á bók, Fjölmiðla 2004, og nú hefur verið bætt um betur og út er komin bókin Fjölmiðlar 2005.

Í bókunum rekur Ólafur Teitur ótal dæmi um óeðlileg vinnubrögð fjölmiðlamanna, hvort sem er hjá blöðum eða ljósvaka, og ekki verður annað sagt en dæmin séu sláandi. Allir þeir sem hafa áhuga á því hvaða mynd er dregin upp fyrir þá í fjölmiðlum ættu skilyrðislaust að kynna sér skrif Ólafs Teits, skrif sem aðeins verða merkari heimild um íslensk þjóðmál eftir því sem dæmunum fjölgar. Þessi árbók íslenskrar slagsíðu er einfaldlega ómissandi bók fyrir alla áhugamenn um þjóðfélagsleg málefni og raunar alla þá sem hafa skoðun á því hvort munur sé á réttu eða röngu.

Ekki verða hér og nú rakin mörg dæmi úr bók Ólafs Teits en látið nægja að segja að þau séu ótrúlega mörg og til vitnis um margt sem hreinlega er fyrir neðan allar hellur. Í bókinni er á fimmtán blaðsíðum fjallað um svokallaða úttekt Fréttablaðsins á einkavæðingu bankanna og er frásögnin með hreinum ólíkindum, en niðurstaða Ólafs Teits er að úttekt blaðsins sé „svik við lesendur og aðför að heiðarlegri blaðamennsku“. Ólafur Teitur rekur rangfærslur, misskilning og útúrsnúning blaðamannsins og birtir auk þess mynd af einni Fréttablaðsopnunni þar sem hann hefur auðkennt þá kafla sem í raun voru teknir upp úr þriggja ára gamalli skýrslu ríkisendurskoðunar, án þess að heimildarinnar væri getið. Það er svo þetta mál sem Ólafur Teitur á við, þegar hann segir í formála bókarinnar:

En ef eitthvert eitt mál er öðrum fremur til marks um að íslensk fréttamennska eigi við ansi alvarlegt mein að stríða, þótt margt sé vitaskuld í góðu lagi, hlýtur það að vera fréttaskýringaröðin um einkavæðingu bankanna sem borin var á borð snemma í sumar sem leið. Ástæðan er þó ekki vinnubrögðin sem birtust okkur þar; eins skelfileg og þau voru gætum við nefnt margt hliðstætt og jafnvel verra. Nei, aðalmeinið er að falsið, ritstuldurinn, ósvífnin, ósanngirnin, blekkingin og áróðurinn voru ekki bara liðin af Blaðamannafélagi Íslands heldur – núna á dögunum – beinlínis verðlaunuð sem framúrskarandi fréttamennska! Við getum ekki annað en vonað að sem flestir félagsmenn standi í lappirnar gagnvart Blaðamannafélaginu og hundsi þessa makalausu áskorun þess um að heiðarleg gildi verði höfð að engu.

Ef nokkuð getur orðið til þess að bæta íslenska blaðamennsku, þá er það rökstudd gagnrýni manna eins og Ólafs Teits Guðnasonar. Pistlar hans eru með því besta sem finna má í íslenskum fjölmiðlum og bækur hans eru mikið fagnaðarefni. Fjölmiðlar 2005 fást í bóksölu Andríkis og kosta þar kr. 1890 og er heimsending innifalin. Á sama stað fást enn Fjölmiðlar 2004 og kosta kr. 1750. Í tilefni nýju bókarinnar býður bóksalan nú upp á bækurnar saman í pakka á kr. 3100 og heimsending vitaskuld innifalin eins og jafnan. Fjölmiðlar 2005 er 351 blaðsíða með nafnaskrá.