Undanfarið hefur borið nokkuð á því að sveitarfélög í um og innan við 50 km fjarlægð frá Reykjavík auglýsi eigið ágæti í blöðunum. Þessum auglýsingum hefur bæði verið beint til einstaklinga og fyrirtækja. Yfirleitt geta þessi sveitarfélög státað af nægum lóðum fyrir fólk og fyrirtæki en það er orðið alveg óþekkt fyrirbæri í höfuðborginni eftir 12 ára valdatíð R-listans. Það er því vitanlega freistandi fyrir marga að flytja suður með sjó, upp á Skaga eða austur fyrir fjall þótt menn þurfi að aka daglega hátt í hundrað kílómetra til og frá vinnu í höfuðborginni. R-listaflokkarnir hafa undanfarin 12 ár haft þá stefnu að byggðin þéttist og umferð einkabíla minnki. Í þessum tilgangi hafa þeir skammtað lóðir naumt og jafnvel samið við verktaka sem fengið hafa lóðir að aðrar lóðir verði ekki í boði á meðan þeir eru að byggja og selja dýrum dómum. Það er svo væntanlega óþarft er rekja flumbruganginn við lóðahappdrættið í Lambaseli og uppboðið í Úlfarsárdal. Jafnvel íbúðabyggð sem rísa átti á Valssvæðinu að Hlíðarenda hefur nú verið söltuð eftir að í ljós kom að skipulagið var klúður. Uppskeran af þessari stefnu er svo þessi: Umferð einkabíla hefur aldrei verið meiri og líklega aldrei aukist jafn mikið og á valdatíma R-listans og byggðin hefur aldrei verið dreifðari.
Eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa auglýst mikið að undanförnu er sveitarfélagið Árborg. Í heilsíðuauglýsingum í Morgunblaðinu segist sveitarfélagið eiga „brýnt erindi“ við fyrirtæki og bendir mönnum á að kynna sér vef sinn. Þegar vongóðir framkvæmdastjórar fyrirtækja fara hins vegar inn á hinn auglýsta vef er ekkert þar að finna um lóðir fyrir fyrirtæki og fasteignagjöld í sveitarfélaginu er þar að auki mjög há.
En í sárabætur geta forsvarsmenn fyrirtækja skoðað bloggsíður bæjarfulltrúa Samfylkingar og Framsóknarflokks sem vísað er á. Og þar er líklega komið hið brýna erindi sem auglýst er svo grimmt á kostnað skattgreiðenda í Árborg.
Stefán Ólafsson prófessor er eiginlega þeirrar skoðunar að skattbyrði hafi aukist undanfarin ár. Stefán gerir mjög reglulega grein fyrir þessari skoðun sinni í Morgunblaðinu. Þarna er Ferdinand og þarna er Stefán með greinina sína um aukna skattbyrði. Vefþjóðviljinn hefur áður fagnað því að Stefán veki athygli á því að á meðan tekjuskatturinn er ekki flatur leiði auknar tekjur manna til aukinnar skattbyrði. Tekjur manna hafa aukist mjög undanfarin ár og því hefur það hlutfall sem menn greiða í skatta hækkað þrátt fyrir að ríkið hafi lækkað tekjuskattshlutfallið.
En það er ekki víst að Stefán meti hina auknu skattbyrði rétt. Á síðustu árum hafa Íslendingar verið mjög duglegir við að kaupa innfluttar vörur en þær bera flestar há vörugjöld auk hæsta virðisaukaskatts. Bílar og raftæki eru dæmi um þetta. Tekjur ríkissjóðs af þessum kaupum hafa verið mjög miklar. Maður með þrjár milljónir í árstekjur greiðir tæpar sjöhundruð þúsund krónur í tekjuskatt og útsvar. Ef hann kaupir sér bíl á árinu fyrir tvær milljónir greiðir hann að minnsta kosti annað eins í skatta af bílnum.
Hver er skattbyrði undanfarinna ára ef neysluskattar eru teknir með í reikninginn? Það er hætt við að mat Stefáns á skattbyrðinni sé alltof lágt.