F
Fréttamenn Ríkisútvarpsins hafa yndi af því að mála græna kallinn á myndinni dökkum litum. |
réttastofa Ríkisútvarpsins, sem samkvæmt skoðanakönnunum þykir býsna áreiðanleg, sagði í fyrradag frá meintum sinnaskiptum forseta Bandaríkjanna. „Bush Bandaríkjaforseti segist ekki útiloka að maðurinn hafi haft áhrif á loftslagsbreytingar. Þetta er kúvending í stefnu Bandaríkjastjórnar sem fram til þessa hefur neitað að viðurkenna samband milli loftmengunar og hlýnunar andrúmslofts,“ sagði í fréttinni. Í fréttinni sagði einnig að bandarísk stjórnvöld væru nú tilbúin til að „viðurkenna“, eins og það var orðað, að „sameiginlegra aðgerða þjóða sé þörf til þess að berjast gegn hitnun andrúmslofts í heiminum“. Þetta er með sérkennilegri kúvendingum, því að ekki verður annað séð en að þetta sé óbreytt afstaða Bandaríkjastjórnar.
Fyrir rúmum fjórum árum, skömmu eftir að George W. Bush Bandaríkjaforseti tók við embætti flutti hann ræðu sem menn – líka fréttamenn á Ríkisútvarpinu – geta kynnt sér. Þar ræddi hann sjónarmið sín um loftslagsbreytingar og útilokaði ekki að maðurinn hefði áhrif á loftslagsbreytingar. Bush benti reyndar á að Vísindaakademían í Bandaríkjunum, National Academy of Sciences, sem fengin hefði verið til að meta það hvað vitað væri um loftslagsbreytingar, segði að aukning gróðurhúsalofttegunda væri að stórum hluta vegna aðgerða mannsins. Hins vegar kæmist akademían að þeirri niðurstöðu að ekki væri vitað hversu mikil áhrif náttúrulegar loftslagssveiflur hefðu haft á hlýnun loftslags við yfirborð jarðar.
Í ræðunni sagði Bush einnig að losun gróðurhúsalofttegunda frá Bandaríkjunum væri næstum 20% af losun heimsins, en benti um leið á að í Bandaríkjunum verði til um 25% af framleiðslu heimsins. Hann sagði Bandaríkin gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sinni að draga úr losun, en minnti um leið á ábyrgð þeirra sem losuðu hin 80%, meðal annars Kína sem væri í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum en stæði utan Kyoto-bókunarinnar. Bush sagði þetta verkefni krefjast 100% átaks, að allar þjóðir yrðu að leggjast á eitt. Í frétt Ríkisútvarpsins sagði engu að síður að hann væri nú í fyrsta skipti að „viðurkenna“ að „sameiginlegra aðgerða þjóða sé þörf“.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur í gegnum tíðina lagt töluvert á sig til að afflytja fréttir af Bush og því kemur ekki á óvart að hún kjósi að draga upp skakka mynd af sjónarmiðum hans nú. Það kemur þess vegna ekki heldur á óvart að þessi fréttastofa – og aðrar einnig ef út í það er farið – skuli ekki hafa fyrir því að reyna að kynna sér hvað Bandaríkin gera og hafa gert á síðustu árum í tengslum við loftslagsmál eða hvort að orðum Evrópuríkja hafa fylgt einhverjar aðgerðir. Það er nefnilega ekki nóg að staðfesta bókanir, það þarf einnig að fara eftir þeim. Nú þegar blasir við að stór hluti þeirra ríkja sem staðfest hafa Kyoto-bókunina mun ekki standa við yfirlýsingu sína.
Bandaríkin hafa ekki hagað sér með þessum hætti og vilja greinilega frekar segja minna en gera meira. Þau stunda mun meiri rannsóknir á þessu sviði en nokkuð annað ríki, eins og lesa má á vef Hvíta hússins. Og í ofangreindri ræðu Bush kom fram að Bandaríkin hefðu áratuginn á undan eytt meiru í þessar rannsóknir en öll Evrópusambandsríkin og Japan til samans. Þá má á sama vef lesa um það, að Bandaríkin hafa sett sér það markmið að bæta hagkvæmni í framleiðslu með hliðsjón af losun gróðurhúsalofttegunda um 18% fyrir árið 2012 og fram kemur að þetta sé sambærilegt við þá lækkun sem ríkin sem standa að Kyoto-bókuninni ætla að meðaltali að ná. Þessu ætla Bandaríkin að ná með ýmsum hætti, meðal annars með bættri tækni og skráningu.
Staðreyndin er sú að þótt Bandaríkin hafi ekki viljað taka þátt í Kyoto-bókuninni þá hafa þau lagt meira á sig til að rannsaka loftslagsmál og draga úr útblæstri en flest eða öll önnur ríki. Ástæðurnar fyrir því að þau vilja ekki taka þátt í Kyoto-bókuninni eru þær að þau telja að ef þau ætluðu að fylgja henni myndi það koma mjög niður á hagsæld íbúanna. Þau hafa einnig bent á – og fáir vísindamenn mótmæla því þó að sumir fjölmiðlamenn átti sig ekki á því – að Kyoto-bókunin byggir á veikum vísindalegum grunni og þess vegna sé að minnsta kosti nauðsynlegt að halda áfram rannsóknum og hafa betri vitneskju áður en gripið sé til kostnaðarsamra aðgerða sem svo reynast ef til vill með öllu óþarfar. Aðgerðirnar geta reynst óþarfar vegna þess hreinlega að þróun hita við yfirborð jarðar verði ekki sú sem ýmsar spár gera ráð fyrir, eða að mun ódýrara verði að takast á við afleiðingar hærri hita með öðrum hætti eftir á. Óvissan er raunar svo mikil, bæði um það hvort hiti muni hækka, hverjar afleiðingarnar verði og hvaða aðgerðir séu hagkvæmastar ef einhverjar reynast nauðsynlegar, að engin ástæða er til að draga í sífellu upp þá mynd af Bandaríkjaforseta að honum sé algerlega sama um loftslagsmál, bara vegna þess að hann er ekki reiðubúinn til að fórna velmegun fyrir hæpinn eða engan ávinning. Miklu nær er að segja að afstaða hans sé ábyrg og að þeir sem reyni að slá sér upp á hans kostnað stundi pólitískt lýðskrum.
Og af því að Tony Blair er sá maður sem um þessar mundir hefur vakið upp loftslagsumræðuna mættu fjölmiðlar velta því fyrir sér hvers vegna það skyldi vera. Staðreyndin er auðvitað sú að hann stendur veikt pólitískt og telur sig líklega þurfa á því að halda að fá fjölmiðla til að draga upp jákvæða mynd af sér. Þetta átti ekki síst við fyrir kosningar þegar hann hratt umræðunni af stað. Og því er ekki að neita að það hefur reynst sorglega auðvelt fyrir hann og spunameistara hans að fá fjölmiðlana til að dansa eftir þessum fölsku tónum.