Föstudagur 7. apríl 2006

97. tbl. 10. árg.
Verður að leggja til grundvallar niðurstöðu að með algjöru banni 6. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 við að sýna tóbak á sölustöðum hafi löggjafinn farið út fyrir þau mörk, sem 75. gr. og 73. gr. stjórnarskrár setja.
– Hæstiréttur Íslands, dómur í máli nr. 220/2005, upp kveðinn 6. apríl 2006.

Eitt og annað var merkilegt í dómi Hæstaréttar í gær í máli Sölva Óskarssonar, kaupmanns í tóbaksversluninni Björk, gegn íslenska ríkinu. Hæstiréttur viðurkenndi þar rétt kaupmannsins til að hafa tóbak til sýnis í verslun sinni hvað sem tóbaksvarnarlög segðu, og má ýmislegt um dóminn segja og nokkrar ályktanir af honum draga. Það ætlar Vefþjóðviljinn að láta bíða betri tíma, þó hann vilji nefna svolítið, sem auðvitað er þó ekki aðalatriði í málinu:

* Hæstiréttur dæmir að með banni því sem löggjafinn setti Sölva Óskarssyni – og þá öðrum í sömu stöðu – hafi verið gengið lengra gegn frelsi hans en stjórnarskráin heimilar. Bannið fær því ekki staðist gegn honum.

* Sölvi hefur hins vegar virt bannið frá því það var – ranglega að mati Hæstaréttar – sett. Hann mun einfaldlega hafa farið mjög eðlilega að, farið eftir því banni sem löggjafinn setur en leitað löglegra leiða til að fá því hnekkt fyrir dómstólum.

* Bannið var sett vegna þeirrar sannfæringar ríkisins að það væri mikilvægt til þess að draga úr tóbakssölu.

* Ríkið hefur því byggt á því að bannið, sem Sölva var gert að fara eftir, hafi verið til þess fallið að draga úr sölu í verslun hans. Sölvi hefur því, að mati ríkisins, orðið af viðskiptum vegna þess banns sem Hæstiréttur hefur nú slegið föstu að löggjafanum hafi verið óheimilt að setja.

* Ríkið hefur með öðum orðum valdið einum borgara sínum fjártjóni með því að leggja á hann bann. Bann sem því var ekki heimilt að leggja á hann.

Af þessu leiðir að ríkið hefur ótvírætt bakað sér bótaskyldu gagnvart Sölva og Tóbaksversluninni Björk. Þetta er það sem hefur hafst af bannákvæðinu sem fanatíkerar báru inn í lagasafnið fyrir fimm árum. Skaðabætur ríkisins til tóbaksverslunar. Ríkið er því ekki einungis stærsti seljandi tóbaks á Íslandi. Þar sem ríkið þarf nú að bæta Sölva töpuð viðskipti verður það einnig stærsti kaupandinn.

Það er einlæg von Vefþjóðviljans að Þorgrími Þráinssyni þyki þeim peningum vel varið.

Svo er annað sem ástæðulaust er að leiða hjá sér. Hver kannast ekki við stóryrðin í hinum og þessum þegar einhver ráðherra er sagður hafa brotið stjórnarskrá með einhverju móti, eða þegar umdeild lagaákvæði eiga að hafa brotið gegn stjórnarskrárákvæðum? Hver kannast ekki við stóryrði um að ráðherrar eigi að segja af sér við það að umboðsmaður alþingis telji að við eitthvert embættisverk sitt hafi þeir ekki náð að fara eftir öllum ákvæðum og reglum stjórnsýslulaga? En hvað nú um það þegar Hæstiréttur hefur dæmt að löggjafinn hafi farið út fyrir þau mörk sem stjórnarskráin setur – „brotið stjórnarskrána“ eins og það er stundum kallað í utandagskrárumræðum? Þeir sem telja að fólk „eigi að sæta ábyrgð“, hvaða kröfur gera þeir núna?

Meðal þeirra þingmanna sem samþykktu lagafyrirmælin sem Hæstiréttur hefur nú dæmt að brjóti gegn stjórnarskránni eru stefnufastir menn eins og Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir. Ætli þeim þyki að einhver þurfi að sæta ábyrgð vegna þessa stjórnarskrárbrots?

Og fréttamenn munu einmitt spyrja Steingrím, Össur og Jóhönnu í þessa veru. Þeir eru vanir því.