Þriðjudagur 1. nóvember 2005

305. tbl. 9. árg.
Við vorum að taka ákvörðun um það, ég veit ekki hve endanleg hún er, að reisa hérna tónlistarhús og það sameinast allir um að setja þar í tugi milljarða og þetta fer í gegn nánast umræðulaust. Ef að Reykvíkingar þurfa að bíða lengur en 20 sekúndur á rauðu ljósi er rokið til og byggð mislæg gatnamót. En síðan látum við það gerast að fólk er látið búa við skilyrði sem eru ekki í samræmi við grunnmannréttindi og að sjálfsögðu á að grípa þegar í stað til aðgerða til að bæta úr þessu.
– Ögmundur Jónasson alþingismaður í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi.

Ö

Vinstri grænir í borgarstjórn taka opinberar glæsihallir fram yfir „grunnmannréttindi“. Nú ætla þeir að yfirtrompa íburðinn og prjálið í Orkuveituhúsinu með tónlistarhúsi.

gmundur Jónasson alþingismaður vinstri  grænna vakti máls á því í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að á sama tíma og ýmis velferðarmál væru látin reka á reiðanum væri verið að ráðast í byggingu tónlistarhúss fyrir tugi milljarða króna.

Umræðan spratt af því að starfsmenn Kastljóssins hafa verið iðnir við það síðustu daga að sýna áhorfendum dæmi um það sem betur mætti fara í velferðarmálum og að aðstoð við þá sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda sé víða af skornum skammti. Mikil þrengsli og mannekla eru til að mynda á hjúkrunarheimili í eigu ríkisins.

Það sem vekur furðu Vefþjóðviljans er að borgarfulltrúar vinstri grænna skuli ekki hafa sett hnefann í borðið og krafist þess að áður en milljörðum verður veitt úr ríkissjóði og borgarsjóði í íburðarmikið tónlistarhús skuli komið á móts við „grunnmannréttindi“ fólks eins og Ögmundur kallar það. Ögmundur sjálfur lagði það beinlínis til í Kastljósinu að verkefni eins og tónlistarhúsið ættu einfaldlega að bíða þar til úr rættist í velferðarmálum.

Borgarstjórn Reykjavíkur er einn af höfuðpörunum í tónlistarhússmálinu. Hvers vegna hafa Árni Þór Sigurðsson, Björk Vilhelmsdóttir og Katrín Jakobsdóttir fulltrúar vinstri grænna í borgarstjórn á þessu kjörtímabili ekki tekið þessari áskorun þingmannsins og stöðvað þá menn sem ætla sér að reisa mjög dýrt tónlistarhús á dýrasta stað á landinu á kostnað skattgreiðenda? Þykir þeim ekki nóg að hafa hús Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi á afrekaskrá sinni? Eru fleiri glæsihallir ofar á óskalista vinstri grænna en „grunnmannréttindi“?

Er það bara í Kastljósinu sem vinstri grænir eru með „grunnmannréttindi“ á hraðbergi?