„Mér fannst þetta dálítið minna á einhverja dómsdagsræðu frá 19. öld, eða jafnvel 17. öld, um að við ættum að fara að hegða okkur betur því að annars færum við bara beint til helvítis.“ |
– Trausti Jónsson veðurfræðingur í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 9. ágúst 2005. |
Ummælin hér að ofan féllu í tilefni þáttar um loftslagsmál sem Ríkissjónvarpið hafði sýnt kvöldið áður og fékk sjálfsagt fleiri en Trausta Jónsson til að velta því fyrir sér að enn einu sinni væri verið að draga upp þá mynd af ástandinu í veröldinni að allt væri að fara til fjandans. Eftir að hafa horft á þáttinn hafa líklega einhverjir umhverfisofsamenn dregið fram hrísvöndinn og húðstrýkt sjálfa sig fyrir syndir sínar, meðal annars þá að nota rafmagn, kynda húsið sitt, ferðast ekki alltaf undir eigin vélarafli og að endurnýta ekki slitnu sparibuxurnar sem sundskýlu og legghlífar.
Þátturinn sem um ræðir var í Ríkissjónvarpinu kallaður Rökkvun en heitir á ensku Global Dimming. Þátturinn gekk út á að gera mikið úr meintri ógn vegna þessa fyrirbæris. Í þættinum kom fram að mælingar hefðu sýnt að vegna sótmengunar væri að dimma á jörðinni. Því var svo haldið fram að þetta hefði valdið hungursneyð í Afríku og annarri óáran, þó að flestum sé kunnugt um að orsakir hungursneyðar séu allt aðrar og þá aðallega stjórnarfar, til að mynda stjórnarherrar sem hafa meiri trú á ríkisafskiptum en markaðsbúskap. Síðan lentu heimsendaspámenn í því – og frá því var sagt í þættinum þó að þeir væru þar kallaðir vísindamenn – að nýjar mælingar sýndu að sólarljós á jörðinni færi vaxandi vegna minnkandi mengunar. Þar með hefðu einhverjir talið að nú væri allt að verða betra. En, nei, það er eiginlega ennþá verra ef marka má heimsendaþátt Ríkissjónvarpsins. Það sýnir nefnilega, er fullyrt þar, að gróðurhúsaáhrifin eru enn meiri en áður var talið og þess vegna er allt í voða. Og því til sönnunar voru sýndar myndir af sjó í ljósum logum og Englandi sem eyðimörk, enda byggðist þátturinn mikið á því að búa til dramatík með tilbúnum myndum af því sem gæti gerst ef alls konar ógnvænlegar fantasíur yrðu að veruleika á sama tíma. Undir var svo spiluð tónlist sem hæglega hefði getað verið úr einhverri ævintýra- og spennukvikmynd.
Þátturinn endar svo á því að allt geti farið úr böndunum þannig að maðurinn fái ekki við neitt ráðið og hiti jarðar geti orðið meiri en hann hafi verið í fjóra milljarða ára, eða um svipað leyti og fyrsti heimsendaspádómurinn var sendur út í Ríkissjónvarpinu. Í þessu sambandi í þættinum kemur fram að efni hans sé ekki spádómur, heldur aðvörun. „Þetta er það sem mun gerast ef við hreinsum mengunina en gerum ekkert í gróðurhúsalofttegundunum,“ er fullyrt í þættinum. „Þetta er það sem mun gerast“. Enginn efi, ekkert hik, bara fullyrðing um að jörðin verði að einu logandi víti á örfáum áratugum ef ekki verður gripið til þeirra aðgerða sem þáttargerðamönnunum þóknast.
Heimsendaspár af þessu tagi væru ógnvekjandi ef þær væru ekki jafn algengar og hefðu jafn oft brugðist og raun ber vitni. Og þær væru ágætis grín ef þær hefðu engin neikvæð áhrif, eins og að breiða út óþarfa hræðslu meðal manna og ýta undir óskynsamlegar aðgerðir stjórnvalda. Fyrir um þremur áratugum spáðu heimsendaspámenn því að jörðin væri að fara inn í mikið kuldaskeið og spáðu gífurlegum mannfelli og hörmungum fyrir allt mannkynið. Tæpum tveimur áratugum síðar var ljóst að þetta hefði ekki orðið, en þá var breytt um kúrs og því spáð að jörðin myndi hitna svo mjög að mikil ógn steðjaði að mannkyninu. Skömmu síðar komu einhverjir nýir fram og töldu að minnkandi sólarljós kallaði kulda yfir jörðina með skelfilegum afleiðingum. Þegar birtan eykst á ný er því svo spáð í áróðursþætti í Ríkissjónvarpinu að England muni breytast í eyðimörk og að sjórinn muni loga.