„Árás á siðmenninguna.“ Í þessum orðum felst einhver fullkomlega óásættanlegur hroki og siðblinda. Persónulega kannast ég ekki við neina siðmenningu á okkar slóðum. Miklu frekar að hægt sé að tala um dóna-, rudda- og yfirgangsmenningu. Og hvað er svona heilagt við vestræn gildi? Við lifum í svívirðilegum vellystingum og drifkraftur okkar er botnlaus græðgi og flottræfilsháttur á kostnað annarra. Með ósanngjörnum viðskiptaháttum, kúgun og ránhyggju höldum við heilu heimsálfunum niðri; það er okkar lífsstíll. |
– Dagur Kári Pétursson í grein í Lesbók Morgunblaðsins 23. júlí 2005. |
Það er ekki nokkur siðmenning á Vesturlöndum. Engin. Að minnsta kannast Dagur Kári Pétursson ekki við að hana. Enga. Sennilega ekki einu sinni viðleitni.
Ekki er vafi á því að grein Dags Kára Péturssonar hefur fallið í kramið hjá umsjónarmönnum Lesbókar, þess á síðari árum óhemjuleiðinlega fylgirits Morgunblaðsins, enda er henni stillt upp á eins áberandi stað og unnt er á blaðsíðu 2. En hvað með almenna lesendur blaðsins, eiga þeir skilið að fá svona trakteringar með morgunkaffinu? Eiga þeir skilið að fá yfir sig öskur um það að á Vesturlöndum sé bara engin siðmenning? Að þar ráði eintómur dónaskapur, ruddaskapur og yfirgangur, að ógleymdri botnlausri græðgi sem vinstrimenn finna jafnan hjá öðru fólki? Dagur Kári Pétursson kannast ekki við neina siðmenningu á Vesturlöndum og Morgunblaðið stillir kenningum hans upp sem hinni markverðustu grein. Hann er kannski svona róttækur frjálshyggjumaður að hann hreinlega telur það til marks um illsku en ekki öfgakennda barnfóstruhneigð að um öll Vesturlönd hefur hið opinbera í meira og minna í heila öld fært stórkostlega út kvíarnar í hverskyns „almannaþjónustu“, sett smásmyglislegar reglur sem ætlaðar eru til að vernda borgana fyrir eigin mistökum, tugmilljónir manna lifa á bótum frá hinu opinbera, ganga í skóla hins opinbera, leggjast á spítala hins opinbera og sumir framleiða meira að segja kvikmyndir á kostnað hins opinbera. Vissulega þykir Vefþjóðviljanum hið opinbera hafa gengið allt of langt í útþenslu sinni og teldi hinn almenna mann mun betur settan ef bæði opinber umsvif og opinber gjaldtaka yrðu minnkuð, en ekki vissi blaðið að Dagur Kári Pétursson væri svona harður. Að hann kannaðist bara ekki við nokkra siðmenningu á Vesturlöndum og færi með þá skoðun sína í blöðin. Hitt kom minna á óvart að honum yrði tekið með kostum og kynjum í póstmódernískri Lesbók Morgunblaðsins.
Og drifkraftur „okkar“ er „botnlaus græðgi og flottræfilsháttur á kostnað annarra“. Botnlaus græðgi. Vissulega vill flest fólk bæta líf sitt ef það getur, en er ástæða til að lá því það? Hvað er að því að vilja búa sjálfum sér og sínum betri kjör ef farið er löglega og heiðarlega að því? Er sú löngun ekki meðal annars það sem hefur knúið áfram framfarir undanfarnar aldir? Það er ekkert að því að vilja bæta hag sinn og sinna. Það sem er verra er ef menn fara út í flottræfilshátt „á kostnað annarra“ ef það er gert með því að þessir aðrir hafa ekkert um það að segja. Dæmi um slíkt gæti verið ef mann langaði að vinna listaverk, til dæmis kvikmynd, og hann vildi ekki eða gæti ekki lagt sjálfur fram fé til hennar, og þá ætlaðist hann til þess að aðrir yrðu neyddir til þess að fjármagna myndina fyrir hann, til dæmis með því að hið opinbera ræki fyrir hann sérstakan sjóð á almannakostnað. Það væri hugsanlegt að kalla slíka kvikmyndagerð „flottræfilshátt á kostnað annarra“, en ef fólk er eingöngu að reyna að bæta hag sinn með frjálsum samningum við annað fólk, þá er óþarfi að ráðast á það sérstaklega fyrir það.
Svo höldum „við“ heilu heimsálfunum niðri með ósanngjörnum viðskiptaháttum, kúgun og rányrkju. Ekki er það fallegt af „okkur“. En þá er gott til þess að vita að enn eru til ríki sem sleppa við ósanngjörn viðskipti og rányrkju. Kúba til dæmis, Norður-Kórea líka, þar tapa menn ekki á viðskiptum við „okkur“.