Hann Tumi fer á fætur við fyrsta hanagal, að sitja yfir ánum lengst inn í Fagradal. Hann lætur hugann líða Og Snati hans er hirðfífl |
– Freysteinn Gunnarsson |
Í trausti þess að þeir séu fáir sem ekki heyra töfrandi tóna klingja í huga sér við það eitt að hafa þessar einföldu línur yfir þá leyfir blaðið sér að vona að því hafi með þessu tekist að leika fyrir, eða kannski öllu heldur á, lesendur sína lítinn lagstúf eftir Mozart. Með þessu hefur blaðið, þó með smáu sniði sé, blandað sér í hóp þeirra fjölmörgu sem með einum eða öðrum hætti minnast þess að á þessu ári eru tvöhundruð og fimmtíu ár liðin frá fæðingu tónskáldsins. Og tónskáldsins og tónlistar hans verður svo sannarlega minnst, reyndar verður svo mikið við haft og svo víða að margir tónlistarunnendur hafa nú þær áhyggjur helstar að áður en árið er liðið verði öllum orðið bumbult af allt of miklum Mozart. En er raunveruleg ástæða til að óttast að tónlist Mozarts berist of oft fólki til eyrna? Er ekki frekar ástæða til að hafa áhyggjur af því að sífellt fleiri heyri aldrei tónlist Mozarts, nema þá kannski í lyftu eða sem hringingu í farsíma? Það er í öllu falli líklegra að áhyggjur manna séu ekki til einskis ef þeim er eytt á fuglaflensu frekar en Mozarteitrun þetta árið. Svo mikið er til af tónlist Mozarts og af svo mörgu tagi að mjög stóra skammta þyrfti að innbyrða á skömmum tíma svo einhverrar velgju færi að gæta að ráði.
„Að taka á annan tug milljarða með nauðung frá fólki og byggja fyrir það tónlistarhöll og svo talsvert fé að auki til að reka þar hljómsveit sem leikur Mozart mörgum sinnum á ári er hugsanlega framlag til menningarinnar en það er allt saman á kostnað siðmenning-arinnar.“ |
Breski hljómsveitarstjórinn Sir Colin Davis hefur lengi verið í hópi þeirra sem hallast svona heldur að því að tónlist Mozarts eigi nokkurt erindi við menn í nútímanum og hann hefur verið mörgum öðrum duglegri að reka þetta erindi á langri starfsævi. Í viðtali við tímaritið Gramophone, sem birtist í árbók þess: The classical good cd and dvd guide 2006 er Davis spurður að því hvers vegna Mozart skipti enn máli. Davis spyr þá á móti:
„Hvers vegna skipta stórvirki mannsandans yfir höfuð máli? Ef við lítum til baka þá sjáum við að evrópsk menning byggðist upp af því sem mestu hugsuðir Evrópu gátu af sér. Ef það skiptir máli þá var Mozart einn af þeim stærstu. Sumir kynnu að halda að menning skipti ekki máli lengur en ég er þeirrar skoðunar að hún skipti máli og fyrir mér stendur Mozart fyrir það hvað það þýðir að vera siðmenntaður.“
Það má út af fyrir sig vel skilja að Sir Colin Davis svari spurningunni hvort Mozart skipti enn máli með spurningu um hvort stórvirki mannsandans skipti yfir höfuð máli. Davis kann vel að meta Mozart og í spurningu hans felst að hann skipar verkum Mozarts á bekk með stórvirkjum mannsandans og hér verður ekki gerður minnsti ágreiningur um það. En að Mozart standi fyrir hvað það þýði að vera siðmenntaður er ekki jafn sjálfsagt, að því gefnu að þarna sé vísað til verka tónskáldsins frekar en sjálfrar persónu þess. Menningin væri sannarlega fátækari ef Mozarts hefði ekki notið við og ekki bara fátækari af verkum Mozarts heldur jafnvel einnig af mörgum verkum Beethovens og fjölmargra, tónlistarmanna sem annarra, sem urðu fyrir áhrifum af verkum Mozarts. En hvað sem Mozart og áhrifavaldi hans líður þá hefði það engum úrslitum ráðið fyrir siðmenninguna ef hann hefði orðið skósmiður eða klæðskeri eða bara yfir höfuð ekki fæðst inn í þennan heim.
Siðmenningin býr ekki í tónlist Mozarts, né nokkurri annarri tónlist ef út í það er farið þó fegurðin búi þar. Ekki svo að skilja að tónlist Mozarts sé einn samfelldur merkingarlaus fagurgali en þó hún spanni margt og sé full merkingar þá er hún ekki gervöll siðmenningin ekki frekar en að verk Wagners séu villimennskan svo klisjunum sé nú haldið til haga. Þessi verk eru að einhverju marki afurð siðmenningarinnar en þau eru ekki sjálf siðmenningin, þau eru þegar öllu er á botninn hvolft bara tónlist og til þess að geta talist innlegg í siðmenninguna þá þurfa þau það sem allri tónlist er mikilvægast: áheyrendur. Tónlistin verður að hluta til í hugum áheyranda. Að syngja lagið við erindin þrjú hér að ofan kallar kannski fram minningar um morgunsöng í grunnskóla hjá einum lesanda en bregður upp atriði úr Töfraflautunni fyrir öðrum. Woody Allen sagði að í hvert sinn sem hann heyrði Wagner þá fyndi hann fyrir skyndilegri þörf til að ráðast inn í Pólland. Viðbrögðin eru því mismunandi og tónlistin verður ekki hluti siðmenningarinnar fyrr en hún kemur fyrir eyru hlustenda og vekur þau. En þó viðbrögðin séu mismunandi þá eru mennirnir nú samt svo líkir að með tónlist má tala þannig að nánast allir skilji hvað höfundur og flytjendur eru að segja. Margt af því sannasta og besta sem sagt hefur verið hefur verið sagt í tónlist og kannski verður sumt bara sagt í tónum. Misskilningur einstakra hlustenda breytir þar engu um.
En áheyrendur verða að hlusta af fúsum og frjálsum vilja, það er ekki hægt að búa til siðmenningu með því að neyða fólk til að hlusta á Mozart. Siðmenning felst í réttri breytni einstaklinga og undir nauðung breyta menn á þann eina veg sem sá sem neyðir býður og því ekki um neina breytni að ræða undir nauðung nema þess sem neyðir og sú breytni er röng. Að taka á annan tug milljarða með nauðung frá fólki og byggja fyrir það tónlistarhöll og svo talsvert fé að auki til að reka þar hljómsveit sem leikur Mozart mörgum sinnum á ári er hugsanlega framlag til menningarinnar en það er allt saman á kostnað siðmenningarinnar. Það væri raunverulegt framlag til siðmenningarinnar ef fallið yrði frá áformum um byggingu tónlistarhúss og fénu skilað aftur til réttmætra eigenda þess sem svo gætu sjálfir ráðstafað því í tónleikahöll ef þeir kysu svo. Annað ágætt framlag til siðmenningarinnar væri að gefa fastráðnum hljóðfæraleikurum sinfóníuhljómsveitarinnar hljómsveitina. Það gæti reyndar reynst drjúgt framlag til menningarinnar um leið.