Þ ó að hægt væri að draga aðra ályktun af því að fylgjast með fréttum fer heimurinn stöðugt batnandi. Richard W. Rahn fjallaði um þessa staðreynd í grein í The Washington Times í gær og bendir þar á hve mikið hafi áunnist bæði á síðustu áratugum og síðustu tvær aldirnar. Árið 2005 var besta ár mannkynsins til þessa, næstum því sama hvernig á það er litið, segir hann. Fólk lifði lengur en nokkru sinni fyrr, læsi var útbreiddara en nokkru sinni fyrr og sama má segja um tekjur. Og fleiri bjuggu í löndum sem eru frjáls, eða að minnsta kosti að hluta til frjáls, en nokkru sinni áður í sögu mannkynsins.
Rahn skoðar lífsgæðin í sögulegu ljósi og bendir á að um aldamótin 1800 hafi tekjur fólks aðeins aukist um 50% frá árinu 1 og ástandið hafi verið slæmt, menn hafi almennt lifað stutta og erfiða ævi. Síðustu tvær aldirnar hafi orðið miklar breytingar sem sjáist af því að framleiðsla á mann í heiminum hafi um það bil tvítugfaldast frá upphafi tímatals okkar og næstum öll sú aukning hafi orðið síðustu tvær aldirnar. Það sem meira er, hann segir að hraði aukningarinnar hafi líka farið vaxandi síðustu tvo áratugina og á síðustu fimm árum hafi vöxtur heimsframleiðslunnar verið að meðaltali yfir 4% á ári. Tekjur meðalmannsins á jörðunni séu um það bil þrefaldar tekjur meðalmannsins fyrir hálfri öld.
Rahn segir ennfremur að í fyrra hafi hagvöxtur verið jákvæður í öllum löndum heims fyrir utan tvö lönd í Afríku. Hann gerir ekki lítið úr vandamálum þeirrar heimsálfu, en bendir á að þau séu ríkisstjórnum landanna að kenna en ekki fæðuskorti í heiminum. Loks minnir hann á að Rómarklúbburinn og aðrir heimsendaspámenn hafi fyrir aðeins þremur áratugum spáð því að auðlindir jarðar væru að klárast og að fjölgun mannkyns myndi gera út af við það. Staðreyndin sé hins vegar sú að framleiðnin fari vaxandi og flestar vörur hafi lækkað í verði að raungildi. Þá hafi næstum alls staðar dregið mjög út fólksfjölgun og margir hafi nú meiri áhyggjur af fækkun fólks en fjölgun.
En heimsendaspámenn hættu ekki starfsemi fyrir þremur áratugum. Í fréttum NFS í gær urðu áhorfendur til dæmis vitni að því þegar sögð var frétt af nýrri rannsókn sem birt er í tímaritinu Science um að hitastig hafi aukist meira á síðustu áratugum en dæmi séu um síðasta rúma árþúsundið og fullyrti fréttamaðurinn að það væri nýlunda að horft væri svo langt aftur sem átti líklega að sanna hversu merkileg fréttin væri. Þessi fullyrðing fréttamannsins er hins vegar vitaskuld della, enda eru til rannsóknir á hitastigi jarðar sem ná mörg hundruð þúsund ár aftur í tímann. Fréttamaðurinn fullyrti af ámóta þekkingu að vísindamenn væru „ekki í vafa um hvernig á þessu stendur“ og kaus svo af einhverjum ástæðum í beinu framhaldi að ræða við veðurfréttamann NFS um málið eins og hann sé vísindamaður á þessu sviði. Sá fór mikinn í fullyrðingum sínum um þetta eins og hann hefur oft gert áður, kenndi mannskepnunni um og brýndi stjórnvöld eins og vinsælt er meðal heimsendaspámanna. Veðurfréttamaðurinn lét sig meira að segja hafa það að fullyrða að hlýnunin hefði áhrif á sjávarstrauma sem skiptu Ísland máli, en eins og þeir vita sem fylgjast með umræðum vísindamanna um þau mál sýna engar rannsóknir að Golfstraumurinn sé að veikjast. Þvert á móti hafa mælingar á honum sýnt að hann sé ekki að veikjast, en sumir vísindamenn hafa hins vegar verið með kenningar um að hann kunni að veikjast þótt mælingar staðfesti það ekki.
Þetta eru allt kunnuglegar getgátur, en það eina sem hægt er að fullyrða um þessi mál er að vísindaleg þekking er ófullkomin og að engin leið er að fullyrða neitt. Og það er alls ekki hægt að fullyrða að vísindamenn séu allir sammála um þessi mál þótt fréttamaðurinn hafi gert það. Um það var meðal annars fjallað hér. Það er ekki einu sinni hægt að fullyrða að allir svo kallaðir umhverfissinnar séu sammála um þessi mál, eins og hér hefur verið minnst á.