Miðvikudagur 4. janúar 2006

4. tbl. 10. árg.

Þess hefur orðið vart að borgarbúar séu farnir að missa þráðinn í hræringum innan R-listans í borgarstjórn og einhverjir hafa haft á orði að þeir botni ekkert lengur í því hverjir sitji í þessum hópi og fyrir hverja. Þetta er þó í raun sáraeinfalt eins og sjá má þegar haft er í huga að Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna í R-listanum hefur sagt sig úr Vinstri grænum og hyggst bjóða sig fram til setu á lista Samfylkingarinnar, en sem fulltrúi „óháðra“. „Óháðir” samfylkingarmenn hafa því öðlast einn fulltrúa aukalega í borgarstjórn Reykjavíkur og Vinstri grænir hafa misst fulltrúa. „Óháðir“ R-listamenn höfðu áður misst fulltrúa í borgarstjórn við að Dagur Eggertsson gekk í Samfylkinguna og sagði þannig skilið við óháða. Háðir R-listamenn í Samfylkingunni hafa þannig unnið einn borgarfulltrúa, óháðir Samfylkingarmenn í R-listanum hafa líka unnið einn en háðir Vinstri grænir hafa tapað einum. Háðir og óháðir samfylkingarmenn í borgarstjórn eru þannig orðnir samtals 5 en við upphaf kjörtímabilsins voru háðir samfylkingarmenn í borgarstjórn aðeins þrír og í borgarstjórn sat enginn óháður samfylkingarmaður. Þar sat hins vegar óháður borgarfulltrúi, en nú er hann háður og eini óháði borgarfulltrúinn nú er óháði samfylkingarmaðurinn Björk sem vill í framboð fyrir Samfylkinguna og verður við það óháð þeim flokki, að ógleymdum Ólafi F. Magnússyni óháðum borgarfulltrúa Frjálslynda flokksins. Fyrir utan þessa 5 háðu og óháðu samfylkingarmenn eiga nú sæti í borgarstjórn þrír aðrir borgarfulltrúar af R-listanum. Þetta eru tveir háðir Framsóknarmenn og einn háður Vinstri grænn. Þannig skipa nú meirihluta R-listans í borgarstjórn 7 háðir borgarfulltrúar og einn óháður samfylkingarmaður, en við upphaf kjörtímabilsins áttu þar sæti 7 háðir borgarfulltrúar og einn óháður maður – þó ekki óháður samfylkingarmaður -, þannig að breytingin er minni en margan gæti grunað af fréttum síðustu vikna. Frá öðrum sjónarhóli má segja að í hópi borgarfulltrúa R-listans séu nú 4 samfylkingarmenn en voru 3 við upphaf kjörtímabilsins, 2 framsóknarmenn, sem er óbreytt staða, einn vinstri grænn, sem er 50% fækkun frá kosningum, og einn óháður samfylkingarmaður, sem verður að teljast fjölgun þar sem sá sem var óháður áður var ekki óháður Samfylkingunni, eins og sést best af því að hann er nú genginn í þann flokk.

Talandi um borgarstjórnarflokk R-listans og óháðra samfylkingarmanna þá má nefna að nú er hafinn fyrir alvöru slagurinn um sæti á lista Framsóknarflokksins og á lista Samfylkingarinnar og óháðra samfylkingarmanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Einn af 15 öflugustu borgarfulltrúum landsins hefur þegar birt heilsíðuauglýsingar í dagblöðum og fer fram undir slagorðinu „þekkist af verkunum“, en vandinn er reyndar sá að verkin þekkjast ekki. En það er ekki aðeins Anna Kristinsdóttir sem er sátt við eigin frammistöðu, Stefán Jón Hafstein er einnig frekar sáttur við sig. Hann „sigraði glæsilega“ að eigin sögn í prófkjöri fyrir fjórum árum og býður sig nú allan fram með fráhneppt niður á nafla í heilsíðuauglýsingu. Hann er staðráðinn í því að láta málefnin ráða.