Ígær varpaði lagaprófessor þeirri kenningu fram í sjónvarpsfréttum að Alþingi mætti ekki skerða laun forseta Íslands eins og annarra embættismanna, því að laun hans væru varin í stjórnarskrá lýðveldisins þar sem í henni segði að ekki mætti lækka greiðslur til forsetans á kjörtímabili hans. Annar lagaprófessor sagðist ekki viss um að skerða mætti launin eins og fyrirhugað væri og vildi fara varlega. Nú er það auðvitað skiljanlegt að menn skuli leggja sig fram um að verja launakjör forsetans því að hann er ekki með nema rúmar 1,6 milljónir króna á mánuði í laun, eða rúmlega 60% meira en forsætisráðherra. En látum það vera, ef þessi laun hans eru stjórnarskrárvarin eins og lagaprófessorarnir halda fram, þá á vitaskuld ekki að skerða þau þótt laun annarra embættismanna séu skert. En skyldi það nú vera svo að ekki megi taka nýlega hækkun forsetans að hluta til af honum aftur?
Í 9. grein stjórnarskrárinnar segir: „Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“ Þetta er það ákvæði sem gagnrýnendur fyrirhugaðrar lækkunar vísa til, en þeir virðast ekki lesa greinina til enda, því að orðin „kjörtímabil hans“ hljóta að vera það sem ræður úrslitum um skýringu greinarinnar í þessu tilliti. Með því að nefna kjörtímabilið sérstaklega er greinilega verið að koma í veg fyrir að Alþingi geti lækkað laun forsetans niður fyrir það sem þau voru við upphaf kjörtímabilsins og hugsunin hlýtur að vera sú að koma í veg fyrir að Alþingi geti beitt forseta óeðlilegum þrýstingi og að tryggja að hann haldi að minnsta kosti þeim kjörum sem hann hafði þegar hann tók starfið að sér. Það hefði verið hægur vandi fyrir þá sem sömdu stjórnarskrána að sleppa orðunum „kjörtímabil hans“ hefði ætlunin verið sú að koma þeirri hugsun til skila sem einhverjir vilja nú ranglega leggja í greinina. Þessi orð voru hins vegar sérstaklega sett inn og þess vegna er augljóst að þau þarf að nota við að skýra greinina í stað þess að líta fram hjá þeim, eins og lögspekingar þykjast nú telja eðlilegt.
Alþingismenn hafa verið nær einróma í fordæmingu sinni á úrskurði kjaradóms um laun æðstu embættismanna. En kjaradómur var í raun ekki að gera annað en að mæla þá stjórnlausu hækkun sem hefur orðið á launum opinberra starfsmanna á undanförnum misserum.