En ritstjóri óháðs og hlutlauss fréttablaðs getur ekki verið í stjórnarskrárnefnd sem helsti talsmaður atlögu Sjálfstæðisflokksins að málskotsrétti forseta – til að refsa núverandi forseta fyrir að synja staðfestingu fjölmiðlalaganna. Þá er komið á beint hagsmunasamband á milli ritstjórans og stjórnmálaflokksins, og Fréttablaðið getur ekki talist hlutlaust og óháð. Hugsuðu eigendur Fréttablaðsins út í þetta? |
– Össur Skarphéðinsson á bloggsíðu sinni um ráðningu Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. |
Þegar ljóst var að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færi gegn Össuri Skarphéðinssyni í formannskjöri í Samfylkingunni setti Össur upp bloggsíðu sem hann af örlæti sínu kenndi við keppinautana í formannskjörinu, www.ossur.hexia.net. Síðan hefur Össur bloggað reglulega. Að daglegu bloggi loknu sendir Össur svo jafnan fréttatilkynningu á helstu fjölmiðla um að Össur Skarphéðinsson hafi bloggað. Í nótt sem leið hafði Össur miklar áhyggjur af því að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd væri orðinn ritstjóri dagblaðs. Blaðið getur ekki talist hlutlaust og óháð með slíkan ritstjóra segir Össur. Er þetta ekki sami Össur og var þingmaður á meðan hann var ritstjóri DV á árunum 1997 til 1998? Um þær mundir lýsti DV því yfir á forsíðu að það væri „frjálst og óháð“ blað. Fréttablaðið hefur hins vegar eðli máls samkvæmt aldrei reynt að sannfæra fólk um að það sé frjálst og óháð og engum hefur dottið í hug að gera kröfu um slíkt.
Hvort er nú líklega til að hafa áhrif á ritstjóra; að hann er þingmaður stjórnmálaflokks eða nefndarmaður tilnefndur af stjórnmálaflokki? En það er líklega rétt hjá Össuri að þingmannsferill hans er léttvægari en venjuleg nefndarseta.
Og Össur hefur haft skoðanir á fleiri málum á Fréttablaðinu. Í fyrrinótt leiddi hann út sönnun á því að eigendur Fréttablaðsins hefðu engin áhrif á ritstjórnarstefnu og skrif í blaðið. Í sönnunina notaði hann Guðmund Magnússon ritstjórnarfulltrúa og leiðarahöfund á Fréttablaðinu.
Guðmundur er hins vegar sjálfstæður penni, og hefur ekki hikað við að segja álit sitt þó það komi yfirmönnum hans varla vel, sbr. gagnrýninn leiðara nýlega um vonda málsvörn Gunnars Smára um ritstjórnarstefnu DV í kjölfar ísfirsku skandalfréttarinnar. Sú staðreynd, að Guðmundur gat birt slíkan leiðara gerði það hins vegar að verkum að ég trúði því loks að Fréttablaðið væri laust við áreiti af hálfu eigenda og æðstu yfirmanna 365-miðla |
Í sömu andrá og Össur setti þessa sönnun fram var Guðmundur Magnússon rekinn af Fréttablaðinu. Össur, sem sendir fjölmiðlum fréttatilkynningar um að hann hafi bloggað, neitar nú að tjá sig um þessa kenningu sína við fjölmiðla og lagði beinlínis á flótta undan fréttamanni í fréttatíma Bylgjunnar í morgun.