F yrir réttum 15 árum myndaði Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins sína fyrstu ríkisstjórn og um leið hvarf úr stjórnarráðinu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar formanns Framsóknarflokksins. Meiri breytingar hafa sjaldan orðið í íslenskum stjórnmálum og segja má að þann dag, 30. apríl 1991, hafi Íslendingar sagt skilið við gamaldags sósíalisma og hafið ferðina inn í nútímann með frelsi einstaklingsins að leiðarljósi. Vitaskuld hafa sum skrefin sem stigin hafa verið á þessum fimmtán árum verið hæpin og jafnvel til óþurftar eins og reglulegir lesendur Vefþjóðviljans síðasta tæpa áratuginn þekkja vel. Á heildina litið hefur breytingin frá vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar, Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Júlíusar Sólness hins vegar verið ævintýri líkust og þjóðfélagið er nú nær óþekkjanlegt frá því sem það var þegar þessi vinstri stjórn lét af völdum.
„Jón Baldvin er ekki aðeins brostin von frjálslyndra jafnaðarmanna vegna þátttöku hans í vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar, heldur enn frekar vegna þess hversu mikill dragbítur Alþýðuflokkur hans var á allar framfarir á árunum 1991-1995.“ |
Yngra fólk man eðli málsins samkvæmt ekki þessa ríkisstjórn og þá stjórnarhætti sem ríktu, en í stuttu máli má segja að þeir hafi einkennst af stöðugum skammtímaaðgerðum til að reyna að leysa heimatilbúinn efnahagsvanda og halda ríkisstjórninni saman. Segja má að það sé eina afrek þessarar stjórnar að hanga saman, en hún gerði það óspart á kostnað almennings í landinu. Skattar voru stöðugt hækkaðir og minnir sá árangur helst á aðra vinstri stjórn sem menn muna betur, það er að segja R-listann í Reykjavík undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Stöðugt var verið að grípa til „efnahagsaðgerða“ og forsætisráðherra var tíður gestur á skjám landsmanna þar sem hann ræddi krísurnar á stjórnarheimilinu. Hluti af sukkinu við að halda ríkisstjórninni saman og kaupa henni stuðning fór fram í gegnum margvíslega sjóði sem stjórnin notaði til að skipta sér af atvinnulífinu og aðeins þátttaka ríkisins í fiskeldi kostaði skattgreiðendur til að mynda milljarða króna. Mikill hallarekstur var á ríkissjóði þrátt fyrir allar skattahækkanirnar og lánsfjárþörf ríkisins var mikil. Sá vandi var meðal annars leystur með yfirdrætti í Seðlabankanum enda var allt gert til að fólk áttaði sig ekki á stöðunni. Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra þótti afar laginn, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, við að afvegaleiða fjölmiðla og almenning með vafasamri upplýsingagjöf. Ofan á allan vandann bættist svo taprekstur ríkisfyrirtækja sem stjórninni datt ekki í hug að selja.
Með ríkisstjórn Davíðs Oddssonar urðu fljótlega alger straumhvörf. Tekið var á ríkisfjármálum og erlendri skuldasöfnun og skattar voru lækkaðir. Fyrst voru skattar lækkaðir úr 49% í 18% á fyrirtæki til að koma atvinnulífinu af stað aftur eftir þá stöðnun sem það var komið í. Næst var farið í að lækka aðra skatta, svo sem eignaskattinn sem nú hefur verið felldur alveg niður en hafði hækkað sífellt í tíð vinstri stjórnarinnar. Hluti hans hafði meira að segja fengið viðurnefnið ekknaskattur þar sem hann kom sérlega illa við eldri borgara sem bjuggu einir í rúmgóðum skuldlausum húsum. Nú þurfa hvorki eldri borgarar né aðrir að greiða skatta til ríkisins fyrir að eiga þak yfir höfuðið. Annar skattur sem hefur verið lækkaður verulega er erfðaskatturinn, en það er sérlega illræmdur skattur sem mikilvægt var að lækka til að koma í veg fyrir að fólk lenti í stórum vandræðum við að taka við arfi. Þýðingarmesta skattalækkunin fyrir almenning – eða að minnsta kosti sú sem hann finnur mest fyrir beint – er svo lækkun tekjuskattsins sem nú stendur yfir. Þegar þeirri skattalækkun sem lögfest hefur verið lýkur – og ef Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur verður ekki að ósk sinni um að hætt verði við síðasta áfanga hennar um næstu áramót – þá verður staðgreiðsluhlutfallið orðið svipað og það var þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp og áður en vinstri stjórnin síðasta hóf hinar miklu skattahækkanir sínar. Og rétt er að minna á að þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir miklar skattahækkanir sveitarfélaganna með R-listann í Reykjavík í broddi fylkingar.
