Snjólfur Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands ritaði áhugaverðar greinar í Morgunblaðið í síðustu viku. Í greinunum reyndi hann að varpa ljósi á það sem kallað er kynbundinn launamunur. Í grein sinni 26. október sagði Snjólfur meðal annars:
Það þarf hvorki að vera vont né óeðlilegt að það sé alls kyns munur á konum og körlum, þegar hópur einstaklinga er skoðaður. Þegar laun kvenna og karla eru borin saman og í ljós kemur að karlarnir hafa hærri laun, þá getur það verið í hæsta máta eðlilegt. Í einhverjum tilvikum er það vísbending um að eitthvað sé öðruvísi en það ætti að vera og þá er rétt að greina vandann, finna rót hans og uppræta þá rót. |
Ef tekjur allra Íslendinga eru skoðaðar þá kemur í ljós að karlar hafa mun hærri laun en konur. Á því eru margar augljósar skýringar. Helsta skýringin er að karlar vinna almennt meira en konur ( í launaðri vinnu), bæði eru mun fleiri karlar en konur í fullri vinnu og karlar í fullri vinnu vinna að meðaltali lengur en konur í fullri vinnu. |
Aðstandendur kvennafrídagsins svonefnda skoruðu á konur að fara enn fyrr úr vinnu 24. október síðastliðinn en venjulega. En það hve konur fara að meðaltali snemma úr vinnu er, eins og Snjólfur nefndi, einmitt ein helsta skýringin á því að þær hafi lægri laun en karlar.
Nær hefði verið að senda karla fyrr heim til að varpa ljósi á launamun kynjanna. |
Forsendurnar fyrir hinum svonefnda kvennafrídegi voru því alveg á hvolfi. Nær hefði verið að senda karlana fyrr heim þennan dag með tilheyrandi launalækkun. Eða þá að konurnar hefðu verið lengur í vinnu og hefðu þannig nælt sér í þann dagvinnutíma og yfirvinnutíma sem þarf til að ná svipuðum tekjum og karlar.
En vinnutíminn einn nægir raunar ekki til að skýra allan þann mun sem er á launum karla og kvenna. Fleiri þættir eins og mannforráð, ábyrgð, menntun, starfsreynsla og starfsaldur eiga hlut að máli. Þegar reynt hefur verið að taka tillit til þessara þátta, sem suma hverja er mjög erfitt að vega og meta, stendur jafnan eftir svonefndur „óútskýrður launamunur“. Einn helsti sérfræðingur landsins í þessum málum hefur raunar haldið því fram að þessi munur sem eftir stendur sé ekki marktækur og hann treysti sér ekki til að fullyrða að nokkur launamunur sé hér á landi. Kannski væri ráð fyrir fjölmiðla að tala við mann á borð við þennan ágæta tölfræðing og fyrrverandi starfsmann Kjararannsóknanefndar í stað þess að treysta eingöngu túlkunum starfsmanna jafnréttisiðnaðarins á misvönduðum kjarakönnunum. Meintur kynbundin launamunur er helsta réttlæting fyrir því að hér starfa jafnréttráð, jafnréttisstofa, jafnréttisnefndir, jafnréttisfulltrúar og jafnréttissjóður á kostnað skattgreiðenda og því er freistandi fyrir starfsmenn þessa kerfis að gera sem mest úr honum.
Um þennan „óútskýrða launamun“ sagði Snjólfur Ólafsson hins vegar í grein sinni:
Þá getur verið freistandi að draga þá ályktun að konunum í hópnum séu greidd lægri laun er körlunum vegna þess að þær eru konur. Sú ályktun getur verið hæpin. Ég hef sterkan grun um að í einkageiranum megi í mörgum tilfellum skýra þennan óútskýrða launamun kynjanna með tveimur þáttum, en almennt liggja ekki fyrir upplýsingar um þessa þætti. Fyrri þátturinn er heildartími sem viðkomandi hefur fengið í undirbúning fyrir viðkomandi starf, með vinnu við svipuð störf eða á anna hátt. Seinni þátturinn er hve vinnan er framarlega í forgangsröðuninni þegar eitthvað annað en vinnan kallar á tíma starfsmannsins, einkum þörf ættingja fyrir að viðkomandi sinni honum á einn eða annan hátt. |
Hér er líklega komið að kjarna málsins. Margir launþegar láta fjölskylduna og heimilið ganga fyrir vinnu og starfsframa. Það er þeirra val. Þessir launþegar sætta sig þar með við tekjutap á vinnumarkaði en telja sig fá það ríkulega launað í samvistum með fjölskyldunni. Konur gera þetta í ríkari mæli en karlar. Það er auðvitað einkamál hverrar fjölskyldu hvernig hún skipar þessum málum enda gera menn þetta á mjög ólíkan hátt, allt frá því að konan sé alveg heima yfir í að karlinn sé alveg heima. Meðaltalið af því hvernig konur og karlar skipta þessari ábyrgð kann að trufla einhverja femíníska þjóðfélagsverkfræðinga sem vilja að allir hagi sér á ákveðinn hátt og telja að mæla megi lífshamingjuna í krónum og aurum með misvönduðum kjarakönnunum. Það eru réttnefnd femí-nísk sjónarmið.