Laugardagur 17. desember 2005

351. tbl. 9. árg.

Því er stundum haldið fram að átakalínur í stjórnmálum í dag séu óskýrar og allir séu í raun orðnir sammála um öll helstu meginmál, útfærslan ein sé eftir. Þetta er vitaskuld mikil firra, en fátítt er að ólík afstaða til grundvallaratriða í stjórnmálum sjáist jafn skýrt og í miðopnu Morgunblaðsins í gær þar sem verið var að fjalla um ráðherrafund Heimsviðskiptastofnunarinnar, WTO, þar sem reynt er að semja um aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Geir H. Haarde utanríkisráðherra, sem staddur er á ráðherrafundinum, að viðskiptafrelsi sé mjög mikilvægt mál, „ekki síst fyrir þjóðir eins og okkur Íslendinga, sem eigum allt undir utanríkisviðskiptum.“ Geir sagði ennfremur: „Ég er sjálfur mikill fríverslunarmaður og tel að það sé gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla heimsbyggðina að þessum viðræðum ljúki með niðurstöðu sem byggist á meira frelsi í viðskiptum. Samkvæmt útreikningum Alþjóðabankans hanga á spýtunni hagsmunir sem nema hundruðum milljarða dollara í auknum tekjum, ekki síst fyrir fátækari lönd heimsins. Náist skynsamleg niðurstaða í þessum viðræðum, þá getur hún lyft hundruðum milljóna manna úr sárri fátækt til bjargálna.“

Þetta sjónarmið Geirs, sem sennilega er óþarfi að taka fram að Vefþjóðviljinn er sammála, á sér harða andstæðinga. Andstæðingarnir eru líklega færri hér á landi en stuðningsmennirnir, en þeir mælast þó með talsvert fylgi í kosningum og skoðanakönnunum. Einn fulltrúi andstæðra sjónarmiða er Ögmundur Jónasson alþingismaður og formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem krefst þess að viðræður WTO um aukna fríverslun verði stöðvaðar. Mörgum þykir sjálfsagt að viðhorf Ögmundar séu hlægilegt afturhald, en þau eru engu að síður til marks um það að átakalínurnar í stjórnmálunum eru enn afar skýrar. Vinstri menn berjast enn gegn frjálsri verslun þótt þeir þori sjaldnast að segja það berum orðum.

ÍFréttablaðinu, systurblaði DV,  í vikunni var sagt frá því þegar ritstjórar DV fengu á sig dóm fyrir að DV hefði farið rangt með ákveðin atriði í umfjöllum um Ástþór Magnússon fyrrverandi forsetaframbjóðanda. Svo óheppilega vildi til að fréttin í Fréttablaðinu snerist ekki um það að DV hefði verið dæmt, því að þess var ekki getið í fyrirsögn fréttarinnar. Í fyrirsögn Fréttablaðsins sagði hins vegar „90 prósent skrifa DV standa“, svona rétt eins og það sé fréttnæmt að stærstur hluti þess sem stendur í dagblaði sé ekki ósannindi en fréttin sé ekki sú að blaðið hafi verið dæmt fyrir meiðyrði. Það er eins og Fréttablaðinu þyki það stórsigur útgáfufélag blaðanna ef DV ef nær að segja rétt frá í 9 af hverjum 10 setningum.