Miðvikudagur 8. mars 2006

67. tbl. 10. árg.

F réttamaður NFS, Sveinn Guðmarsson, hélt á sunnudag áfram að flytja heimsendafréttir af loftslagsmálum og enn varð rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Science honum tilefni fréttarinnar. Eins og fyrri daginn var niðurstaðan kynnt eins og hið eina rétta í málinu og áhorfendur þurftu ekkert að efast um að í óefni stefndi. Íshellan á Suðurskautinu væri að bráðna og höfin að hækka hraðar en talið var, rétt eins og Grænland væri að bráðna hraðar en áður var talið. Um hálftíma síðar flutti Jón Gunnar Grjetarsson svo nánast sömu frétt í Ríkissjónvarpinu. Þó að fréttirnar hafi verið einhliða eins og venja er um slíkar fréttir, þá er það reyndar svo að niðurstöður rannsókna um þessi atriði eru langt frá því einhlítar. Aðrar rannsóknir hafa ýmist sýnt gagnstæða þróun eða mun  hægari. Dr. Patrick J. Michaels loftslagsfræðingur fjallar um umræddar rannsóknir á ísnum á Suðurskautinu og Grænlandi í tveimur nýlegum greinum, Antarctic Ice: The Cold Truth og Ice Storm.

Ef marka mætti fréttir sjónvarpsstöðvanna mætti ætla að allir vísindamenn og allar rannsóknir segðu sömu sögu um þróun íssins á Suðurskautinu og á Grænlandi.

Í greininni um Suðurskautsísinn segir Michaels frá því að rannsóknin sem vísað er til byggi á 34 mánaða gagnarunu sem fengin sé frá gervihnetti NASA sem mæli aðdráttarafl jarðar. Breyting aðdráttarafls hafi verið notuð til að meta breytingu á þykkt íssins, sem sé erfitt því að fleira en ísinn hafi áhrif á aðdráttaraflið. Þá segir hann frá því að í þessum rannsóknum sé Suðurskautslandinu skipt í tvennt, í vestari hluta og eystri hluta og sá síðarnefndi sé þrefalt stærri. Í eystri hlutanum finnist ekki skýr þróun í ísþykktinni, en þynningin sem mælist komi nær öll fram í minni vestari hlutanum. Síðasta sumar hafi önnur rannsókn um svipað efni verið birt í Science en þar hafi niðurstaðan verið önnur. Vestari hlutinn hafi að vísu verið að þynnast, en eystri hlutinn, sá stærri, hafi verið að þykkna og það hafi gert meira en vega upp á móti þynningu minni hlutans. Þetta þýðir að ísinn á Suðurskautinu fór í heild vaxandi samkvæmt þessari rannsókn, sem birt var síðasta sumar og var gerð með gervitungli eins og hin, en náði yfir mun lengra tímabil, eða árin 1982 til 2003. Af samanburði rannsóknanna segir Michaels að sjá megi að við upphaf stuttu rannsóknarinnar hafi þróun íssins verið í hámarki náttúrulegrar sveiflu eins og hún mældist í lengri rannsókninni, þannig að rýrnun íssins kunni að vera skammtíma leiðrétting. Um þetta sé þó engin leið að segja og gögn sem spanni innan við þrjú ár séu ófullnægjandi til að draga ályktanir um kerfi á borð við það sem sé á Suðurskautslandinu. Þá bendir Michaels á að gervihnattagögn sem nái aftur til níunda áratugarins bendi til þess að ísinn í sjónum við Suðurskautið fari heldur vaxandi, þannig að það sé alls ekki svo að útlit sé fyrir að ísinn þar sé að bráðna.

Í grein sinni um rannsóknirnar á ísnum á Grænlandi, Ice Storm, furðar Michaels sig á því að í nýrri grein í Science sé ekki minnst á rannsókn sem birtist í sama riti í fyrra og sýndi þveröfuga niðurstöðu. Samkvæmt nýju rannsókninni bráðni ísinn á jaðri Grænlands hraðar en áður hafi verið talið. Hin rannsóknin hafi sýnt að aukin snjókoma á innanverðu Grænlandi hafi valdið því að ísinn þar hafi aukist meira en áður hafi verið talið, sem hafi dregið úr þeirri bráðnun sem talin hafi verið fyrir hendi. Michaels segir að ef tekið hefði verið tillit til þessara mælinga sem sagt var frá í greininni í Science í fyrra hefðu áætluð áhrif bráðnunar Grænlandsjökuls á hæð heimshafanna minnkað mikið, sem hefði gert niðurstöðurnar mun minna krassandi.

Þá segir Michaels að sveiflur hitastigs við Grænland séu hluti af fyrirbæri sem kallist AMO (Atlantic Multidecadal Oscillation), sem á íslensku gæti kallast Áratugasveifla Atlandshafsins. Þessi hitasveifla tengist hitabreytingum sunnar í Atlantshafi þar sem fellibylir myndist og sambærilegar sveiflur megi sjá á báðum stöðum. Talið sé að þetta hafi átt sér stað í að minnsta kosti 1.000 til 1.500 ár. Þegar hitasveiflan sé jákvæð, þ.e. þegar hún veldur hækkun hita, aukist fellibylir og Grænlandsjökull renni hraðar út í sjó. Áratugasveiflan segir Michaels að hafi snúist úr neikvæðri í jákvæða árið 1995 og síðan þá hafi fellibylir verið tíðir og jökullinn hafi bráðnað hraðar. Engin ástæða sé til að tengja þessi fyrirbæri hlýnun loftslags jarðar. Í þessu sambandi nefnir Michaels að margir af helstu sérfræðingum  heimsins á sviði fellibylja segi að AMO en ekki loftslagsbreytingar af manna völdum sé meginskýringin á auknum fellibyljum á Atlantshafi síðasta áratuginn eða svo, og hann vísar í vef Sjávar- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna í þessu sambandi. Þar sem AMO tengi sjávarhita sunnar í Atlantshafinu saman við hitann í kringum Grænland eigi sama röksemd við um Grænlandsjökul.