Fimmtudagur 30. júní 2005

181. tbl. 9. árg.

S eltjarnarnesbær efndi á dögunum til atkvæðagreiðslu meðal íbúa um tvær tillögur að skipulagi tiltekins bletts í bænum. Síðan þá hefur Morgunblaðið staðið á öndinni yfir þessum og öðrum væntanlegum stórsigrum íbúalýðræðis, en það er algerlega ómissandi þáttur í því eldóradói sem blaðið sér í draumum sínum; landinu þar sem berfættir karlmenn skipta á börnum á meðan að konur þeirra sitja málþing Auðs í krafti kvenna, fram til þess að öll fjölskyldan fer og greiðir atkvæði um málefni annarra, rafrænt, eftir að hafa kynnt sér það málþing þjóðarinnar sem daglega er háð á síðum blaðsins. Í þessum heimi borga útgerðarmenn leyfisgjald til þeirra sem aldrei hafa stundað útgerð, Blóðbankinn er í dreifðri eignaraðild, Íslendingar borga allra þjóða mest í þróunaraðstoð til erlendra harðstjóra, áttræðir menn eru sóttir til saka grunaðir um sextíu ára gömul ófyrnanleg kynferðisbrot, Bandaríkjastjórn fer offari í flestum málum, The New York Times er marktæk heimild og Al Gore er forseti. Sá sem vill skemmta sér ærlega nær sér í Lesbókina, þar sem póstmódernisti vikunnar sannar á ellefu síðum að ekkert sé til og einskis virði, væri það til. Útvarpið fjallar svo um greinina og ræðir við höfundinn í Víðsjá. Vinstrisinnaður prestur sér um sunnudagshugverkju og fjallar einkum um harðræði sem sjálfsmorðssveitir PLO verða fyrir á leið sinni á vígvöllinn. Mikilvægast alls er svo beina lýðræðið – í þessu landi skulu allir sífellt vera að kjósa.

Fer Morgunblaðið stundum í taugarnar á Vefþjóðviljanum? Hvernig dettur fólki það í hug?

Raunar er það svo, þrátt fyrir það sem hér á undan er sagt, að Morgunblaðið ber af þeim prentmiðlum sem gefnir eru út á Íslandi. Blaðið leitast af fremsta megni við að bregða upp sanngjarnri mynd af mönnum og málavöxtum, blaðið reynir að vanda til verka og jafnan má lesa fréttir þess án þess að þurfa að óttast að afstaða blaðsins til einstakra þjóðmála hafi haft þar sérstök áhrif, og raunar svo lítil að það er spurning hvort blaðið sé ekki of varkárt. Ekki þannig að skilja að eðlilegt sé að þjóðmálaviðhorf ritstjórnar rugli fréttamatið, en kannski þannig að það er fátítt að rekast á fréttaskýringar sem setja þjóðmál í stærra samhengi, þannig að blaðamaður dragi ályktanir og kynni þær og rökstyðji fyrir lesendum. Að vísu bætir blaðið sér upp kraftleysið við stjórnmálaskýringar með látlausum breiðsíðum um fátæktina sem það er svo fundvíst á. En Morgunblaðið er samt í gerðinni gott blað, mjög gott eiginlega. Það er bara það hversu leiðinlegt ritstjórnarefnið er núorðið, sem dregur þetta ágæta blað niður; hinn pólitíski rétttrúnaður sem seint virðist verða lát á. Inn á milli koma að vísu bragðgóðir staksteinar, en þeir eru stopulir og hverfa jafnan um langan tíma ef einn eða tveir vinstri menn æmta undan þeim opinberlega.

Beina lýðræðið er eitt megináhugamál Morgunblaðsins. Og eins og lesendur Vefþjóðviljans hafa sjálfsagt frétt fyrir löngu þá er síðarnefnda blaðið alfarið á móti kröfunum um beinna lýðræði. Það er að segja, á móti því beina lýðræði sem felst í sífelldum atkvæðagreiðslum borgaranna um einstök álitamál. Hins vegar þarf ekki að taka fram, að blaðið er mjög hlynnt annars konar lýðræði, það er að segja að hver og einn borgari verði sjálfráða um stærri hlut af lífi sínu og tilveru, að viðskipti verði frjálsari og reglur færri. Aukið samningafrelsi og lægri skattar eru á sinn hátt aukið lýðræði. Eða kannski fremur aukið sjálfræði borgaranna, þar sem frelsið er veitt hverjum og einum en ekki lýðnum sem hópi. Séu hins vegar mál sem hið opinbera þarf að leiða til lykta, þá er eðlilegra að það sé gert með fulltrúalýðræði en beinu lýðræði.

Með því er ekki sagt að fulltrúarnir séu í gerðinni betur fallnir til ákvarðana en hinn almenni kjósandi. Auðvitað dettur engum í hug, svo dæmi sé tekið, að í borgarstjórn Reykjavíkur hafi fyrir tilviljun valist einmitt þeir fimmtán borgarbúar sem mest vit hafa á skipulagsmálum, fjármálum, gatnagerð og barnagæslu. Það sem margir baráttumenn fyrir beinu lýðræði gleyma hins vegar oft, er að hinn almenni maður vill ekki þurfa að setja sig inn í öll þessi mál, vill ekki þurfa að gera sér heildarmynd af þeim í stóru samhengi. Ekki af því að hann geti það ekki, heldur miklu fremur vegna þess að hann hefur annað við líf sitt að gera. Það er miklu eðlilegra að borgarnir velji sér fulltrúa til að sinna þessum málum, hver eftir sinni megin lífsskoðun. Sumir hafa bæði tök og áhuga á að velta þjóðmálum fyrir sér daginn inn og daginn út. Slíkir menn myndu njóta þess að vera sífellt að greiða atkvæði og segja öðrum hvernig þeir ættu að greiða atkvæði. En öðru máli gegnir um hinn almenna mann. Hann hefur ekki tök á því, og sennilega ekki áhuga heldur, að setja sig að verulegu leyti inn í mörg þeirra mála sem deilt er um hverju sinni. Ef hann svo ætti að greiða atkvæði um þessi mál, þá yrði honum oftast nauðugur sá kostur að byggja atkvæði sitt á skyndiskoðun á því sem um málið hefði verið sagt. Það væru fjölmiðlakóngar og álitsgjafar sem ættu auðveldast með að hafa áhrif á afstöðu þessa almenna kjósanda. Og fyrir einhverja tilviljun þá eru það blaðaritstjórar og álitsgjafar sem eru hörðustu talsmenn „aukins lýðræðis“.