Leigubifreiðaakstur er þjónustugrein sem telst til almenningssamgangna og felst í að fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra. Farangur skal alla jafnan flytja í farangursgeymslu bifreiðar. Eigi er heimilt að flytja farangur án farþega nema um sé að ræða flutning bréfa, skjala, blóma eða neyðarsendinga fyrir sjúkrahús. Rísi ágreiningur um þessi mörk sker Vegagerðin úr. |
– Úr reglugerð fyrir leigubifreiðar, nr. 397/2003. |
Nú er komin upp deila á milli tiltekins rútufyrirtækis og Vegagerðarinnar vegna þess að Vegagerðin samdi við annað rútufyrirtæki um sérleyfi til að aka með farþega á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur, að því er sagði í fréttum í gær. Sennilega vita menn ekki hvort þeir eiga að hlæja eða gráta við svona tíðindi en líklega er best að gera sitt lítið af hvoru. Það er auðvitað hlægilega vitlaust að ríkið skuli semja um sérleyfi við tiltekið rútufyrirtæki til að keyra með farþega á milli staða, en það er líka grátlega vitlaust að ríkið skuli banna sumum að aka tiltekna leið með farþega þótt allir aðilar máls, farþegar, ökumenn og eigendur bílanna, vilji ólmir semja um aksturinn.
Annað af sama toga sem einnig er grátlega vitlaust er fyrirkomulag leyfisveitinga vegna leigubifreiðaakstur, en hér að ofan er einmitt vitnað í 1. grein reglugerðar um leigubifreiðar. Sem sjá má er þar meðal annars tíundað að farangur skuli „alla jafnan flytja í farangursgeymslu bifreiðar“, en væntanlega ekki í vélarrúmi hennar, og að ekki sé heimilt að flytja farangur án farþega nema farangurinn sé bréf, skjöl, blóm eða neyðarsendingar fyrir sjúkrahús. Ef farangurinn er disklingur má ekki flytja hann með leigubifreið án farþega, nema ef til vill ef hann er í umslagi eða á honum eru skjöl. Eða hvað? Og hvað með neyðarsendingar fyrir aðra en sjúkrahús, til að mynda hausverkjatöflur á sunnudagsmorgni til að takast á við gleði laugardagskvöldsins, eru slíkar sendingar óheimilar? En neyðarsendingar með matvæli ef hungrið sverfur að og menn eiga ekki heimangengt? Um þetta er ekki gott að segja, en rísi ágreiningur um þessi mörk sker Vegagerðin sem betur fer úr svo allir geta verið sáttir.
Ekki má svo sem alveg gleyma því að samgönguráðherra bætti nýlega umrædda reglugerð með því að sameina Suðurnes og höfuðborgarsvæðið í eitt „takmörkunarsvæði“ sem svo er nefnt í reglugerðinni, en það eru þau svæði á landinu þar sem takmarkanir eru settar á fjölda atvinnuleyfa í leiguakstri. Þessi breyting var til hagsbóta fyrir neytendur og var skref í rétta átt. Skrefið var þó helst til stutt og reglur um leigubílaakstur eru enn langt frá því að vera ásættanlegar. Það er til að mynda sláandi að nú, þegar flestir sæmilega upplýstir menn eru orðnir þeirrar skoðunar að best fari á því að markaðurinn en ekki ríkisvaldið stilli af framboð og eftirspurn, megi finna eftirfarandi setningu í nýlegri íslenskri reglugerð:
Fyrir 1. september ár hvert, í fyrsta skipti 2004, skal samgönguráðuneytið fara yfir og endurskoða fjölda atvinnuleyfa á hverju svæði og grípa til aðgerða ef marktækt ójafnvægi hefur myndast milli eftirspurnar og framboðs. |
Hvernig stendur á því að nokkrum manni dettur í hug að best fari á því að samgönguráðuneytið grípi til aðgerða ef „marktækt ójafnvægi hefur myndast á milli eftirspurnar og framboðs“? Og hvernig metur samgönguráðuneytið þetta ójafnvægi? Hefur ráðuneytið fest kaup á markaðsójafnvægisreiknistokki sem hætt er að nota í Austur-Evrópu? Og ef svo er, má þá ekki nota þann ágæta reiknistokk til að losna við samkeppni af fleiri mörkuðum, svona ef það er á annað borð er viðurkennt „að samkeppni sé dýr og almennt til leiðinda“, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar orðaði það svo eftirminnilega.