V instri grænir eru bara í pólitík hugsjónanna vegna og vegna málefnanna og hafa skömm á allri foringja- og persónudýrkun og auglýsingamennsku. Þetta er auðvitað hafið yfir allan vafa og þess vegna var það til dæmis fyrir síðustu alþingiskosningar sem vinstri grænir brutu blað í íslenskri stjórnmálabaráttu og fóru að ganga í bol með stórri mynd af formanni flokksins á maganum. Allt til að staðfesta það að stjórnmál snúast um málefni en ekki persónur.
Nú þegar borgarstjórnarkosningar eru framundan eru vinstri grænir í Reykjavík komnir á stúfana og farnir að kynna málefni sín af krafti. Ekkert nema málefni, málefni og aftur málefni. Þess vegna er það sem þeir hafa varla minnst á annað en nafn Svandísar Svavarsdóttur, frambjóðandans sem þeir settu í fyrsta sæti borgarstjórnarlistans. Barátta vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningar á greinilega að snúast um að skrifa óteljandi mærðarfullar greinar um Svandísi Svavarsdóttur þar sem tíundaðir eru mannkostir Svandísar Svavarsdóttur og rætt um hvílíkt lán það er fyrir Reykvíkinga að eiga frambjóðanda eins og Svandísi Svavarsdóttur. Já, Svandís Svavarsdóttir er sem sagt frambjóðandi vinstri grænna fyrir þá sem ekki höfðu áttað sig á því og hún er „laus við alla sjálfhverfu og sýndarmennsku“ eins og fram kom í einni af fjölmörgum greinum sem birst hafa um ævintýralega mannkosti Svandísar Svavarsdóttur.
Þessar greinar hafa birst í Morgunblaðinu, en eins og blaðið hefur lýst yfir er það hætt að birta stuðningsgreinar í prófkjörum nema á vef sínum. Þess vegna er það sem stuðningsgreinarnar um Svandísi Svavarsdóttur hafa allar birst eftir að valið var á lista vinstri grænna, en með þessu má segja að fylgismenn vinstri grænna hafi snúið óvænt bæði á Morgunblaðið og lesendur þess.
Svandís Svavarsdóttir lætur sér þó ekki nægja – „laus við alla sjálfhverfu og sýndarmennsku“ – að láta skrifa um sig greinar. Nú eru farnar að birtast af henni auglýsingar líka. Þessar auglýsingar eru ekki síður málefnalegar en aðdáendabréfin í Mogganum, því að í þeim er ekki orð um málefni, en þeim mun meira minnst á Svandísi Svavarsdóttur, sem brosir glaðlega og af lítillæti framan í kjósendur.
En talandi um framboð vinstri grænna í Reykjavík – hvað varð eiginlega um Árna Þór Sigurðsson? Hvað gerði hann af sér sem verðskuldaði það að á hann er ekki minnst í kosningabaráttunni? Hvernig væri nú að rannsóknarblaðamenn landsins könnuðu hvers vegna hann er hafður í felum og hvers vegna hann náði rétt naumlega öðru sæti listans í forvalinu? Var Árni Þór ekki nægilega „laus við alla sjálfhverfu og sýndarmennsku“ eða er einhver önnur ástæða fyrir því að hann er horfinn af hinu pólitíska yfirborði vinstri grænna?
Vefþjóðviljinn leyfir sér að lokum að minna á frambjóðanda vinstri grænna, Svandísi Svavarsdóttur.