Guðlaugur Þór Þórðarson og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Nái frumvarpið fram að ganga verður launagreiðendum skylt að aðgreina útsvar og tekjuskatt á launaseðli launamanns. Andríki vakti athygli á því með lítilli skýrslu í haust að í mörgum tilfellum taka sveitarfélögin stærri hluta staðgreiðslunnar til sín en ríkið. Þeir sem hafa undir 262 þúsund krónum í mánaðarlaun greiða meira í útsvar til sveitarfélaga en í tekjuskatt til ríkisins. Þeir sem hafa tekjur undir skattleysismörkum greiða engan tekjuskatt til ríkisins og ríkið greiðir allt útsvarið fyrir viðkomandi. Ríkið tryggir með öðrum orðum að sveitarfélögin hafi útsvarstekjur af framteljendum þótt launatekjur séu undir skattleysismörkum. Sveitarfélögin hafa meiri tekjur en ríkið af staðgreiðslu launþega. Andríki hvatti launagreiðendur því til að sundurliða útsvarið og tekjuskatt ríkisins á launaseðlum starfsmanna sinna. Einhver dæmi eru nú þegar um að einkafyrirtæki geri það og Kjartan Magnússon borgarfulltrúi lagði fram tillögu um það í borgarstjórn Reykjavíkur að hefði þennan hátt á.
Þegar það liggur fyrir að málið nýtur svo góðs stuðnings innan þingflokks Sjálfstæðismanna er spurning eftir hverju Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, launagreiðandi mörg þúsund ríkisstarfsmanna, er að bíða. Hann getur sundurliðað útsvarið og tekjuskatt ríkisins á launaseðlum ríkisstarfsmanna án lagaboðs.