En það eru ekki aðeins ríkisfjármálin sem eru gerbreytt heldur einnig öll umgjörð atvinnulífsins og það hefur svo leitt til mikillar umbreytingar í þjóðfélaginu öllu. Stór hluti þessa er reyndar lækkun tekjuskatts fyrirtækja í 18%, sem leysti úr læðingi mikla hagræðingu í atvinnulífinu og flutti fjármagn af miklum hraða þangað sem þess var mest þörf. Annað sem gerðist var að auka frelsi í atvinnulífinu, sérstaklega í tengslum við fjármagn, og þar með svigrúm einstaklinga til að gera það sem þeir telja skynsamlegast og það hefur reynst heilladrjúgt. Sem dæmi um þá umbyltingu sem orðið hefur má nefna að fyrir fimmtán árum var hér á landi ekki einu sinni til kauphöll þar sem viðskipti með hlutabréf og skuldabréf áttu sér stað líkt og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.
Í fyrstu ríkisstjórninni sem Davíð Oddsson myndaði starfaði Sjálfstæðisflokkurinn með Alþýðuflokknum, einum af forverum Samfylkingarinnar. Formaður Alþýðuflokksins á þeim tíma var Jón Baldvin Hannibalsson sem sumir frjálslyndir menn höfðu á þeim tíma mikla trú á þó að töluvert hefði reyndar dregið úr því eftir þátttöku Alþýðuflokksins í vinstri stjórninni 1988-1991, einhverri verstu ríkisstjórn sem verið hefur við völd hér á landi frá lýðveldisstofnun, og jafnvel lengra aftur. Nú hefur þessi brostna von frjálslyndra jafnaðarmanna dúkkað upp á ný og er nefndur sem mögulegt þingmannsefni Samfylkingarinnar. Jón Baldvin er ekki aðeins brostin von frjálslyndra jafnaðarmanna vegna þátttöku hans í vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar, heldur enn frekar vegna þess hversu mikill dragbítur Alþýðuflokkur hans var á allar framfarir á árunum 1991-1995. Alþýðuflokkurinn stóð að vísu með Sjálfstæðisflokknum að því að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, en það var ekki vegna áhuga á því frelsi í viðskiptum sem það hafði í för með sér, þó að þær afleiðingar hafi að vísu oft verið ofmetnar, heldur vegna draumsins um að draga Ísland inn í tollabandalagið á meginlandi Evrópu, Evrópusambandið sjálft. Alþýðuflokkurinn var að öðru leyti til lítils gagns við að auka svigrúm einkaaðila í atvinnulífinu, sem sést best á því að Alþýðuflokkurinn kom í veg fyrir sölu ríkisviðskiptabankanna á meðan hann sat í stjórn.
Einkavæðingin, sem Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu frá upphafi sett í forgang, náði ekki fram að ganga fyrr en í samstarfinu við Framsóknarflokkinn, það er að segja eftir 1995. Þetta er ekki vegna þess að Framsóknarflokkurinn sé svo óskaplega fylgjandi einkavæðingu eða öðrum umbótum í frjálsræðisátt í atvinnulífinu því að menn þekkja vel hvernig hann hefur dregið lappirnar í þeim efnum og iðulega tafið fyrir. En hann hefur alls ekki verið jafn erfiður að þessu leyti og hinir nútímalegu frjálslyndu jafnaðarmenn sem áður voru í Alþýðuflokknum en segjast nú tilheyra Samfylkingunni.
Það er hollt að skoða þær breytingar sem orðið hafa á vettvangi ríkisins á síðustu fimmtán árum því að þannig geta menn frekar tekið rökstudda afstöðu til þess sem stjórnmálamenn segja í dag. Hið sama á við á vettvangi sveitarstjórnarmála, ekki síst hjá stærsta sveitarfélaginu, Reykjavíkurborg. Þegar kosningar nálgast getur til dæmis verið gagnlegt að bera saman þróun fjárhags og skatta hjá borg og ríki síðasta rúma áratuginn, en vinstri meirihluti R-listans hefur stýrt borginni frá 1994. Það er umhugsunarvert að borgin hefur hækkað skatta allan þennan tíma en ríkið hefur lækkað þá. Þetta segir töluvert um hug Samfylkingarinnar, sem leitt hefur R-listann allan tímann, til skattamála. Þá er umhugsunarvert að borgin hefur safnað skuldum af miklum móð, eftir að hafa tekið við nær skuldlausu búi. Þessu hefur verið alveg öfugt farið hjá ríkinu. Stjórn Davíðs Oddssonar sem tók við af vinstri stjórninni árið 1991 tók við afar skuldsettu búi. Núna eru skuldir ríkisins nánast engar.