Miðvikudagur 19. október 2005

292. tbl. 9. árg.

Íaðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins var þeirri kenningu varpað fram af ýmsum fjölmiðlamönnum að nú þegar Davíðs Oddsson hætti sem formaður flokksins myndi hinn „stóri hópur“ stuðningsmanna aðildar Íslands að Evrópusambandinu loks gefa sig fram og láta til sín taka. Davíð hætti vissulega en lítið mun hafa farið fyrir umræðum um hina sögulegu nauðsyn þess að Íslengingar gefi frá sér frelsi og fullveldi með aðild að ESB.

Geir H. Haarde hlaut glæsilega kosningu sem formaður Sjálfstæðisflokksins með atkvæðum tæplega 92% þeirra er kusu. Hann gerði samband Íslands við umheiminn að umtalsefni í framboðsræðu sinni fyrir formannskjörið. Þar sagði Geir meðal annars:

Íslendingar eru meðal þeirra þjóða sem eiga einna mest undir greiðum aðgangi að mörkuðum heimsins. Við höfum mikla hagsmuni af því að skriður komist á viðræður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um aukið viðskiptafrelsi. Það er öllum til hagsbóta, ekki síst fátækari ríkjum heims. Sjálfstæðisflokkurinn leggur því ríka áherslu á að Ísland leggi sitt af mörkum til þess að sem mest frelsi náist í heimsviðskiptum.

Samskipti Íslands og ESB verða að sjálfsögðu viðvarandi viðfangsefni í íslenskum stjórnmálum. Ég tel að við Íslendingar höfum komið ár okkar einkar vel fyrir borð með EES samningnum. Við njótum góðs af innri markaði ESB og hinu fjórþætta frelsi án þess að þurfa að fórna á móti mikilvægum hagsmunum, eins og stjórn á auðlindum sjávar. Engir áþreifanlegir íslenskir hagsmunir kalla á aðild að Evrópusambandinu, en margt mælir hins vegar á móti. Á meðal margra ókosta er auðvitað afsal á fullveldi Íslands, sjávarútvegsstefna ESB og geysileg miðstýring sem innbyggð er í sambandið, auk þess sem beint aðildargjald yrði í okkar tilfelli margir milljarðar á ári í sjóði ESB. Aðalatriðið er þó að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið gengur vel. Hann tryggir alla okkar helstu hagsmuni í ESB, en einkum aðgang að þessum mikilvæga markaði fyrir íslenskar vörur og þjónustu, fjárfestingar og vinnuafl. Það er misskilningur að senn dragi að einhverju skapadægri eða ögurstund í samskiptum Íslands og ESB.

Þessi orð verða vart afdráttarlausari. Engir áþreifanlegir íslenskir hagsmunir kalla á aðild, segir varaformaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og hlýtur góðan stuðning í formannskjöri í kjölfarið.