Þegar menn ganga út um dyrnar á Hiltonhótelinu við Nílarfljót segja þeir ekki skilið við hátækniveröld faxtækja og ísvéla, sjónvarps og sýklalyfja. Íbúar Kaíró hafa aðgang að öllu þessu. Það sem menn segja í reynd skilið við er heimur viðskipta með eignarréttindum sem má framfylgja með lögum. |
– Hernando de Soto, Leyndardómur fjármagnsins, bls. 36. |
Hvernig stendur á því að sumar þjóðir njóta velsældar með kapítalisma á meðan aðrar, sem einnig virðast hafa tileinkað sér kapítalisma, eru fastar í fari fátæktar og upplausnar? Í bókinni Leyndardómur fjármagnsins leitar perúski hagfræðingurinn Hernando de Soto svara við þessari spurningu. Vefþjóðviljinn sagði frá enskri útkomu bókarinnar fyrir nokkrum árum og hefur fjallað um ýmsar tillögur og rannsóknir de Sotos í gegnum tíðina. Það er fengur að því að bók hans sé nú komin út á íslensku. Það er Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál – RSE sem gaf bókina út á íslensku nú um áramótin í samvinnu við Bókafélagið. Hagfræðingarnir Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson rita inngang að bókinni þar sem þeir fara yfir efni hennar og þá meginkenningu de Sotos að það sé skortur á skýrum eignarrétti sem hamli því að kapítalisminn skjóti rótum utan Vesturlanda. Þeir benda jafnframt á að það sé langur vegur frá því að öll vandamál ófullkomins eignarréttar á Vesturlöndum hafi verið leyst. „Til að mynda er afar stór hluti þeirra verðmæta sem við notum á hverjum degi ekki í séreign heldur einhverskonar almenn sameign eða almenningur. Það á t.d. við um fjölmörg náttúrugæði svo sem umhverfi, vatn, andrúmsloft og landrými.“ Þeir nefna jafnframt að skattlagning, hvort sem er eigna, tekna eða viðskipta, rýri eignarréttargildi viðkomandi eigna og veiki það með eignarrétt manna. Vegna þessara galla skili kapítalisminn Vesturlöndum ekki því sem hann gæti.
En eins og de Soto rekur í bók sinni eru þessir gallar á eignarréttindum á Vesturlöndum hjóm eitt í samanburði við það sem menn víða annars staðar í heiminum þurfa að þola. Menn geta til dæmis ímyndað sér hvernig það væri fyrir hinn almenna mann að kaupa eða stofna fyrirtæki ef hann gæti ekki veðsett húsnæði sitt vegna þess að hann gæti ekki sýnt fram á ótvíræða eign sína á því. De Soto og rannsóknarhópur hans hefur reynt að leggja mat á hversu mikil verðmæti liggja með þessum hætti dauð í þriðja heiminum og fyrrum kommúnistaríkjum. Það er mat hans að upphæðin sé nálægt heildarverðmæti allra fyrirtækja sem skráð eru á helstu verðbréfamörkuðum í tuttugu þróuðustu ríkjum heims. Og það er stórmerkilegt að þessi verðmæti eru níutíu og þrisvar sinnum meiri en öll þróunaraðstoð iðnríkjanna við þriðja heiminn undanfarna þrjá áratugi. Þegar þróunaraðstoð er sett í þetta samhengi sjá menn væntanlega að hún er nær einskis virði í samanburði við það ef tækist að styrkja eignarrétt í þriðja heiminum og vekja þar með dauða fjármagnið til lífsins.
Leiðtogar þriðja heimsins og kommúnistaríkjanna fyrrverandi þurfa ekki að flakka um utanríkisráðuneyti heimsins og alþjóðlegar stofnanir til að freista gæfunnar. Í þeirra eigin fátækustu hverfum eru – ef ekki demantaekrur – trilljónir bandaríkjadala, tilbúnar til notkunar ef við getum aðeins afhjúpað leyndardóm þess hvernig eignum er breytt í lifandi fjármagn. |
Leyndardómur fjármagnsins fæst nú í bóksölu Andríkis og kostar krónur 2.400 og er heimsending innifalin í verðinu.