Föstudagur 20. janúar 2006

20. tbl. 10. árg.

Morgunblaðsgrein Stefáns Ólafssonar prófessors á miðvikudaginn um breytingar á skattbyrði á síðustu tíu árum er kærkomin að því leyti að hún beinir augum manna að þeirri staðreynd að skattalækkanir síðustu ára hafa ekki verið nægilega miklar til að draga úr tekjum hins opinbera sem hlutfalli af tekjum launamanna. Hún undirstrikar einnig að því hærri laun sem menn hafa því hærra skatthlutfall greiða þeir. Hins vegar er það afar ósanngjarnt af Stefáni að blanda fjármagnstekjum inn í þennan samanburð sinn á skattbyrði einstaklinga og það er einnig hæpið að taka bætur eins og vaxta- og barnabætur með í þennan reikning. Vaxta- og barnabætur eru ekki skattaafsláttur heldur beinir styrkir sem greiðast óháð því hvort menn greiða tekjuskatt til ríkisins. Stefán gerir heldur ekki greinarmun á ríki og sveitarfélögum sem væri æskilegt í ljósi þess að sveitarfélög fá ríflega helming innheimts tekjuskatts í sinni hlut. Auk þess verða útreikningar af þessu tagi alltaf mjög vandasamir og umdeilanlegir þegar laun hafa hækkað langt umfram annað verðlag á samanburðartímanum.

Ástæða þess að skattbyrði einstaklinga eykst þrátt fyrir að skattar séu lækkaðir er einfaldlega sú að tekjur manna hafa aukist mjög hin síðari ár. Og þegar menn hækka í launum þá hækkar það hlutfall sem menn greiða í tekjuskatt og útsvar. Ein leið til að koma í veg fyrir að hærri tekjur þýði hærri skatt er að afnema persónuafslátt og taka upp flatan skatt. Fleiri skattþrep, eins og Samfylkingin leggur stundum til, mundi hins vegar auka þennan vanda.

Maður með 150 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir tæp 16% launa sinni í tekjuskatt og útsvar en þegar laun hans hækka í 250 þúsund krónur greiðir hann rúm 23% launa sinna. Í báðum tilvikum hefur verið tekið tillit til persónuaflsláttar og skattfrestunar iðgjalda í lífeyrissjóð. Það gefur því auga leið að skattbyrði eykst þegar menn hækka í launum. Í þessu dæmi mætti alveg halda því fram að skattbyrði mannsins hafi aukist um nær 50%! En það segir minna en ekkert um það hvernig hagur mannsins breyttist. Ráðstöfunartekjur hans hafa hækkað verulega en skattbyrðin einnig aukist.

Það má einnig snúa þessu dæmi við. Ef maður lækkar úr 250 þúsund króna launum í 150 þúsund þá snarlækkar skattbyrði hans. En mundi Stefán Ólafsson þá segja að maðurinn væri betur settur en áður?

Hvernig sem á dæmið er litið er það hins vegar staðreynd að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, taka stærri hlut af launum manna í skatt en áður. Það er ekki vegna þess að skattar hafi hækkað heldur hafa laun hækkað.