Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að framvegis verði boðið upp á „gjaldfrjálsan leikskóla“ í hreppnum. Súðavíkurhreppur verður þá eina sveitarfélag landsins sem býður upp á slíka þjónustu, átta klukkustundir á dag. Svo segja menn að fámenn sveitarfélög berjist í bökkum og þurfi að horfa í hverja krónu. En kannski eru svona aðgerðir raunar ein skýringin á því hversu illa mörg sveitarfélög standa. Vandamálið er ekki að tekjurnar séu of litlar heldur er það eyðslan sem er vandamálið. Sveitarfélögin hafa vissulega tekið við ýmsum verkefnum á liðnum árum. Þeim verkefnum hafa fylgt það sem kallað er tekjustofnar og er feluheiti fyrir skatta á íbúana. En sveitarfélögin hafa ekki látið sér nægja að taka að sér þá þjónustu sem lögð hefur verið fyrir þau með lögum. Sveitarfélögin ganga sífellt lengra; taka að sér ný og ný verkefni, eyða meira en áður var gert í hin lögbundnu og hafa frumkvæði að dýrum útgjöldum, hvað eftir annað. Fjárhagsvandi sveitarfélaganna er sjálfskaparvíti.
Og fjárhagsvandinn verður þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi hækkað álögur hvað eftir annað. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í höfuðborginni þar sem hækkanirnar hafa verið skipulagðar þannig að þær sjáist sem minnst vegna tekjuskattslækkana ríkisins. Ekki gera allir sér grein fyrir að drjúgur hluti þess tekjuskatts sem þeir greiða um hver mánaðamót er í raun útsvar til sveitarfélagsins. Með sífelldri skattahækkun eyðsluglöðustu sveitarfélaganna hafa lífskjör borgaranna verið skert jafnt og þétt á undanförnum árum. Vissulega geta sveitarfélögin notað skattféð í ýmis verkefni sem hinum og þessum koma til góða. En skattarnir eru teknir af hinum mörgu og notaðir að verulegu leyti í áhugamál hinna fáu en skipulögðu. Hvort sem það er íþróttavöllur, óperuhús, yfirbyggð keppnissundlaug, eða hvað það nú er, þá er reikningurinn fyrir þessum höllum áhugafólksins sendur til útsvarsgreiðenda. Og útsvarsgreiðendurnir, hinn almenni skattgreiðandi, hefur þar með minna milli handanna til þess að kaupa það sem hann sjálfur hefði viljað nota fé sitt í. Hvort sem það eru nú nauðsynjar eins og matur, fatnaður og húsaskjól, eða þá einhvers konar munaður, þá er það samt þannig að fé hans er af honum tekið og til þess að fjármagna áhugamál nágranna hans. Um það snýst skattheimta – og henni vill Vefþjóðviljinn halda í hófi.
Vafalaust mun ýmsum súðvískum foreldrum þykja ljúft að geta sett börn sín í pössun fyrir ekkert. Að vísu munu foreldrarnir og aðrir Súðvíkingar, greiða hærra útsvar fyrir vikið, en þeim sem nýtur þjónustunnar að fullu en greiðir aðeins hluta kostnaðarins í sköttunum þykja það nú stundum góð skipti. Og af því að svo margir sjá aðeins sitt eigið baráttumál en horfa sjaldnar á heildarmyndina, þá fjölgar alltaf góðu málunum þar sem skattgreiðendur fá stóran reikning.
Og af rekstri Súðavíkurhrepps er það annað að frétta að hann hefur gengið það vel, að skuldir og skuldbindingar á íbúa voru 43% yfir landsmeðaltali árið 2003 og námu nær tvöföldum árstekjum sveitarfélagsins. Það er því ekki nema von að þeir sem stýra málum vilji auka á fjárhagsskuldbindingar hreppsins.