Helgarsprokið 18. desember 2005

352. tbl. 9. árg.

Aðfaranótt laugardags náðu leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) loks samkomulagi um fjárlög sambandsins fyrir tímabilið 2007 til 2013. Samningaviðræðurnar hafa verið langar og strangar og á stundum hafa þær strandað. Svo illa hefur gengið, að leiða má að því líkur að flestar ríkisstjórnir aðildarríkjanna, sem lentu í svona vandræðum með að klambra saman fjárlagafrumvarpi, þyrftu að segja af sér. Því er hins vegar ekki fyrir að fara í ESB, enda erfitt að henda reiður á hver eða hverjir ættu að segja af sér. Framkvæmdastjórnin? Ráðherrar aðildarríkjanna? Nei, að vanda er erfitt að finna þann sem ábyrgðina ber í ESB.

Það kemur auðvitað fáum á óvart að erfiðlega hafi gengið að berja saman fjárlög en ríkin reyna eftir fremsta megni að gæta hagsmuna sinna enda ekki um neina smáhagsmuni að ræða. Fjárlögin, sem samþykkt voru, hljóða upp á 862,4 milljarða evra eða 64.000  milljarða íslenskra króna. Ríkjunum er því mikið í mun að koma baráttumálum sínum í gegn. Í samningaviðræðum sem þessum koma líka ólík viðhorf ríkjanna til hlutverks hins opinbera í ljós. Frakkar vilja viðhalda gífurlega umfangsmiklu styrkjakerfi í landbúnaði, Danir vilja aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar en ýmsir vilja skera niður í fjárlögunum.

„Borgarar aðildarríkjanna hafa því sáralitla möguleika á að beita lýðræðislegum aðferðum til að refsa eða umbuna ESB-yfirvaldinu fyrir slæm eða góð fjárlög. Þó að mikill meirihluti borgara aðildarríkja ESB væri hundóánægður með fjárlög, sem samþykkt væru, væri nánast ómögulegt að draga menn til lýðræðislegrar ábyrgðar fyrir það sem borgararnir teldu að miður hefði farið.“

Það hefur því gengið á ýmsu. Hótanir um að neita alfarið að samþykkja fjárlagafrumvarpið hafa flogið milli landanna og hrossakaupin verið mikil. En þrátt fyrir að um stjarnfræðilegar fjárhæðir, og þar með hagsmuni, sé að ræða, hefur verið erfitt fyrir hinn almenna borgara að fylgjast með og skilja viðræðurnar sem í gangi hafa verið. Og enn síður hafa borgararnir almennt skilning á því hvaða þýðingu viðræður ráðherraráðs ESB hafa í heildarmyndinni. Það er ekki vegna þess að borgurum aðildarríkja sambandsins sé almennt nokkuð ábótavant, heldur hitt að kerfið er ekki í lagi. Það er flókið, ógegnsætt, ólýðræðislegt, fjarri borgurum ríkjanna og ólíkt því sem flestir þeirra eiga eða vilja venjast.

Framkvæmdastjórn ESB leggur fram tillögu að fjárlögum sem ná yfir sjö ár. Tillögurnar eru síðan teknar til meðferðar og umræðna í ráðherraráði ESB. Þar fara eiginlegar samningaviðræður milli landanna fram. Nái ráðherraráðið samkomulagi, eins og tókst með herkjum nú, eru þau lögð fyrir Evrópuþingið til samþykktar eða synjunar. Borgarar aðildarríkjanna hafa því sáralitla möguleika á að beita lýðræðislegum aðferðum til að refsa eða umbuna ESB-yfirvaldinu fyrir slæm eða góð fjárlög. Þó að mikill meirihluti borgara aðildarríkja ESB væri hundóánægður með fjárlög, sem samþykkt væru, væri nánast ómögulegt að draga menn til lýðræðislegrar ábyrgðar fyrir það sem borgararnir teldu að miður hefði farið. Allir reyna ráðherrarnir, á yfirborðinu að minnsta kosti, að berjast fyrir hagsmunum ríkja sinna og geta hampað því og kennt öllum hinum um það sem heimamönnum sýnist miður fara. Málamiðlunin hafi verið nauðsynleg enda samstarfið ella í hættu.

Nú hafa menn með alls kyns hrossakaupum og málamiðlunum náð samkomulagi um fjárlög sem í framhaldinu koma til kasta Evrópuþingsins. Ólíklegt er að það muni malda í móinn því að ekki vilja þeir sem þar sitja eiga á hættu að verða sakaðir um að stefna ESB-samstarfinu í hættu. Búast má við að það samþykki fjárlögin.

Að því gefnu að þingið samþykki frumvarpið, má þá ekki bara segja að þetta sé hið besta mál, náðst hafi samkomulag í ESB um fjárlög þess og eins og gerist og gangi í alþjóðasamtökum, þá hafi þurft málamiðlanir til?

Það sem flækir hlutina varðandi ESB er að á mörgum sviðum er það yfirþjóðlegt. Margt af því sem þar er ákveðið, ber aðildarríkjunum að gera að sínum lögum og reglum. Það er því langt í frá að um hefðbundið alþjóðasamstarf sé að ræða. Á sumum sviðum væri nær að tala um sambandsríki. Auk þess er fjárlagaramminn til langs tíma eða frá 2007 til 2013. Jafnframt er um stjarnfræðilegar upphæðir að ræða, eða 64.000.000.000.000  íslenskra króna. Borgararnir hafa ekkert um það að segja hvert þessir fjármunir renna eða geta gert við það athugasemdir, þó þeim hugnist það illa. Hversu margir ætli gleðjist yfir því að 40% af fjárlögunum rennur til landbúnaðar og fiskveiða? Eða að 30% renni í millifærsluþróunarsjóði sambandsins sem samkvæmt skilgreiningum sjóðanna úthluta til fátækustu svæða sambandsins? Stór hluti rennur síðan til rannsókna, embættismannakerfis ESB, þróunaraðstoðar og fleira. Það er kannski aukaatriði, en aðalatriðið er vitanlega, að borgararnir – já þeir sem borga brúsann- hafa nánast enga möguleika á að hafa áhrif á það hvert peningarnir renna.

Það sem gerir þetta enn verra er, að vegna hins flókna og ógegnsæja kerfis og uppbyggingar ESB á hinn venjulegi borgari ákaflega erfitt með að öðlast innsýn í það sem þar gerist. Og ekki bæta gífurleg völd ESB ástandið og það að ákvarðanir sem þar eru teknar snerta daglegt líf allra borgara sambandsins.

Verst er þó, og algerlega gagnstætt þeim lýðræðishefðum sem aðildarríkin eiga að venjast eða vilja venjast, að það er nánast ómögulegt að draga stjórnmálamennina sem ákvarðanirnar taka til ábyrgðar.