Mánudagur 7. nóvember 2005

311. tbl. 9. árg.

Staða kvenna er víst voðalega veik í þriðja sæti á væntanlegum framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Staða karla er að vísu mjög þröng í öðru sæti listans, en það skiptir ekki eins miklu máli. Staða ljóðsins er hins vegar óbreytt. Í henni situr enn Sigurður Pálsson.

Í allt gærkvöld sagði RíkisútvarpiðSvandís Svavarsdóttir, væntanlegur frambjóðandi Vinstrigrænna, hefði vakið athygli á slæmri stöðu kvenna „í efstu fimm“ sætum væntanlegs lista Sjálfstæðisflokksins eftir prófkjör hans um helgina – svona eins og einhver skynsamleg ástæða gæti verið fyrir því að telja sérstaklega fimm efstu sætin. Nú er Vefþjóðviljinn auðvitað andvígur því að menn skipti frambjóðendum eftir kynferði og skilur ekki að kynjahlutföll skipti máli svo lengi sem kosningar og framboð eru frjáls. En jafnvel þeir sem leggja mikið upp úr slíkum hlutum ættu að geta andað rólega, þrátt fyrir áhyggjur Svandísar og Ríkisútvarpsins. Ef miðað er við skoðanakannanir undanfarið ár, þá má gera ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn fái annað hvort sjö eða átta borgarfulltrúa kjörna næsta vor, og kynjahlutföll þeirra sem þá næðu kjöri fyrir flokkinn gætu ekki orðið jafnari. Fjórir karlar og þrjár konur ef borgarfulltrúarnir verða sjö. Fjórir karlar og fjórar konur ef þeir verða átta.

Meira af forystumönnum vinstriflokkanna og viðbrögðum þeirra í fjölmiðlum. Í gærkvöldi var talað við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í fréttum Ríkissjónvarpsins og taldi hún að prófkjör Sjálfstæðisflokksins myndi styrkja flokkinn tímabundið, enda væru „engin önnur framboð komin fram“. Engin nei, einmitt það. Hélt Vinstrihreyfingin-grænt framboð ekki prófkjör á dögunum og var Svandís Svavarsdóttir þar ekki kosin í fyrsta sætið og Árni Þór Sigurðsson í annað? Nú var prófkjör vinstrigrænna auðvitað töluvert umfangsminna en prófkjör Sjálfstæðisflokksins, en þetta var engu að síður fullgilt prófkjör viðurkennds stjórnmálaflokks, flokks sem átti meira að segja aðild að R-listanum síðast þegar fréttist. Af hverju telur Steinunn Valdís vinstrigræna ekki með?

SSjálfstæðisflokkurinn hélt síðast prófkjör vegna borgarstjórnarkosninga fyrir átta árum. Eftir prófkjörið, hinn 28. október 1997, skrifaði Vefþjóðviljinn svo:

Eins og við mátti búast bættust nokkur hundruð nýir félagar við félagatal Sjálfstæðisflokksins í prófkjörinu um helgina. Alltaf er eitthvað um óvæntan liðsauka. Að þessu sinni vakti nýskráning Hrafns Jökulssonar, varaþingmanns af Suðurlandi, mesta athygli. En Hrafn sagði sig úr Alþýðuflokknum fyrr á þessu ári.

Það er svo nokkuð skemmtilegt að nú, átta árum síðar, var það nýskráning Illuga Jökulssonar, bróður Hrafns, sem mesta athygli vakti. Hljóta pólitísk sinnaskipti Illuga að vekja nokkra athygli, enda þarf ekki að efast um að það hljóta að vera breyttar skoðanir sem ráða ferð hans enda Illugi annálaður prinsippmaður sem ekki sækir um inngöngu né reynir að hafa áhrif á frambjóðendaval annarra flokka en hann styður.

Og fyrst talað er um inngöngu í stjórnmálaflokk, þá má láta í ljós þá skoðun að það sé ekkert óeðlilegt við það að fólk gangi til liðs við og styðji þann stjórnmálaflokk sem næstur því stendur. Sá sem gengur til liðs við stjórnmálaflokk er ekki með því búinn að leggja af eigin hugsun, heldur hefur einfaldlega ákveðið að styðja þann flokk sem næstur er skoðunum hans, og fær þá um leið möguleika á að hafa áhrif á bæði stefnu flokksins og það hverjir eru boðnir fram í nafni hans. Félagsmaður í stjórnmálaflokki þarf ekki að vera sammála flokksfélögum sínum um hvert smáatriði eða um útfærslu og forgangsröðun allra baráttumála. Fólk skipar sér í stjórnmálaflokk eftir megin lífsskoðunum og freistar þess að hafa í sameiningu jákvæð áhrif á framgang þeirra skoðana. Það er hreint ekki óeðlilegt að styðja einn stjórnmálaflokk öðrum fremur og engin dyggð í því fólgin að standa utan allra flokka. En menn hljóta hins vegar að láta sér einn flokk nægja á hverjum tíma og fæstir munu telja réttlætanlegt að fara á milli flokka og reyna að hafa áhrif á stefnu og framboð margra í senn. En svo eru alltaf tilfelli eins og Jón Bjarnason. Hann fór í prófkjör Samfylkingarinnar vegna alþingiskosninganna 1999, náði ekki vænlegu sæti en fór þá á lista vinstrigrænna við sömu kosningar og hefur setið á þingi síðan þá. En vinstrigrænir eru nú svo stefnufastir eins og menn vita.