Það er það sem ég er algerlega sannfærð um,“ sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra spurð að því í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær hvort að „vaxtarsamningur“ sem hún kynnti á Höfn í Hornafirði væri arðbær fjárfesting. Valgerður hafði upplýst um það að „vaxtarsamningurinn“, sem mun vera á milli iðnaðarráðuneytisins, sveitarfélaga og fyrirtækja á Austurlandi, kosti „einhverja milljónatugi“ á ári hverju. „Einhverjir milljónatugir“ er svo sem ekki há upphæð þegar einhver annar á að greiða og þá er út af fyrir sig ódýrt að halda því fram að fjárútlátin verði arðbær. En hvernig væri nú að þeir sem eru svo sannfærðir um að opinberir styrkir, byggðastyrkir eða aðrir, séu arðbærir, leggi sjálfir fram fé í hin arðbæru verkefni?
Líklega hefur fréttamanninum ekki dottið í hug að spyrja ráðherrann hvort hann ætli sjálfur að leggja fé í „vaxtarsamninginn“ enda eru þeir sem taka ákvarðanir um að eyða annarra manna fé í slíka hluti aldrei spurðir þess háttar spurninga. Ef til vill hefur fréttamanninum dottið spurningin í hug en ákveðið að vera ekki að þreyta áhorfendur með henni, enda má hverjum manni vera ljóst að þetta verkefni, „vaxtarsamningurinn“, er að öllum líkindum ekki arðbært. Ástæðan fyrir því er einföld: Ef „vaxtarsamningurinn“, sem felur í sér að hið opinbera leggi fram fé til uppbyggingar á ákveðnu svæði, væri arðbær, þá hefði hið opinbera ekki komið að „samningnum“. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, er einmitt fengið til að leggja fé í verkefni af þessu tagi vegna þess að þau eru ekki talin arðbær og þess vegna vilja einkaaðilar ekki leggja fram fé til þeirra.
Réttara nafn yfir „vaxtarsamning“ væri „samdráttarsamningur“, því að hann mun að öllum líkindum valda samdrætti. Ekki svo að skilja að þessi einstaki samningur sé nægilega stór til að valda kollsteypu í hagkerfinu, en allar líkur eru til þess að hagvöxtur verði heldur minni en ella vegna þessa samnings. Ástæðan er sú að það fé sem ríkið tekur af skattgreiðendum til að setja í þetta verkefni hefðu skattgreiðendur getað nýtt til hagkvæmari hluta. Féð hefði því getað nýst betur og aukið hagsæld meira en gert er ráð fyrir í „vaxtarsamningnum“. Þetta mun ekki mælast beint og einhverjir munu sjá merki þess á Austurlandi að „vaxtarsamningurinn“ hafi skilað árangri. En þó að þetta muni ekki mælast eða sjást er þetta engu að síður raunverulegt. Það er augljós staðreynd að þau arðbæru verkefni, sem ekki var hægt að ráðast í vegna þess að féð var tekið með sköttum og varið með óarðbærari hætti, verða aldrei að veruleika og hagkerfið í heild verður þeim mun minna að vexti.
Dagblaðið DV er svo sem ekki mjög áreiðanleg heimild og ef til vill kemur í ljós að viðtal þess við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra vinstri flokkanna sem birt var í gær er uppspuni. Það kemur þá í ljós, en Steinunn Valdís hefur að minnsta kosti ekki enn borið það sem blaðið hafði eftir henni til baka. En hvað var haft eftir henni. Jú, hún var spurð eftirfarandi spurningar: „Ef þú værir að flytja utan af landi og til höfuðborgarsvæðisins hvar myndir þú helst vilja búa?“ Og svar borgarstjóra var ekki það sem flestir hefðu giskað á, því hún sagði: „Í Hafnarfirði. Gamall og sjarmerandi bær.“
En þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart. Fáir þekkja betur en Steinunn Valdís, sem hefur verið borgarfulltrúi vinstri flokkanna frá 1994, hvernig vinstri menn eru búnir að leika Reykjavíkurborg á þessu tímabili.