Mánudagur 2. janúar 2006

2. tbl. 10. árg.
Ég hef því ákveðið, nú á 75 ára afmæli þjóðgarðsins, að efnt skuli til hugmyndasamkeppni á árinu 2006 um framtíð nánasta umhverfis Valhallar. Þar eigum við öll að eiga okkur athvarf. Mikilvægt er að lögin frá 1930 verði í heiðri höfð en þar segir að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga.
– Halldór Ásgrímsson í ávarpi til þjóðarinnar, 31. desember 2005.

Já það er mikilvægt að lögin frá 1930 verði í heiðri höfð. Ekki síður var mikilvægt að lög nr. 59/1928 um friðun Þingvalla væru haldin í heiðri, en þau giltu þar til þau voru afnumin með lögum nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þess vegna vill Vefþjóðviljinn taka undir og gera að sinni ósk Halldórs Ásgrímssonar um að lögin frá 1930 verði í heiðri höfð. Hvaða lög sem það eru. Lögin við alþingishátíðarljóðin kannski.

Þ

Svokallaður varaformaður Samfylkingarinnar taldi lækkun á tekjuskatti einstaklinga ekki mikilvægt mál í viðtali við Fréttablaðið í ágúst 2005.

eir sem fá laun sín greidd fyrirfram hafa nú frá áramótum tekið að njóta ákvörðunar stjórnvalda um lækkun tekjuskatts. Ekki þarf að taka fram að það er ekki pólitísk samstaða um lækkun skatta, en stjórnarandstaðan er mjög ófús til slíkra aðgerða, hvenær sem á reynir. Þó vissulega sé margt ógert í skattalækkunarmálum þá er engin ástæða til að vanþakka það sem þó hefur verið gert á alþingi undanfarin misseri um leið og þingmenn skulu hér hvattir til að halda áfram á þeirri braut að leyfa borgurunum að halda meira af sjálfsaflafé sínu. Allar skattalækkanir – og hækkanir ef í það fer – eru áminning um að það er ekki sama hverjir eru við völd. Það er mikilvægt að halda áfram baráttunni fyrir skattalækkunum og gegn aukningu opinberra útgjalda. Þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir undanfarin ár eru áminning um að slík barátta getur skilað árangri. Þær skattahækkanir sem sveitarstjórnir, til dæmis í Reykjavík og síðast Kópavogi, hafa staðið fyrir, eru áminning um að frjálslyndir menn verða að herða róðurinn.

Eitt af því sem grónir fjölmiðlar geta haft yfir þá yngri, eru hefðir og venjur og þá ekki síst á stórhátíðum. Flestar eru þær meinlausar, gleðja svolítið þá sem taka eftir þeim en gera hinum ekki neitt. Þannig hefur árum saman mátt treysta því að eftir áramótaguðsþjónustuna á gamlárskvöld þá bjóði Ríkisútvarpið upp á sömu tónlistina. Einsöngvarakvartettinn hefur til dæmis sungið gömul og góð lög, ákaflega viðeigandi á þessum árstíma, og minnt á að ljósið kemur langt og mjótt þar sem Krummi svaf í klettagjá á meðan máninn hátt á himni skín og svo framvegis. Einkar viðeigandi áramótadagskrá. En um þessi áramót var einsöngvarakvartettinn hvergi að heyra en í staðinn voru Þrjú á palli tekin að syngja Jónas Árnason. Textar Jónasar auðvitað skemmtilegir en áramótalegt var þetta ekki. Af hverju þurfti nú að breyta þessu?