V algerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra telur líklega að fylgi Framsóknarflokksins sé ekki enn orðið nægilega lítið og ákvað því í vikunni að leggja sitt af mörkum til að ná því frekar niður. Hún tók þess vegna upp á því að viðra þá kenningu að Íslendingar ættu að athuga með að kasta krónunni fyrir evru. Ýmsir bentu á að þetta væri býsna fjarstæðukennd hugmynd, en Valgerður svaraði því til í morgunfréttum Ríkisútvarpsins í gær að slíkir menn töluðu af léttúð um málið. Hún flutti mál sitt hins vegar af miklum alvöruþunga og sagði að „ef að þjóðirnar sem við skiptum hvað mest við eins og Bretar og Danir til dæmis tækju upp evru og gengju í Efnahags- og myntbandalagið þá væri staða okkar orðin mjög þröng“.
Þetta er auðvitað hárrétt hjá Valgerði og full ástæða til að taka þetta mjög alvarlega. Allir vita jú að Bretar og Danir notast nú við íslensku krónuna sem lögeyri þannig að ef þeir taka upp aðra mynt hlýtur staða okkar að vera orðin mun þrengri en nú er. Við þurfum þá að fara að skipta krónunum okkar þegar við förum til Danmerkur og Bretlands og slíkt óhagræði myndi vitaskuld gera það að verkum að okkur væri nauðugur sá kostur í þröngri stöðu að taka upp evruna til að vera áfram með sama gjaldmiðil og þessi viðskiptalönd okkar.
Þ að líður varla sú umræða á Alþingi – eða annars staðar ef út í það er farið – að stjórnarandstöðuflokkarnir tefli ekki lýðræðinu fram og lýsi sig mikla stuðningsmenn þess. Þeir hljóma stundum eins og þeir einir hafi áhuga á lýðræðinu og lýðræðislegri umræðu. Í þessu ljósi er athyglisvert hvernig þeir kjósa stundum að vinna að málum á Alþingi, eins og vatnafrumvarpið sem nú er til afgreiðslu er gott dæmi um. Lýðræðisleg afstaða stjórnarandstöðunnar til afgreiðslu þess máls felst í því að reyna að koma í veg fyrir að lýðræðislega kjörinn meirihlutinn nái að greiða atkvæði um málið. Ætlast þessir sjálfskipuðu talsmenn lýðræðisins virkilega til að þeir verði teknir alvarlega næst þegar þeir tjá lýðræðisást sína?
M orgunblaðið leggur ekki í vana sinn að efast um eigin fréttir. Þó gerðist það á fimmtudag að blaðið flutti frétt undir fyrirsögninni „Ellilífeyrir hæstur á Íslandi?“ af því að ellilífeyrir fyrir skatta væri hæstur á Íslandi af Norðurlöndunum samkvæmt nýjustu útgáfu NOSOSKO. Já, það er ekki á hverjum degi sem Morgunblaðið skýtur spurningarmerki inn í fyrirsagnir sínar til að minnka trúverðugleika fréttanna og ekki er beinlínis hægt að segja að það liggi í augum uppi hvers vegna það er gert í þessu tilfelli. NOSOSKO, sem er samnorræn tölfræðistofnun, hefur hingað til þótt nægilega áreiðanleg til að fréttir af tölum frá henni gætu staðið án spurningarmerkja og ekkert í texta fréttarinnar gaf til kynna að ástæða væri til að efast um áreiðanleika upplýsinganna.
Nú er ekki gott að segja hvers vegna þessi frétt fær þann vafasama heiður að blaðið setur spurningamerki við hana. En getur verið að það stafi af því að blaðamanninum þyki upplýsingarnar svo ótrúlegar, eftir sífelldan áróður um meinta aðför að kjörum aldraðra hér á landi, að hann trúi því ekki þegar hann les það svart á hvítu að aldraðir hafi það betra hér en í nágrannalöndum okkar?