Helgarsprokið 6. nóvember 2005

310. tbl. 9. árg.

F yrir réttum þrjátíu og fimm árum skrifaði Milton Friedman grein í New York Times Magazine sem bar yfirskriftina: Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er að hámarka hagnað sinn. Friedman hélt því fram í greininni að allar hugmyndir sem fælu í sér að fyrirtæki kepptu ekki aðeins að hagnaði heldur líka að samfélagslegum markmiðum væru andstæðar tilgangi frjáls markaðar svo og þær hugmyndir sem lúta að því að fyrirtækjum beri skylda til að halda uppi atvinnu, útrýma mismunun og forðast mengun svo eitthvað sé nefnt. Að áliti Friedmans báru fyrirtæki aðeins eina samfélagslega ábyrgð og hún væri sú að nota efnivið sinn, tæki og tól til þátttöku í verkefnum sem væru til þess fallin að auka hagnað þeirra og brytu ekki í bága við leikreglurnar. Með öðrum orðum, að taka þátt í frjálsri og opinni samkeppni án blekkinga eða svika. Lengra næði tilgangur og hlutverk fyrirtækja ekki.

„Eignaréttur og frjáls markaður er einfaldlega siðmenntað meðal til þess að gera fólki kleift að starfa saman án þvingunar…“

Þetta kann að hljóma sérkennilega í eyrum einhverra í dag og margir kynnu að ætla að Friedman gæti ekki verið þessarar skoðunar lengur. Það getur náttúrlega enginn verið fylgjandi mengun, fjöldauppsögnum eða barnaþrælkun, að minnsta kosti ekki lengur, er það? En Friedman, sem seinna vann til Nóbelsverðlauna og tók við stöðu prófessors við Chicago háskóla hefur ekki skipt um skoðun. Hann stendur enn við hvert orð sem hann skrifaði í greininni í New York Times fyrir þrjátíu og fimm árum. Og það út af fyrir sig er kannski merkilegt að fræðimaður í félags- og hagvísindum standi að fullu við eitthvað sem hann skrifaði fyrir þrjátíu og fimm árum en það er nú önnur saga.

Það er réttara að taka það fram áður en lengra er haldið að Friedman er hreint ekki fylgjandi mengun, fjöldauppsögnum né barnaþrælkun, hvorki fyrir þrjátíu og fimm árum síðan né heldur í dag. Friedman deilir þeirri skoðun með Adam Smith að hver og einn uppfylli þá best þarfir annarra þegar hann er hvað önnum kafnastur við að uppfylla sínar eigin þarfir og jafnvel miklu betur en þegar hann leggur sérstaklega lykkju á leið sína til að verða öðrum til aðstoðar. Með þessu er auðvitað ekki sagt að mennirnir eigi ekki að hjálpast að heldur hitt að sú iðja að hjálpa sér sjálfur hjálpar oft öðrum ekki síður en manni sjálfum. Maður þarf nefnilega annarra hjálp til að hjálpa sér sjálfur og þessir aðrir hjálpa sér einmitt sjálfir með því að veita manni þessa hjálp. Svona getur þetta gengið koll af kolli, jafnvel þótt þessir aðrir viti varla af manni sjálfum né maður sjálfur af þeim.

Í Bandaríkjunum eru lög sem gera fyrirtækjum kleift að lækka skattgreiðslur sínar með því að leggja fram fé til líknar- og góðgerðarmála hverskonar. Margir eru þeirrar skoðunar að svona lög eigi að taka upp hér á landi, þessi lög séu til þess fallin að ýta undir samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, rétt eins og fyrirtæki séu einhverskonar fatlaðar siðferðisverur sem þurfi sérstakar skattaívilnanir til að vera góð. En fyrirtæki eru bara alls engar verur, hvorki siðferðis- né geimverur. Þau eru bara eins og liggur í orðsins hljóðan: tæki, fyrir-tæki. Það er því vonlaust að ætlast til að þau séu góð eða vond eða bara eitthvað annað en tæki. Þessi tæki eru sett saman til þess að búa til peninga fyrir eigendur sína og eigendurnir þeir eru á endanum menn og menn geta verið góðir eða vondir. Og menn geta alveg verið góðir eða vondir burtséð frá skattaívilnunum en það er svo aftur önnur saga að margir gætu gert fleiri góðverk ef skattar væru lægri.

Það sem Friedman átti við með því að eina samfélagslega ábyrgð fyrirtækja væri sú að hámarka hagnað sinn útskýrir hann með því að frá sjónarhóli fyrirtækisins sé það tilgangurinn en frá sjónarhóli samfélagsins meðalið. Eignaréttur og frjáls markaður er einfaldlega siðmenntað meðal til þess að gera fólki kleift að starfa saman án þvingunar og það gerir það að verkum að dreifð þekking nýtist til að öll aðföng séu notuð til að búa til sem mest verðmæti með sem hagkvæmustum hætti. En Friedman viðurkennir að auðvitað sé þetta ekki alveg svona, heimurinn er ekki fullkominn jafnvel ekki þar sem markaðsbúskapur er stundaður. Það eru allskyns undantekningar, margar ef ekki flestar vegna íhlutunar stjórnvalda. En þrátt fyrir alla sína galla þá er það fyrirkomulag eignaréttar og frjáls markaðar sem við þekkjum miklu betra að mati Friedmans en ef stórum hluta auðæfanna væri dreift af góðgerðarsamtökum og stjórnum fyrirtækja.