Fimmtudagur 5. janúar 2006

5. tbl. 10. árg.
He took out his wide gunmetal cigarette-case and his black lighter and placed them on the green baize at his right elbow. The huissier wiped a thick glass ash-tray with a cloth and put it beside them. Bond lit a cigarette and leant back in his chair.
– Ian Fleming, Casino Royale, 10. kafli.

Á

Einn þessara þjóðarleiðtoga í síðari heimsstyrjöldinni var mjög andsnúinn reykingum. Verður bannað að birta myndir af hinum?

næstu vikum hefjast tökur nýrrar kvikmyndar um hinn fágaða njósnara, James Bond, og ævintýri hans. Eins og þeir vita, sem kynnt sér hafa framgöngu hans í áranna rás, er hann ekki aðeins dugandi maður í sínu starfi heldur kann að njóta lífsins að sínum hætti samhliða því að gæta ýtrustu hagsmuna breska heimsveldisins. Góður drykkur, fögur kona og vindlingur hafa ætíð verið meðal áhugamála Bonds ásamt útiveru og hreyfingu. En nú hefur verið frá því greint að í næstu kvikmynd af kappanum sé hann ekki aðeins orðinn bleikur heldur sé bleik svo brugðið að hann neiti sér um vindlingana sem hann hefur reykt í hálfa öld. Í þar næstu mynd mun hann sennilega hafa afsalað sér manndrápsleyfi sínu og vera í staðinn kominn með tímabundið leyfi til að leggja í stæði fatlaðra.

Það sem gerir þessar breytingar á lífsstíl njósnarans heldur leiðinlegar er að það er ekki svo að Ian Fleming hafi ákveðið að breyta skáldverki sínu. Það eru kvikmyndagerðarmennirnir sem eru að eltast við rétttrúnað nútímans. Nú mega þeir, Vefþjóðviljans vegna, auðvitað gera þær myndir sem þeim sýnist, en þessi undanlátssemi er afskaplega þreytandi, svo ekki sé meira sagt. Og hún á sér ekki aðeins stað í skáldverkum heldur einnig í raunveruleikanum. Þannig voru þrjú frönsk dagblöð sektuð í síðasta mánuði fyrir það afbrot að hafa birt mynd af keppendum í kappakstri án þess að eyða út af myndinni þeim tóbaksauglýsingum sem ökumennirnir hafa á búningum sínum. Þangað er nútíminn kominn. Í raunveruleikanum eru blöð sektuð fyrir að falsa ekki myndir af Schumacher. Í kvikmyndum er 007 hættur að reykja.

Auðvitað mega menn hafa sínar skoðanir á reykingum og ekkert að því að þeir hvetji aðra til þess að reykja ekki. En sögupersónan James Bond reykir. Rétt eins og hann drepur Rússa og glímir við menn sem halda upp á hvíta ketti. Og þegar Bond er hættur að reykja og borða feitt kjöt, hvað gerist þá næst? Hversu lengi heldur Sherlock Holmes pípunni sinni? Verða bresk blöð sektuð ef þau birta mynd af Winston Churchill án þess að eyða vindlinum út?