Hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong frá Texas fór í gær langleiðina með að vinna Tour de France hjólreiðakeppnina í sjöunda sinn. Hann sigraði í keppni gærdagsins á 20. legg og hefur örugga forystu á Ítalann Ivan Basso fyrir lokadaginn. Ef hann verður ekki óheppnari en Daninn Mickael Rasmussen, sem þurfti að skipta nokkrum sinnum um hjólhest og féll tvisvar af baki í gær, mun hann fagna sigri á Champs-Elysées í dag. Armstrong mun þar með verða fyrsti maðurinn til að sigra sjö sinnum í þessari frægustu hjólreiðakeppni heims. Hann hefur lýst því yfir að þetta verði hans síðasta keppni.
Hjólreiðamaðurinn Jim Fedako notar Frakklandstúrinn til að skýra muninn á kenningum austurrísku hagfræðinnar og almannavalsfræðinnar í grein á vef Mises Institute í síðustu viku. Það kemur sjálfsagt einhverjum á óvart að þessum tveimur skólum sé stillt upp sem andstæðum en það er bara gaman að því. Þessir tveir skólar eiga vissulega ýmislegt sameiginlegt þótt á þeim sé grundvallarmunur að mati Fedakos.
Fedako segir að auðvitað dreymi alla 198 keppendur um sigur en þeir hafi engu að síður misjöfn markmið. Sumir einbeiti sér að því að komast í fjallatreyjuna, aðrir vilji vinna ákveðinn legg og enn aðrir eigi einungis þá ósk að tryggja sér fjárhagsstuðning fyrir næsta tímabil.
Fedako segir almannvalsfræðina gera ráð fyrir að allir keppendur hafi sama markmið og bregðist eins við öllum aðstæðum. Austurríska hagfræðin gangi hins vegar út frá því að menn hafi einstaklingsbundin og sjálfsmiðuð markmið sem engin leið sé að segja fyrir um. Þess vegna hafni austurríska hagfræðin afskiptum ríkisins af markaðinum. Einstaklingunum sjálfum sé best treystandi til að semja sín á milli þannig að þeir séu betur settir en áður.
Í hjólreiðakeppnum taka menn „á rás“ í litlum hópum til að skilja sig frá stóru þvögunni. Í þessum litlu hópum eru oftast 1 til 4 keppendur sem skiptast á um að leiða hópinn og kljúfa vindinn. Það er í raun furðulegt að sjá þessa litlu hópa myndast með augnatilliti, handapati eða nokkrum orðum því fyrirfram er ekkert ákveðið í þessum efnum milli liðanna sem taka þátt. Mennirnir í hópnum hafa oft misjöfn markmið en hjálpast að öllum til hagsbóta. Almannavalsfræðin geri hins vegar ekki ráð fyrir að menn geti samið svo snurðulaust og því þurfi ríkið að skerast í leikinn.
En er ekki hætta á að menn laumist með í svona hópum og láti aðra um að hafa vindinn í fangið. Um þetta segir Fedako:
Auðvitað vilja allir taka á rás með litlum hópi án þess að þurfa að leggja nokkuð að mörkum. Það er mikilvægt að spara orkuna þegar menn hjóla yfir 2.000 mílur á þremur vikum. En þrýstingur úr hópnum verður yfirleitt til þess að allir þurfa að skila sínu. Í raun og veru vita menn ekki hvort allir í hópnum eru að leggja sig alla fram því enginn þekkir til fulls væntingar og getu annarra.
Það eru alls staðar laumufarþegar í mannlegu samfélagi. Það verður eins og hver önnur staðreynd lífsins þegar menn velja á milli ólíkra kosta. Keppendur í túrnum skilja þetta augljóslega, sætta sig við það og halda för sinni áfram. |
Ef hins vegar ríkið reyndi að jafna leikinn með því að skattleggja þá sem taldir eru ná mestu út úr þessari frjálsu samvinnu er hætt við að keppnin yrði eins og hagkerfi Sovétríkjanna. Það er hætt við að keppendur leggðu sig lítt fram ef ríkið rétti þeirra hlut hvort eð er. Þá myndi keppnin jafnframt missa gildi sitt fyrir áhorfendur.
Í dag má fylgjast með lokasprettinum í Tour de France á Eurosport og vafalaust fleiri sjónvarpsstöðvum. Lokaorð greinar Fedakos eru hins vegar:
Á meðan þú nýtur keppninnar í sjónvarpinu er sjálfsagt að hafa í huga að keppendurnir, sem eru frá mörgum löndum og tala ýmis tungumál, geta engu að síður samið sín á milli þannig að það gagnist bæði þeim sjálfum og áhorfendum. |