Auglýsingaskilti frá Eflingu í Leifsstöð opinberar erindisleysi íslenskra verkalýðsfélaga. |
Vefþjóðviljinn hefur af og til gagnrýnt íslensk stéttarfélög sem virðast til í flest annað en að lækka félagsgjöld sín, hvað þá gefa launþegum val um það hvort þeir greiði gjöldin og séu félagar. Til að koma félagsgjöldunum og öðrum nauðungargjöldum sem stéttarfélögin innheimta af launþegum í lóg er sífellt leitað nýrra gæluverkefna. Sumarhúsarekstur, tjaldvagnaútgerð, rekstur ferðaskrifstofu, námskeið, íbúðaleiga í sólarlöndum, blaðaútgáfa, pólitískar auglýsingar, styrkir til mannréttindaskrifstofu, alls kyns ráðgjöf, fleiri sérfræðingar og glæsilegri skrifstofur hafa verið meðal þeirra ráða sem verkalýðsrekendur hafa beitt til að koma gjöldunum fyrir kattarnef. Á dögunum bárust svo fréttir af því að Verzlunarmannafélag Reykjavíkur áætlar að koma á skyldusparnaði meðal félagsmanna sinna. Allt fremur en að lækka nauðungargjöldin.
Þeir sem eiga leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar um þessar mundir geta svo barið augum auglýsingaskilti af stærri gerðinni frá stéttarfélaginu Eflingu. Þar má sjá glaðbeittan sólarlandafara og skilaboðin „Hafðu það gott í fríinu“ og undir er ritað „Efling stéttarfélag. Stendur með þér!“. Stéttarfélag með skylduaðild innheimtir félagsgjöld af mönnum sem svo eru notuð til að styrkja ríkissjóð með því að kaupa auglýsingapláss á veggjum opinberra bygginga. Það sem ekki er er tekið strax af mönnum í skatt tekur stéttarfélagið og sendir ríkissjóði. Eina skýringin á þessu furðuverki hlýtur að vera sú sem nefnd er hér að ofan. Stéttarfélögin þurfa að eyða félagsgjöldunum því annars er hætt við því að einhver fari að spyrja hvort þau þurfi að vera svona há.
Það hlýtur að vera sérlega ánægjulegt fyrir mann sem kærir sig ekki um að greiða til Eflingar að sjá félagsgjöldunum brennt á þennan hátt í auglýsingar í landganginum í Leifsstöð. Þó er ekki víst að allir félagsmenn Eflingar eigi þess kost að fara um landganginn því staðreyndin er sú að nauðungargjöldin í Eflingu samsvara líklega um verði einnar helgarferðar til útlanda á ári.