R
Á góðum bíl í suddanum við Gróttu. |
-listinn, sem stýrir nú stærsta sveitarfélagi landsins að handan, hefur gefist upp á halda bíllausa daginn svonefnda hátíðlegan. Síðast þegar það var reynt fór Árni Þór Sigurðsson forseti borgarstjórnar í hátíðarakstur á embættisbifreið borgarinnar til að undirstrika mikilvægi þess að menn séu ekki að skrölta einir um á bíl. Árni leysti það með því að vera með bílstjóra á kostnað skattgreiðenda. Og til að forðast allan misskilning var Árni ekki á strætó.
Eins og oft áður þegar þessir menn gefast upp á flokkum, framboðum og hugmyndun þá er gripið til þess ráðs að skipta um nafn og kennitölu á þrotabúinu og trillað af stað með það á nýjan leik. Samgönguvika Reykjavíkurborgar var engin undantekning. Þess vegna heitir bíllausi dagurinn nú „frídagur bílsins“.
En það var fleira sem vakti athygli Vefþjóðviljans í þeirri „vitundarvakningu“ sem borgaryfirvöld standa fyrir þessa dagana á kostnað skattgreiðenda. Í kynningu á vef borgarinnar segir að skoðun á umferð í borginni leiði í ljós að „þriðjungur ferða í bifreið [sé] aðeins 1 kílómetri, 62% ferða er 3 km leið og meðallengd ferða er 3,2 km.“ Nú er auðvitað með ólíkindum að þriðjungur bílferða sé nákvæmlega 1 kílómetri og væntanleg er átt við að hann sé innan við 1 kílómetri. Það er mjög áhugavert því 1 km er sennilega ekki fjarri því sem menn þurfa að ganga til og frá stoppistöð ef þeir ætla að taka strætó fram og til baka í vinnu, skóla eða á kjörstað í prófkjöri vinstrigrænna. Því nenna fáir sem kunnugt er.
Ef þetta eru réttar tölur sem borgin sendir frá sér er auðvitað á brattann að sækja fyrir strætó. Borgarbúar vilja alls ekki ganga vegalengd sem er á við hefðbundið labb út á stoppistöð. Ástæðan fyrir þessari sporleti Reykvíkinga er sjálfsagt aðallega veðráttan. Menn geta eiginlega aldrei treyst því að sama veðrið haldi frá morgni til kvölds. Í hinni sígildu suðvestanátt skiptast á skin og skúrir og þá þurfa gangandi og hjólandi að velja á milli þess að verða grillaðir í regngalla eða gegndrepa í rykfrakka.
Annað sem gerir þessar niðurstöður áhugaverðar er að allt tal um mikilvægi þess að þétta byggð hlýtur að þurfa taka mið af því að Reykvíkingar nenna bara alls ekki að labba þótt þeir eigi kost á því. Það hefur þá væntanlega lítið upp á sig að þétta byggðina ef menn fara ekki úr húsi án bílsins. Eina afleiðingin af þéttingu verður þá meiri umferð á minna svæði með auknum styrk útblástursefna í loftinu sem menn anda að sér.