B orgarfulltrúinn og frambjóðandi vinstri grænna Árni Þór Sigurðsson má eiga það að hann er oft samkvæmur sjálfum sér. Ja, svona að minnsta kosti þegar hann þarf ekki að fara á rúntinn á bíllausa deginum. En hann var sem sagt samkvæmur sjálfum sér í viðtali við tímaritið Grapevine þar sem hann fór ekki dult með óánægju sína með að hinn almenni maður hefur valið að ferðast um höfuðborgina á eigin bíl en ekki á bíl borgarinnar með einkabílstjóra. Blaðamaður spurði Árna hvaðan peningarnir fyrir öllum góðu útgjaldatillögunum ættu að koma, það er að segja hvað ætti að skera niður á móti, og ekki stóð á svarinu: „Ég mundi segja samgöngumálin – peningarnir sem fara í að byggja og halda við nýjum götum. Ég tel að við setjum allt of mikið fé í þennan málaflokk vegna þess að við erum alltaf að byggja upp fyrir einkabílinn. Það er fullt af peningum þarna.“ Árni bætti svo við að það mætti líka spara með því að draga úr greiðslum til íþróttamála. Óhætt er að taka undir að ekki ætti að eyða skattfé í íþróttir eða aðrar tómstundir sumra borgarbúa á kostnað annarra.
BB orgarstjórinn í Reykjavík, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, var ekki síður sátt en Stefán Jón Hafstein með úrslit prófkjörs Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Eftir að úrslitin höfðu verið kynnt ræddi fréttamaður Ríkissjónvarpsins við Steinunni og spurði: „Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þú ert borgarstjóri núna en verður það þá væntanlega ekki eftir þetta kjörtímabil. Hver eru þín viðbrögð?“
Steinunn, sem er viti sínu fjær af ánægju með ósigurinn og ætlar að gera allt sem hún getur til að stuðla að sigurgöngu Dags B. Eggertssonar, svaraði að bragði: „Ja, það er nú ekkert útilokað að ég geti orðið borgarstjóri, það er ekkert hægt að útiloka það hér og nú…“ Þetta er hárrétt, auðvitað er ekkert hægt að útiloka það að Steinunn verði borgarstjóri eftir kosningar.
BBB jörk Vilhelmsdóttir fyrrverandi vinstri græn en nú háð Samfylkingunni en þó óháð einhverju öðru var í viðtali við morgunþátt Ríkisútvarpsins á mánudaginn, daginn eftir að prófkjöri Samfylkingarinnar lauk og hún hafði verið kjörin í fjórða sæti listans. Þáttarstjórnandinn var greinilega ringlaður vegna óháðrar stöðu Bjarkar og spurði í sakleysi sínu: „Hvað þýðir þetta Samfylking og óháðra. Af hverju þarf þetta óháðir að vera þarna? Af hverju geta menn ekki bara verið í flokknum? Af hverju getur þú ekki farið í flokkinn, gengið í flokkinn?“
Við þessu átti Björk Vilhelmsdóttir afar skýrt svar: „Eeeh [hikaði lengi] ég veit það ekki.“
Björk veit það ekki og það veit vitaskuld ekki nokkur annar. Þetta óháða tal er öllum óskiljanlegt. En hvað um það, þessu óneitanlega svolítið sérstaka svari fylgdi svo löng og fjarstæðukennd romsa sem þar með er líklegt að Dagur B. Eggertsson hafi samið og fer hún orðrétt hér á eftir: „Það er kannski að hérna í sveitarstjórnarmálum að þar hefur ekki greint á milli félagshyggjuflokkanna í hvað málefnin varðar og það var mjög skýrt í viðræðunum um Reykjavíkurlistasamstarfið og áframhald þess að það kom enginn vilji eða það komu ekki fram neinar kröfur um breytingar á málefna – sem sagt – samningnum vegna þess að við höfum verið öll sammála. En síðan kannski greinir flokkana á í öðrum málum. Og ég var ekki tilbúin til þess að ganga það skref að ganga alveg inn í Samfylkinguna. Og líka vegna þess að mér finnst það skipta máli að Samfylkingin yrði svona breiðfylking borgarbúa í komandi kosningum því að ég held að langflestir, allavegana þeir sem að kjósa, eru ekki flokksbundnir. Þeir kannski vilja líka sjá óflokksbundna fulltrúa sem sagt inni á svona lista sem væru þá svolítið þeirra fulltrúar. Þannig að mér finnst það bara mér finnst það bara rétt að bjóða borgarbúum upp á það.“
Vefþjóðviljanum fannst ekki rétt að bjóða lesendum sínum upp á þetta, en lét sig hafa það.