Reykjavík á að vera lifandi borg sem býður upp á lífsgæði eins og þau gerast best. Lykilþættir í nýju aðalskipulagi stefna allir að þessu marki: Byggð verður þétt, atvinnulíf eflt og miðborgin endurnýjuð. |
– Reykjavíkurlistinn – áherslur og framtíðarsýn: stefnuskrá fyrir borgarstjórnarkosningar 2002. |
Vefþjóðviljinn slengdi fram þeirri kenningu á dögunum að lóðaskortsstefna R-listans í Reykjavík hefði leitt til þess að menn hafi flutt lengra frá borginni en ella. Þar með hefðu akstursvegalengdir til vinnu og til að sækja þjónustu aukist og jafnframt þörfin fyrir bíla. Það var hins vegar markmið R-listans að þétta byggðina en ekki dreifa henni um víðan völl og listinn hefur haft horn í síðu bíleigenda. Vefþjóðviljinn hefur ekki lagst í miklar rannsóknir til að styðja þessa kenningu sína en þó er ljóst að á meðan íbúafjöldi í Reykjavík breytist jafn lítið og raun ber vitni á síðustu átta árum er ekki hægt að gera ráð fyrir að byggð sé að þéttast. Frá árinu 1997 hefur borgarbúum fjölgað úr 108.484 í 113.366 miðað við 1. desember 2003 eða um 4,5%. Á sama tíma hefur íbúum margra nágrannasveitarfélaga borgarinnar fjölgað um tugi prósenta. Í sumum sveitarfélögum heldur fjær borginni hefur einnig orðið mikil fjölgun. Í Vatnsleysustrandarhreppi hefur fjölgað yfir 30% á sama tíma. Og um 15% í Árborg, áður Selfoss.
Það liggur í augum uppi að ef stóru sveitarfélögin næst borginni, Garðabær, Hafnarfjörður og Kópavogur, hefðu haft sömu stefnu í lóðamálum og Reykjavík hefðu menn þurft að færa sig enn fjær borginni í leit að byggingarlandi og byggð orðið enn dreifðari. Það bendir hins vegar ýmislegt til þess að stefna R-listans um þéttingu byggðar hafi haft öfug áhrif við það sem henni var ætlað og er það ekki nýlunda um opinbera skipulagningu.
Í Bandaríkjunum hefur „þétting byggðar“ gengið undir nafninu „smart growth“. Þessi stefna naut mikillar hylli á tíunda áratug síðustu aldar enda er hún kynnt með rómantískum hugmyndum um að menn búi svo þétt að þeir geti labbað í vinnu og farið á inniskónum út í búð, á barinn og kaffihúsið. Bílar og bílastæði eiga ekki heima í þessi mynd. Ýmsar borgir reyndu að hefta byggingu nýrra úthverfa. Meðal þeirra var Portland í Oregon. Það sem einkennir Portland í dag eru fá börn. Fólk með börn virðist ekki vilja búa í þéttri byggð. Því er jafnvel haldið fram að þetta séu ekki einstefnuáhrif heldur hafi þétt byggð þau áhrif að fólk eignist færri börn! Sömu sögu er að segja af borgum eins og Seattle og Boston. Íbúar Oregon samþykktu svo í almennri atkvæðagreiðslu í nóvember á síðasta ári að yfirvöld verði að bæta landeigendum skaðann sem þeir verða fyrir þegar yfirvöld setja takmarkanir á byggingarrétt á landið. Þetta mun ekki auðvelda yfirvöldum að hefta strauminn í úthverfin.
Almennt er svo þróunin sú í Bandaríkjunum, þrátt fyrir allt „smart growth“-talið á síðasta áratug að mestu vöxtur er í bæjum sem hvorki teljast til stórborga né sveita. Það er eitt sem hinar talandi stéttir vilja að menn geri og annað sem menn gera í raun.