O rðatiltækið glöggt er gests augað hefur verið notað af ómerkara tilefni en því að lýsa orðum Brian Prime, forseta Evrópusamtaka smáfyrirtækja, í frétt í Morgunblaðinu í fyrradag. Blaðið hefur eftir Prime að Davíð Oddsson, sem hann hitti í heimsókn sinni hingað til lands, hefði „átt stóran þátt í að skapa það rekstrarumhverfi sem íslensk fyrirtæki byggju nú við og hver Evrópuþjóð mætti taka sér til fyrirmyndar.“ Í fréttinni er einnig haft eftir Prime að hann geti ekki mælt með því við Íslendinga að þeir gengju í Evrópusambandið. „Miklu frekar væri þetta spurning um að Evrópusambandið færi að framfylgja stefnu Íslendinga í efnahagsmálum. Skriffinnskan í ESB væri orðin slík og pólitíkin allsráðandi að ekkert bólaði á framförum fyrirtækjum til hagsbóta.“
Prime sagði einnig að ekkert gengi hjá Evrópusambandinu að framfylgja Lissabon-áætluninni frá síðustu aldamótum, sem hefði verið ætlað að gera sambandið að samkeppnishæfasta umhverfi í heimi fyrir árið 2010. „Nú væru sex ár liðin en menn kæmust ekkert áfram fyrir reglugerðarfargani og vinnu við að afnema viðskiptahindranir. Við þær aðstæður gætu evrópsk fyrirtæki ekki keppt við önnur markaðssvæði í heiminum.“
Morgunblaðið spurði Prime að því hvort að Íslendingar ættu að taka upp evruna og hafði eftir honum að það væri alger óþarfi. Og blaðið hefur eftir honum að ef Ísland gangi í Evrópusambandið þá muni íslensk fyrirtæki fá yfir sig haug af reglugerðum sem erfitt sé að komast upp úr, ekki síst fyrir smáfyrirtækin. „Í Evrópu er sú stefna við lýði að ef þú ert með fótbrotna manneskju þá verður að brjóta leggina á hinum svo allir búi við sömu fötlunina,“ hefur Morgunblaðið eftir forseta Evrópusamtaka smáfyrirtækja.
Skilaboð Prime um sjávarútveginn voru ekki síður skýr, það sama mætti ekki gerast hér og hefði gerst í Bretlandi. „Þar væri sjávarútvegurinn í rúst sökum fiskveiðistefnu ESB.“
F ram hefur komið að Háskóla Íslands langar til að verða talinn meðal 100 bestu háskóla í heimi. Þetta mun kosta eitthvert fé umfram það sem þegar er varið til skólans, sem þó er umtalsvert og hefur farið stöðugt vaxandi. Rekstrarfé skólans kemur að stærstum hluta frá þeim sem ekki stunda nám við skólann, en Kristín Ingólfsdóttir rektor skólans telur þrátt fyrir þetta að skólagjöld séu ekki góð lausn á fjárhagsvanda háskólans, eins og það var orðað í frétt Ríkisútvarpsins í gær.
Hvers vegna skyldi það nú ekki vera góð leið til að bæta fjárhag Háskólans að þeir sem nýta sér þjónustu hans greiði meira fyrir hana, en hinir, það er að segja þeir sem ekki nýta sér þjónustuna, greiði minna? Þegar skólagjöldum við Háskólann er mótmælt eru sjaldan færð fram rök, einungis fullyrt að ekki megi leggja á skólagjöld. Þegar þó er reynt að rökstyðja þessa skoðun er því yfirleitt haldið fram að skólagjöldin skerði jafnrétti til náms.
Flestir fara í háskóla vegna þess að þeir telja að það muni gagnast þeim í framtíðinni. Menn fara ekki þessa leið af því þeir vilji fórna sér fyrir aðra eða hafi almannaheill í huga. Afleiðingarnar verða engu að síður oft þær að aðrir njóta óbeins ávinnings af náminu, en persónulegi ábatinn er meiri og skýrari og það er hann sem fær fólk til að stunda námið. Og það má ekki gleyma því að aðrir njóta líka óbeins ábata af starfi þeirra sem kjósa að fara ekki í háskóla en nýta tíma sinn þess í stað til annarra arðbærra starfa. Óbeinn ábati margra af góðu starfi einstaklinga einskorðast sem sagt ekki við störf háskólamanna. En meginatriðið er að það er ekkert ranglæti í því fólgið að fólk greiði sjálft fyrir háskólanám sitt og skólagjöld þurfa ekki að hindra nokkurn mann í að afla sér hagkvæmrar menntunar. Það getur hins vegar mögulega hindrað einhvern í að sækja sér menntun sem ekki er arðbær fyrir hann eða aðra. Þá hlýtur hins vegar að blasa við sú spurning hvort eitthvað sé athugavert við það?