Föstudagur 12. ágúst 2005

224. tbl. 9. árg.

Undanfarna daga hefur fréttamönnum tekist að ræða það fram og til baka að stjórn norðlensks kaupfélags hafi ekki litist betur en svo á þá tilhugsun að kaupfélagsstjórinn tæki sér níu mánaða leyfi frá störfum, að betra væri að hann kæmi þá bara ekkert aftur svo nýr maður geti þá bara tekið við strax. Stjórn kaupfélagsins hefur að vísu dregið þessa skýringu til baka og ber nú aðrar ástæður fyrir sig. Gefum okkur nú samt að upphaflega skýringin standist og stjórnin og kaupfélagsstjórinn hafi samið um starfslok kaupfélagsstjórans fremur en að reyna að leysa fæðingarorlofsmálið með íhlaupamanni. Þurfa þingmenn, verkalýðsrekendur og fleiri óviðkomandi að ganga af göflunum að því tilefni? Ákveðinn hópur manna virðist vera með það einna helst baráttumál að sem allra flestir fari í sem lengst fæðingarorlof á kostnað skattgreiðenda og verði að snúa aftur í sama starf að því loknu. Ef einhver kýs fremur að láta af störfum – í þessu tilviki með tugi milljóna króna í starfslokagreiðslu ef marka má fréttir – þá verður allt vitlaust.

En segjum nú sem svo að forstjóri í stóru fyrirtæki myndi óska eftir níu mánaða launalausu leyfi til einhvers annars en að vera heima hjá nýfæddu barni. Hann ætlaði kannski bara að gera skurk í einhverju áhugamáli sínu, leika golf við bráðefnilegan unglinginn á heimilinu, mótmæla Kárahnjúkavirkjun, ferðast um heiminn – nú eða gæfi enga ástæðu. Þá myndu allir skilja fyrirtæki sem segði bara ‘nei herra minn – eða frú – , við getum ekki misst forstjórann svona lengi, við getum ekki staðið í því að finna varamann sem þarf svo aftur að víkja þegar þú kemur og svo þyrftir þú aftur að setja þig inn í málefni dagsins þegar þar að kæmi’. Þá myndu allir skilja það fyrirtæki sem segði einfaldlega að ef maður í slíkri stöðu þyrfti að taka sér níu mánaða frí að þá væri bara eins gott að hann hætti endanlega svo það mætti ráða eftirmann en ekki afleysingamann. En þegar það er fæðingarorlof sem á í hlut þá sér enginn að fyrirtæki eiga allt annað en auðvelt með það að missa æðsta stjórnandann út í þrjá fjórðu úr ári. Þá eru þau sjónarmið fyrirtækisins einfaldlega „sorgleg á jafnréttistímum“ eins og Árni Magnússon félagsmálaráðherra orðaði það, þó flestir myndu skilja þau mæta vel ef fríið ætti að vera af einhverjum öðrum ástæðum. Og auðvitað hefur enginn sýnt fram á að kynferði kaupfélagsstjórans skipti nokkru í þessu sambandi. Skyldi ekki mega ætla að það væri jafn slæmt að missa kvenforstjóra um langan tíma? Og þegar í hlut á kaupfélag sem þrátt fyrir miklar eignir hefur aðeins þrjá fasta starfsmenn, þá ættu nú flestir að sjá hversu erfitt slíkt félag ætti með það að láta einhvern leysa kaupfélagsstjórann af. En á þetta horfir enginn. Ekki þegar fæðingarorlof er annars vegar. Þá þurfa öll raunhæf sjónarmið að víkja og kreddan tekur við.

Því má svo ekki gleyma að það að þiggja greiðslur úr fæðingarorlofssjóði – eins og flestir nýbakaðir foreldrar gera, hálaunaðir jafnt sem þeir láglaunuðu – þýðir ekki endilega að menn kasti algjörlega frá sér vinnunni á meðan greiðslurnar eru að berast. Auðvitað er það þannig í mjög mörgum tilvikum að það er ekki raunhæft. Í einhverjum tilvikum er þetta kerfi líka misnotað með því að fæðingarorlofssjóður er hreinlega að greiða mönnum í fullri vinnu laun enda ekki við öðru að búast en að þetta félagslega kerfi sé misnotað eins og önnur. Andríki varaði sérstaklega við þessum misnotkunarmöguleikum þegar lögin voru sett með hraði vorið 2000. Skattyfirvöld hafa síðan hrint af stað sérstakri rannsókn á þessum svikum en eiga eðli máls samkvæmt erfitt um vik að fá botn í slík mál.

En oft eru menn einfaldlega að vinna mjög sérhæfð störf í litlum einkafyrirtækjum og eru með mjög persónulega þjónustu við viðskiptavini sína. Stjórnmálamenn og verkalýðsrekendur kalla það „sorglegt“ að fólk í slíkri stöðu telji sig ekki getað fórnað lífsviðurværinu til að þóknast þjóðfélagsverkfræði fæðingarorlofslaganna. Kannski metur einyrki sem eignast hefur góðan hóp viðskiptavina með áralangri eljusemi að þeim sé ekki fórnandi fyrir fæðingarorlof ríkisins. Hann telur kannski að það sé fjölskyldunni fyrir bestu að hann kasti ekki starfi sínu á glæ heldur haldi áfram að búa í haginn fyrir sig og sína. Hvað er svona „sorglegt“ við það?

Staðreyndin er auðvitað sú að fæðingarorlofslögin voru hönnuð af opinberum starfsmönnum með hagsmuni opinberra starfsmanna í huga. Þau voru búin til fyrir vel launaða opinbera starfsmenn sem vinna þægilega innivinnu á yfirmönnuðum stofnunum ríkis, sveitar- og verkalýðsfélaga þar sem enginn tekur eftir því þótt menn hverfi mánuðum saman. Jafnvel þegar sett var þak á greiðslurnar úr fæðingarorlofssjóði var það miðað við að efra lag starfsmanna ráðuneyta og annarra opinberra stofnana, til dæmis þingmenn, héldi sínu í fæðingarorlofi.

Nýjum titli hefur verið bætt við í Bóksölu Andríkis. Í hita kalda stríðsins eftir Björn Bjarnason geymir úrval skrifa Björns um öryggis- og utanríkismál Íslands. Í meira en aldarfjórðung var Björn einn öflugasti þátttakandinn í opinberum umræðum um þau mál og þekking hans og yfirsýn á þeim vettvangi er einstök. Í formála umsjónarmanns útgáfunnar segir að Björn komi „svo víða við í þessum skrifum sínum að kalla [megi] að bókin sé eins konar víðsjá kaldastríðsáranna á Íslandi í alþjóðlegu ljósi. Bókin [geti] því þjónað sem almennt heimildarrit um flesta þætti íslenskrar utanríkis- og öryggisstefnu í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi.“ Óhætt er að segja að Í hita kalda stríðsins sé ómissandi bók fyrir áhugamenn um íslensk öryggis- og utanríkismál, sem og áhugamenn um þróun íslenskra stjórnmála á síðari hluta síðustu aldar. Bókin er 352 síður að stærð og kostar í bóksölu Andríkis kr. 1900 og er sendingarkostnaður innifalinn.